Öflug innspýting í vatnsgæðamál
Markmið ICEWATER- verkefnisins er að bæta vatnsgæði í Íslandi og flýta innleiðingu vatnaáætlunar. Verkefnið hlaut nýlega 3,5 milljarða styrk frá ESB.
Umhverfis- og orkustofnun hlaut, ásamt 22 samstarfsaðilum, 3,5 milljarða króna styrk skömmu fyrir áramót úr LIFE-áætlun Evrópusambandsins til verkefnis sem ber heitið ICEWATER. Er markmið þess að auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi. Jafnframt á að tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum. Þá er ætlunin að bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni. Einnig á að fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns.
Styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefna sem þáverandi Umhverfisstofnun, nú Umhverfis- og orkustofnun (UOS), sótti um styrk fyrir er samtals um 5,8 milljarðar íslenskra króna. LIFE- áætlun ESB styrkir verkefnið um 60%, eða samtals um 3,5 milljarða króna, sem dreifast á samstarfshópinn. Fellur því í hlut innlendra aðila að fjármagna kostnað upp á 2,3 milljarða króna. Verkefnin spanna árin 2025–2030.
Uppbyggingarstarf fram undan
UOS leiðir sem fyrr segir LIFE ICEWATER-verkefnið og mun teymi Hafs og vatns á stofnuninni sinna faglegri vinnu innan verkefnisins.
Sæmundur Sveinsson, sérfræðingur hjá UOS, er verkefnastjóri LIFE ICEWATER. „Verkefnið hófst 1. janúar og mun standa yfir næstu sex árin. Okkar væntingar eru að þeim tíma liðnum hafi þekking okkar á vatnsauðlindinni aukist til muna, stjórnsýslan um auðlindina verði fumlaus og tryggi gæði hennar til framtíðar, ásamt því að unnið verður að verkefnum til að draga úr álagi á vatn sem geta síðan verið fordæmi fyrir önnur verkefni á Íslandi,“ segir Sæmundur.
Hann útskýrir að hlutverk stofnunarinnar sé tvíþætt. Stofnunin beri ábyrgð á verkefnastjórnun og samhæfingu vinnu innan LIFE ICEWATER. Þá stýri stofnunin þremur af sex faglegum vinnupökkum verkefnisins. Þeir snúi að miðlun þekkingar til almennings og hagaðila, úrbótum í stjórnsýslu og gæðum ferskvatns hér á landi og aukinni sjálfbærni í vatnamálum á Íslandi til framtíðar.
Dæmi um afurðir verkefnisins séu aukin þekking á neysluvatni á höfuðborgarsvæðinu, hreinsun yfirborðsvatns á Keflavíkurflugvelli, aðgerðir til að draga úr álagi á Þingvallavatn vegna fráveitu frá Nesjavallavirkjun, úrbætur á hreinsun fráveituvatns í Hveragerði og úrbætur á fráveitu sveitarfélaganna Grundarfjarðar og Ísafjarðar.
Ísland eftirbátur Evrópu
„Þessi styrkur frá Evrópusambandinu er gríðarlega mikilvægur í þeim skilningi að við erum að fá fjármagn til að hraða innleiðingu verkefna sem snúa að því að tryggja góð vatnsgæði um allt land,“ segir Sæmundur. Hann útskýrir að Ísland hafi innleitt lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og gefi út vatnaáætlun á sex ára fresti. Fyrsta vatnaáætlun Íslands var gefin út árið 2022 en Ísland sé töluvert á eftir Evrópu í þessum efnum.
„Flestir myndu telja að íslenskt vatn væri í góðu ástandi en okkur skortir samt sem áður gögn til að staðfesta að svo sé. Í vatnaáætlun voru 18 vatnshlot skilgreind í óvissu um gæði og álag á þau er mikið vegna t.d. beinnar losunar mengunarefna, eitt í hættu um að uppfylla ekki umhverfismarkmið og síðan þá hafa frekari upplýsingar um álag og vatnstöku komið fram sem taka þarf á,“ segir hann.
Í forgangi um úrbætur
Þau vatnshlot og álagsþættir sem eru algengir á Íslandi eru, skv. Sæmundi, í forgangi um úrbætur.
„Til dæmis má nefna að grunnvatnshlotið undir Reykjanesbæ, Suðurnesjabæ og Keflavíkurflugvelli er í óvissu vegna ýmiskonar álags á svæðinu, bæði núverandi og fortíðarmengun. Isavia er meðal annarra þátttakandi í verkefninu og ætlar að ráðast í hreinsun á yfirborðsvatni af bílastæðum og fráveitu frá bílaleigum til að draga úr mögulegri mengun í grunnvatnshlotið.
Tvö vatnshlot eru auk þess skilgreind í slæmu efnafræðilegu ástandi (Tjörnin í Reykjavík og Kópavogslækur) og í báðum tilfellum ætla sveitarfélögin að fara í vinnu við að rekja uppruna mengunar og ráðast í úrbætur þar sem það er hægt,“ segir Sæmundur jafnframt.
Þá séu fráveitumálin víða í ólestri á Íslandi og nokkur sveitarfélög sem taka þátt ætli í úrbætur í hreinsun (Hveragerði, Grundarfjörður með blágrænar ofanvatnslausnir og Ísafjörður).
Verklag fyrir lítil fráveituhreinsivirki
Auk framkvæmdaverkefna segir Sæmundur verða unnið að ýmsum úrbótaverkefnum í stjórnsýslu, s.s. að endurskoða og einfalda regluverk sem geti stundum verið að hluta úrelt, eða að einfalda stjórnsýslu milli mismunandi aðila með aukinni samvinnu.
„Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, með stuðningi sveitarfélaganna Bláskógabyggðar og Grímsness- og Grafningshrepps, ætlar að vinna að gerð verklags og umsókna fyrir lítil fráveituhreinsivirki og tryggja þannig skilvirkari stjórnsýslu. Það verkefni verður síðan hægt að yfirfæra á allt landið,“ heldur Sæmundur áfram.
„Við viljum einnig tryggja gæði neysluvatns okkar og stjórnsýslu í kringum það á að bæta. Hafin er vinna við að skrifa nýja reglugerð fyrir neysluvatn sem ýmsir aðilar koma að, einnig á að einfalda og straumlínulaga gagnaskil heilbrigðiseftirlita til Matvæla- stofnunar um gæði neysluvatns og vinna að leiðbeiningum um afmörkun vatnsverndarsvæða og eftirlit með neysluvatnstöku,“ segir hann.
Sæmundur telur að sókn í grunnvatnsauðlind Íslands, hvort sem um ræði grunnvatnstöku eða losun á mengandi efnum út í vatn, hafi aukist mikið undanfarin ár og mikilvægt sé að stjórnsýslan sé í stakk búin til að tryggja gæði hennar og að hlutverk og ábyrgð þeirra sem hana nýta sé skýrt. „Verkefni sem snúa að endurskoðun á reglugerðum, fyrsta vöktunarverkefni á grunnvatnshlotum og gagnaöflun um grunnvatnsnotkun verður bætt sem liður að því markmiði,“ segir Sæmundur að endingu.
Matvælastofnun skoðar neysluvatn
Matvælastofnun er einn samstarfsaðilanna í LIFE ICEWATER. Hildigunnur Sveinsdóttir, fagsviðsstjóri neysluvatns, örvera og matarborinna sýkinga hjá Mast, segir að neysluvatn sé lagalega skilgreint sem matvæli og skuli því uppfylla ákvæði laga um matvæli.
„Helstu verkefni Matvælastofnunar heyra undir vinnupakka þrjú sem snýr að grunnvatni. Þar ber helst að nefna verkefni við að samræma verkferla varðandi eftirlit heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga með neysluvatni og bæta gagnaskil um gæði neysluvatns,“ segir Hildigunnur. Einnig komi Matvælastofnun að vinnu við að samræma kerfi mismunandi stofnana svo hægt sé að deila upplýsingum á milli þeirra.