Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Tveir ættliðir Kirkjubæjarbænda leiða hér saman hesta sína. F.v. Ísabella frá Kirkjubæ, Hanna Rún Ingibergsdóttir, Ágúst Sigurðsson sem er nýr forstöðumaður Lands og skógar, Unnur Óskarsdóttir með Lilju Rún Hjörvarsdóttur, Hjörvar Ágústsson og Grund frá Kirkjubæ. Nú hafa Hjörvar og Hanna Rún tekið við keflinu í búskapnum, af Unni og Ágústi sem búsett eru á Hvolsvelli.
Tveir ættliðir Kirkjubæjarbænda leiða hér saman hesta sína. F.v. Ísabella frá Kirkjubæ, Hanna Rún Ingibergsdóttir, Ágúst Sigurðsson sem er nýr forstöðumaður Lands og skógar, Unnur Óskarsdóttir með Lilju Rún Hjörvarsdóttur, Hjörvar Ágústsson og Grund frá Kirkjubæ. Nú hafa Hjörvar og Hanna Rún tekið við keflinu í búskapnum, af Unni og Ágústi sem búsett eru á Hvolsvelli.
Mynd / aðsendar
Viðtal 12. janúar 2024

Ný stofnun byggð á traustum grunni

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ný stofnun, Land og skógur, tók um áramót við hlutverki og skuldbindingum Landgræðslunnar og Skógræktarinnar og segir forstöðumaður verkefnin fram undan ærin.

Matvælaráðherra skipaði í vetrarbyrjun Ágúst Sigurðsson forstöðumann Lands og skógar til fimm ára. „Áskoranir okkar nú fyrstu skrefin eru hreinlega að skipuleggja stofnunina, fag- og stoðsviðin og hin ótalmörgu verkefni sem við sinnum,“ segir hann. „Hvernig við vinnum þvert á svið og starfsstöðvar og hver gerir hvað. Þá eru ótal þættir sem þarf að samræma frá hinum eldri stofnunum og sem snúa m.a. að mannauðsmálum, fjármálum og bókhaldi, kerfum og stefnum.

En okkar stærsta áskorun er auðvitað grunnstef og meginmarkmið starfseminnar sem er að ná framúrskarandi árangri í að bæta gróður- og jarðvegsauðlindir Íslands og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra,“ segir hann.

Glögg yfirsýn og gæði

Skógræktin og Landgræðslan áttu marga snertifleti en áherslur gátu verið ólíkar og jafnvel öndverðar.

„Við ætlum að taka með okkur allt það góða sem hinar eldri stofnanir hafa staðið fyrir og byggja á því en skilja eftir það sem við þurfum ekki að nota,“ segir Ágúst. „Ég er kannski ekki í aðstöðu til að fullyrða um það sem við ætlum að breyta í starfseminni en ég get hins vegar sagt fullum fetum hvað við ætlum að leggja áherslu á.

Við ætlum að hafa glögga yfirsýn og byggja okkar starf á traustri þekkingu, vísindalegum grunni og því sem best hefur reynst í vinnubrögðum. Þá leggjum við mikið upp úr því að setja okkur mælanleg markmið í sem flestum þáttum til að máta okkur við og finna út hvernig okkur miðar. Þetta er mjög mikilvægt finnst mér.

Hinar eldri stofnanir bjuggu við það að vera eftirsóknarverðir vinnustaðir með gott orðspor og eiga í mjög árangursríku samstarfi innan lands sem utan og þeim styrkleika viljum við að sjálfsögðu halda og efla enn frekar. Þá er okkur afar mikilvægt að tryggja samhæfingu sviða og skilvirkni starfseminnar og sækja fram á sviði rannsókna, vöktunar og þróunar og þar liggur sterk áherslan án nokkurs vafa,“ segir Ágúst enn fremur.

Caption
Nýtt skipulag með nýjum sviðum

Búið hefur verið til nýtt skipulag fyrir Land og skóg, með nýjum sviðum og endurskoðuðu vinnulagi þvert á svið og verkefni.

„Sum sviðanna eru sambærileg við skipulag hjá fyrri stofnunum en verkefni og starfsfólk flyst að nokkru marki til,“ segir Ágúst og heldur áfram:

„Fagsviðin verða fimm talsins og fyrir þeim fara sviðsstjórar sem þegar hafa verið skipaðir. Bryndís Marteinsdóttir stýrir sviði Sjálfbærrar landnýtingar og er staðsett í Keldnaholti, Hreinn Óskarsson er sviðsstjóri Þjóðskóga og landa og er með starfsstöð á Selfossi, Brynjar Skúlason er sviðsstjóri Rannsókna og þróunar með aðsetur á Akureyri, Hrefna Jóhannesdóttir stýrir sviði Ræktunar og nytja með aðsetur í Skagafirði og Gústav Ásbjörnsson er sviðsstjóri Endurheimtar vistkerfa með aðsetur í Gunnarsholti.“

Þá séu skilgreind tvö ný stoðsvið sem gangi þvert á fagsviðin. „Annars vegar er það Gögn, miðlun og nýsköpun sem Gunnlaugur Guðjónsson stýrir og er staðsett á Egilsstöðum og hins vegar Fjármál og þjónustumiðstöð sem Elín Fríða Sigurðardóttir fer fyrir og hefur sína skrifstofu í Gunnarsholti.“

Að sögn Ágústs mun fólk í upphafi í flestum tilfellum sinna sömu verkefnum og áður þó svo að skipulagið hafi breyst en þegar frá líður er reiknað með að einhverjar breytingar geti orðið.

Allt ræktarland kortlagt

Meðal nýrra verkefna Lands og skógar er að kortleggja allt ræktarland á Íslandi sem henta þykir til matvælaframleiðslu. Er markmiðið að standa vörð um gott ræktunarland til að tryggja fæðuöryggi. Sveitarfélögum ber að taka mið af slíkri kortlagningu ræktarlands og hafa sem undirstöðu fyrir skipulagsgerð sveitarfélaga.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni, tel ég, og nokkuð umfangsmikið,“ segir Ágúst og heldur áfram: „Það er liður í að hugsa til lengri framtíðar og ná betur utan um hvað hentar hvar og hvernig skynsamlegast væri að haga nýtingu á þeirri takmörkuðu auðlind sem landið er.

Við erum þegar farin að huga að þessu og reiknum með að þetta verði unnið á næstu tveimur til þremur árum. Þetta er dæmigert verkefni sem verður unnið þvert á svið, og snertir líklega öll fagsviðin, auk þess sem teymi landupplýsinga á sviði Gagna, miðlunar og nýsköpunar mun leika lykilhlutverk í þessu. Síðan þarf auðvitað að viðhalda upplýsingunum áfram þó svo að grunnurinn verði unninn nokkuð þétt núna næstu árin.

Kortlagning ræktarlands sem þykir henta til matvælaframleiðslu er meginstefið í þessu verkefni en það hlýtur að liggja á borðinu að samhliða því er mikilvægt að ná yfirsýn á hvað hentar best til annarrar nýtingar, svo sem skógræktar. Við þurfum að horfa á heildarmyndina.“

Frá fjölmennri stofngöngu Ferðafélags Rangæinga á Stóru-Dímon með 250 félögum. Magnús Hlynur Hreiðarsson tekur viðtal við Ágúst Sigurðsson, forseta og upphafsmanns FFRang

Sjálfbær landnýting

Fleiri landbúnaðartengd verkefni liggja á borði stofnunarinnar. „Annað nýtt verkefni sem við höfum þegar fengið í hendur frá ráðuneyti okkar er að undirbúa innleiðingu reglugerðar um sjálfbæra landnýtingu,“ segir Ágúst og útskýrir að það hafi lengi staðið fyrir dyrum að sú reglugerð tæki gildi og nú sé endurskoðuð tillaga að henni á leið í samráðsgátt og reiknað með að hún taki gildi fljótlega. Samkvæmt endurskoðaðri tillögu sé Landi og skógi ætlað mjög stórt hlutverk við innleiðingu og framkvæmd reglugerðarinnar og undirbúningur þess hafinn.

„Reglugerð um sjálfbæra landnýtingu snertir landbúnaðinn á margan hátt og með beinum hætti og það er mjög mikilvægt að vel takist til við innleiðingu hennar. Kynning og samtal um þessi mál er fyrsta skrefið og ég reikna með að slík vinna hefjist þegar í stað. Reglugerðin er víðtæk og setur viðmið vegna beitarnýtingar, akuryrkju, framkvæmda og umferðar fólks og ökutækja,“ segir Ágúst enn fremur. Að hans sögn eru að auki mörg stór og mikilvæg verkefni sem snerta landbúnað með ýmsum hætti og haldið verði áfram að sinna. Þar megi nefna öll loftslags- og vöktunarverkefnin, kolefnismál, vernd og endurheimt vistkerfa, þ.m.t. votlendis og birkiskóga, hringrás næringarefna, verkefnið Bændur græða landið, skógrækt á lögbýlum, verkefni Landbótasjóðs, varnir gegn landbroti o.fl.

„Síðan er auðvitað samstarfsverkefnið Loftslagsvænn landbúnaður sem við tökum þátt í með RML og mörg fræðsluverkefni í víðtæku samstarfi við marga aðila, t.d. Grænni skógar í samstarfi við BÍ og félög skógarbænda undir hatti Endurmenntunar græna geirans á Reykjum,“ hnýtir hann við.

Gleðiríkur fjölskyldufundur með barnabörnum: Unnur heldur á Lilju Rún Hjörvarsdóttur og Ágúst á Leó Árnasyni. Fyrir aftan þau standa Arngrímur Ágúst og Patrekur Örn Elvarssynir.

Stafrænar höfuðstöðvar

Starfsstöðvar Lands og skógar eru átján talsins og staðsettar vítt og breitt um landið.

Ekki var talin knýjandi þörf á að skilgreina sérstakar höfuðstöðvar og því eru höfuðstöðvar Lands og skógar stafrænar. Ágúst segir ástæður þess aðallega vera hina breyttu tíma og tækni; annað samskiptaform en áður var.

„Í okkar starfi förum við hins vegar mikið út til fólks og verkefna og því skiptir miklu máli að starfsstöðvar okkar séu á heppilegum stöðum úti um landið á hverjum tíma í nálægð við hin staðbundnu verkefni, samstarfsaðila og skjólstæðinga. Við viljum mjög gjarnan fá gesti á okkar starfsstöðvar og tökum fagnandi á móti þeim,“ segir hann.

Við upphaf starfseminnar vinna tæplega 140 manns hjá Landi og skógi, um allt land. Flest starfsfólk er þó í Gunnarsholti, Keldnaholti, á Mógilsá, Egilsstöðum og Selfossi. Mikilvægar starfsstöðvar eru í Hallormsstað, Ásbyrgi, Hvammi í Skorradal, Þjórsárdal og Haukadal og á Akureyri, Vöglum, Silfrastöðum, Sauðárkróki, Ísafirði, Brún í Víðidal, Hvanneyri og Tumastöðum.

„Svo má segja að 19. starfsstöðin okkar sé í Þórsmörk en þar er fjörleg starfsemi frá vori til hausts ár hvert og byggir mikið á þátttöku sjálfboðaliða auk sumarstarfsfólks. En síðan bætist mikið við hópinn yfir sumartímann við verkefni er lúta að skógum og landgræðslulöndum, rannsóknastörfum, vöktun o.fl. Þar er oft um að ræða skólafólk og erlenda sjálfboðaliða en margt af okkar núverandi starfsfólki kom einmitt fyrst til okkar sem sumarstarfsfólk í skólaleyfum frá t.d. háskólanámi,“ bætir Ágúst við.

Ættliðaskipti á Kirkjubæ

Ágúst er kvæntur Unni Óskarsdóttur leikskólakennara og búa þau á Hvolsvelli. Hún er Fljótshlíðingur og Landeyingur að ætt og uppruna en alin upp á Hvolsvelli. „Við erum búin að vera saman í hartnær 40 ár,“ segir Ágúst en sjálfur er hann að hálfu Fljótshlíðingur og að hálfu Eyfellingur en hefur alla tíð átt sína heimahöfn á Kirkjubæ á Rangárvöllum. Fyrst með foreldrum sínum og systkinum, frá 1967, en frá 1992 þau Unnur með fjölskyldunni og nú standa yfir ættliðaskipti og þriðji ættliður fjölskyldu Ágústs tekinn við búsforráðum að Kirkjubæ.

Börnin eru fjögur; Elvar og Hjörvar uppkomnir og Assa og Dagur háskólanemar.

Kirkjubær mun vera eitt fyrsta íslenska sveitabýlið sem byggði á hrossarækt og hestamennsku. „Foreldrar mínir byggðu afkomu sína á hrossarækt og sama má segja um þá sem áttu og ráku búið á undan þeim,“ útskýrir Ágúst. „Við Unnur höfum hins vegar alltaf verið í fullu starfi við annað meðfram búsýslunni en nýja kynslóðin sem nú hefur tekið við rekstrinum hefur sína afkomu alfarið af hrossum og hestatengdri þjónustu.“

Hrossaræktin í Kirkjubæ var á sínum tíma þekkt fyrir einkennislitinn rauðblesótt og glófext en í seinni tíð hefur litafjölbreytnin orðið meiri. Ágúst tekur þó fram að þess sé gætt að halda þessu við.

Hann hefur átt hesta frá barnæsku en nú ber svo við að hann á engan hest sjálfur. Það kemur þó ekki í veg fyrir að hann bregði sér á bak Kirkjubæjarhestunum.

„Það er reyndar þannig að forystufólk skógræktar og landgræðslu í gegnum tíðina hefur í mörgum tilfellum verið hestafólk og jafnvel í forystu fyrir landsmenn í þeim efnum. Þar má nefna Einar G. E. Sæmundsen, skógarvörð og formann Skógræktarfélags Íslands, Hauk Ragnarsson, forstöðumann á Mógilsá, Svein Runólfsson landgræðslustjóra og Jón Loftsson skógræktarstjóra. Þannig að í ljósi sögunnar virðist alveg fullkomlega eðlilegt að forstjóri Lands og skógar sé líka hestamaður þótt það sé kannski ekki nauðsynlegt,“ segir hann kankvís.

Stóðhryssur í Kirkjubæ á Rangárvöllum, bæjarhús og Hekla í baksýn. Ágúst er mikill átthagamaður og hefur yndi af ríkulegum sagnaarfi Rangárvalla

Svæði þrungið sögu

Ágúst hefur mikinn áhuga á sögu og menningu Íslands. „Það hefur haft mikil áhrif á mig að búa á Kirkjubæ og hafa sögusviðið fyrir augunum umkringt Heklu, Tindfjöllum, Þríhyrningi, Mýrdalsjökli, Eyjafjallajökli og Vestmannaeyjum, svo eitthvað sé nefnt,“ segir hann og gefur eftirfarandi innsýn í söguna:

„Vellirnir milli Rangánna tveggja eiga sér merka búsetusögu en fyrstur mun hafa numið þar land, skömmu fyrir árið 900, Ketill hængur frá Naumdælafylki í Noregi.

Hann settist að á Stóra-Hofi á Rangárvöllum og nam stór lönd um allt Rangárþing en virðist síðan fljótlega hafa deilt hér skikum milli ættingja sinna og vina.

Rökfastir fræðimenn telja enga ástæðu til að draga í efa að bæjarnafnið Kirkjubær á Rangárvöllum sé miklu eldra en trúskiptin árið 1000. Þeir hafa reyndar gengið svo langt að fullyrða að Ketill hængur hafi eftirlátið þennan skika úr landnáminu kristnum mönnum sem líkast til komu frá Bretlandseyjum,“ upplýsir Ágúst. Þetta sé a.m.k. skemmtileg kenning en elsti máldagi fyrrum kirkju í Kirkjubæ er frá 1367 og þegar grafið var fyrir gamla íbúðarhúsinu í Kirkjubæ fyrir tæpri öld síðan komu menn niður á fornan grafreit.

„Ég hugsa oft til þess að það eru svo sem ekkert margir ættliðir síðan að hér voru helstu nágrannarnir t.d. Hrafn Hængsson á Stóra-Hofi, Gunnar Baugsson í Gunnarsholti, Sæmundur fróði í Odda, Ingjaldur á Keldum og Stórólfur Hængsson á Hváli, þar sem nú stendur Hvolsvöllur,“ heldur Ágúst áfram.

„Það er heldur ekkert svo langt síðan að hinn konungborni leiðtogi Jón Loftsson í Odda fór hér reglulega á hesti um túngarðinn í Kirkjubæ, kirkjuveginn upp að Keldum, og hafði örugglega oft með sér fósturson sinn, Snorra Sturluson.

Sæmundarstofa rísi í Odda

Merkasti sögustaður okkar hér og vagga menningar á landsvísu er Oddi á Rangárvöllum og hugsjón okkar margra og ætlunarverk er að þar muni rísa Sæmundarstofa á næstu árum og við náum að „Vekja úr mold hina sögustóru fold“ líkt og fyrrum sóknarprestur okkar Rangvellinga, Matthías Jochumsson, orðaði það.“

Ágúst tekur hinu nýja verkefni sem forstöðumaður Lands og skógar fagnandi.

„Ég er svo heppinn að mér hefur ávallt þótt gaman í vinnunni og þá góðu reynslu er ég staðráðinn í að taka með mér í þetta nýja og spennandi starf fyrir Land og skóg,“ segir hann að lokum. Vefsíða Lands og skógar er www.landogskogur.is.

Skylt efni: Land og skógar

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt