Opnaði heimilið gestum og gangandi fyrir hálfri öld
Steinasafn Petru er sannkölluð perla í þéttbýlinu á Stöðvarfirði. Auk ógrynnis steina er þar gestastofa og kaffihús í ævintýralegum lystigarði.
„Mig langar að fólk staldri við. Það stoppi, andi, hlusti á fuglana, á lækina sem streyma hér niður fjallshlíðarnar og finni vindinn og sólina á andlitinu. Andi að sér ilminum af blómunum. Njóti augnabliksins. Og fái sér svo gott kaffi og snúð á eftir!“ segir Unnur Sveinsdóttir, nýr rekstraraðili Steinasafns Petru á Stöðvarfirði.
Safnið var sett á fót árið 1974 og fagnar því hálfrar aldar afmæli nú í sumar. Safnið hefur löngum verið talið stærsta steinasafn í heimi í einkaeign.
Skoðað í skriður
„Amma mín, Ljósbjörg Petra María Sveinsdóttir frá Stöðvarfirði, og afi minn, Jón Lúðvík Ingimundarson frá Berufirði, fluttu inn í þetta hús, Sunnuhlíð á Stöðvarfirði, árið 1946,“ greinir Unnur frá. „Þá voru þau ung hjón að kaupa sér lítið hús, byggðu svo við það í allar áttir og bjuggu hér allan sinn búskap. Fyrst um sinn voru þau með eina kú og einhverjar kindur, það sem fólk átti til heimilisins á þessum árum. Svo eignuðust þau fjögur börn og ólu þau upp.“
Unnur segir að Petra hafi smitað afa hennar af steinasöfnunar- bakteríunni og um leið og þau höfðu aðstöðu til að koma steinum fyrir hafi þau farið að safna þeim fyrir alvöru.
„Afi var sjómaður og fylgdist með af hafi hvar fallið höfðu skriður og þá var farið og athugað hvort þar væri eitthvað að finna. Hann lést árið 1974, aðeins 52 ára að aldri. Þegar hann var borinn til grafar var hér eitthvert fólk í garðinum að skoða steinana þeirra og amma ákvað við það tækifæri að Sunnuhlíð skyldi þá bara ævinlega verða opin fyrir gesti. Heimilið hefur verið opið síðan og því erum við að halda upp á fimmtíu ára starfsafmæli nú í sumar,“ útskýrir Unnur.
Heimafólkið fær að njóta sín
Á þessari hálfu öld hefur safnið smám saman undið upp á sig, með fleiri steinum og byggingum, svo sem kaffihúsi, fræðslustofu og salernishúsi.
„Í Söguhúsinu eru nokkur lítil söfn, af því að amma safnaði öllu,“ heldur Unnur áfram. „T.d. skeljum, kuðungum, pennum, eggjum og vasaklútum. Hún átti vinkonu og þær fóru þá leið að gefa hvor annarri að minnsta kosti vasaklút í jólagjöf alla tíð, sama hver staðan væri á vinskapnum á því augnabliki. Ef vel stóð á í vinskapnum fylgdi eitthvað meira með. Þetta gerðu þær alla sína ævi, urðu báðar aldraðar konur svo vasaklútarnir urðu margir.
Í Söguhúsinu er líka sögu safnsins og ömmu, sem fæddistá aðfangadag árið 1922, gerð nokkur skil,“ segir hún.
Kaffi Sunnó var opnað fyrir nokkrum árum og þar er í boði kaffi frá Kaffibrennslunni Kvörn á Stöðvarfirði og heimabakað súrdeigsbrauð og kræsingar sem Kimi Taylor galdrar fram af listfengi og næmum bragðlaukum.
„Við bindum miklar vonir við kaffihúsið og erum að færa fókusinn yfir á samvinnu við heimafólk, sem er að gera frábæra hluti, og nýta okkur það sem er til í nærumhverfinu,“ segir Unnur.
„Samstarfið við Kimi með baksturinn og Lúkas hjá Kvörn er frábært og gerir kaffihúsið okkar alveg sérstakt. Kaffihúsið er í rauninni gamall draumur afa og fyrst og fremst er þetta hugsað sem þjónusta við gesti sem koma hér og staldra við,“ segir hún.
Þriðja kynslóðin tekur við
Steinasafn Petru hefur alltaf verið rekið af fjölskyldunni. Börn Petru og Nenna hjálpuðu ævinlega til og eftir að hún lést árið 2012 skiptu þau rekstrinum á sig. Hver fjölskylda tók þá hluta af sumrinu í vinnu við safnið. Fjórmenningarnir létu það nýlega í hendur afkomendum sínum, tólf talsins, og var þá farin sú leið að finna safninu einn rekstraraðila í umboði stjórnar úr hópi barnabarna Petru. Unnur hafði það svigrúm sem til þurfti og leigir hún reksturinn ásamt Högna Páli Harðarsyni manni sínum, viðskiptafræðingi og vélstjóra.
Unnur er listmenntaður kennari, myndlistarmaður, sviðsmynda hönnuður og rithöfundur og hefur kennt m.a. leiklist og myndlist. Hún hefur til dæmis hannað og sett upp sýningar fyrir söfnin í Fjarðabyggð, m.a. Stríðsminjasafnið, Náttúrugripasafnið í Neskaupstað og Randulfssjóhús á Eskifirði. Þessi reynsla öll nýtist vel á safninu. Hún segist ekki hafa getað hugsað sér að láta einhvern óviðkomandi, utan fjölskyldunnar, taka safnið að sér. „Ekki meðan við erum að taka við af foreldrum okkar,“ útskýrir hún. „Ég lít á mig sem einhvers konar millistykki, hvað sem svo verður.“ Þá verði búið að koma safninu í þannig horf að einhver annar geti tekið við án þess að hafa gífurlega mikið fyrir því.
Bera arfleifð Petru í hjarta sér
„Ég er alin upp í þessu húsi, bjó hér fyrstu árin mín og foreldrar mínir búa í þarnæsta húsi svo ég var alltaf hér. Maður hefur verið hér að bera grjót, vaða í drullu, búa til skúlptúra, stilla upp og græja og gera, eins og allir í fjölskyldunni. Við brennum öll fyrir þessum stað. Ég veit ekki hversu mörg barnabörn og barnabarnabörn heita Ljósbjörg og Petra eða eru kennd við stein. Við berum þetta öll í hjarta okkar á einhvern hátt.“
Hún segir að enn safni fjölskyldan steinum í einhverjum mæli. „Flest allir í þessari fjölskyldu eru útivistarfólk og ekkert þeirra myndi ganga fram hjá fallegum steini. Fólk myndi drösla honum með sér til byggða með góðu eða illu!“ segir hún glettin. Lögð er áhersla á að unga fólkið í fjölskyldunni geti komið í styttri tíma til starfa og haldið þannig í ræturnar.
Hún segir iðulega þyrma yfir gesti safnsins þegar þeir skynja þungann í ævistarfi Petru, allan grjótburðinn ofan úr fjöllunum. Fólk komi til hennar með tárin í augunum, alveg hreint yfirkomið af eljusemi þessa einþykka náttúrubarns sem gekk um fjöll og firnindi með níðþungan pokaskjatta fullan af grjóti fram á elliár.
Efla fræðilegan vinkil safnsins
Að jafnaði starfa þrír til fjórir í Steinasafni Petru á hverjum tíma. Sinna þarf miðasölu, kaffihúsinu, garðvinnu, þrifum og fjölmörgu fleiru. Gestir hafa verið allt upp í 700 manns á einum degi en eru að jafnaði rúmlega 20 þúsund yfir árið. Safnið er opið frá maíbyrjun til miðs október.
Tekið hefur verið upp samstarf við Sköpunarmiðstöð Stöðvarfjarðar í gamla frystihúsinu við höfnina. Þar á að koma upp verkstæði Steinasafns Petru, með tromlum, steinsögum og borum til að vinna með steina, m.a. í skartgripi. Jafnframt hefur listafólk sem dvelur í Sköpunarmiðstöðinni í listamannadvöl frjálsan aðgang að safninu.
Þess má og geta að Haukur Valdimarsson, gullsmiður í Reykjavík, smíðar silfurskartgripi með steinum frá safninu og eru þeir seldir þar.
Innandyra eru ágætar merkingar á öllum steinum en Unnur hefur hug á að bæta merkingar utandyra. Þá þykir henni fýsilegt að efna til samstarfs við fræða og menntastofnanir og efla fræðilegan vinkil safnsins, m.a. með gerð upplýsingaefnis. Þá væri t.d. unnt að taka á móti skólahópum til fræðslu um steinaríkið.
Allt frá jaspis til barýts
Unnur segist ekki hafa neina hugmynd um fjölda steina í safninu en reikna megi með að þeir skipti tugum þúsunda. Hún segir mest vera af kvarsi. Það sé algengasta yfirtegundin og undir það falli t.d. bergkristall, jaspis, agat, ónix, ametyst og ópall. „Það er mjög mikið af kvarsi hér í fjöllunum. Og líklega er algengasti steinninn hér í safninu jaspis, sem er dásamlega fallegur steinn, afar litríkur og oft með fallegum myndunum og litaskiptum. Fágætasti steinninn okkar er barýt sem er þó ekki sérlega mikið fyrir augað.“
Hún er spurð hvort ekki sé alltaf farið með eins og mannsmorð hvar steinar finnast? „Jú, og við gefum bara mjög óljós og loðin svör,“ segir hún hlæjandi. „Ef fólk langar að tína sér steina í vasann þá vísa ég því nú bara niður í fjöru,“ bætir hún við.
Hún verður lítið vör við að fólk sé að hnupla steinum en man þó eftir sögu af stórtækum þjófi. „Hann var í ansi víðum buxum gyrtum ofan í hnéháa sportgöngusokka. Svo gekk hann víst hér um og tíndi minni steina inn í gegnum buxnaklaufina ofan í buxnaskálmarnar. En hann var nú stoppaður af og skálmarnar tæmdar hjá honum fyrir brottför!“ segir Unnur að endingu.