Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Álfsól Lind Benjamínsdóttir, skógfræðingur í Sólskógum, heldur hér á kettinum Kela, öldruðum höfðingja sem fæddur er og uppalinn í gróðrarstöðinni.
Álfsól Lind Benjamínsdóttir, skógfræðingur í Sólskógum, heldur hér á kettinum Kela, öldruðum höfðingja sem fæddur er og uppalinn í gróðrarstöðinni.
Mynd / Aðsendar
Viðtal 2. febrúar 2024

Skógfræðidúx tekur við gróðrarstöð

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Ungur skógfræðingur norðan heiða hugar að hvernig efla mætti lifun skógarplantna með svepprótarsmiti og undirbýr sig til að taka við rekstri Sólskóga ásamt manni sínum.

Álfsól Lind Benjamínsdóttir stundaði nám við NMBU, norska landbúnaðarháskólann í Ási. Þar tók hún BS- og mastersnám, auk hálfs árs skiptináms í Göttingen í Þýskalandi.

Hún varði meistararitgerð sína í ágúst sl., hlaut hæstu einkunn á meistaraprófinu og fékk verðlaun frá samtökum norskra skógareigenda fyrir vikið; um 750 þúsund krónur.

Meistaraverkefni Álfsólar snerist um þróun aðferða við að koma svepprótarsmiti inn í ræktunarferla í skógarplöntuframleiðslu.

Tvísmitun skilar betri lifun

„Ástæðan fyrir því að ég valdi þetta verkefni er að lifun [plöntur sem lifa enn u.þ.b. 3 vetrum eftir gróðursetningu, innsk.blm.] er ekkert sérstök á Íslandi, oft frekar lítil, og mér varð tíðhugsað um hvernig hægt væri að bæta lifun,“ segir Álfsól.

„Ég skrifaði verkefni í skólanum um áhrif svepprótarsmits á lifun, flestar fræðigreinar sem ég las fyrir verkefnið fundu jákvæð tengsl milli smitunar sveppróta og lifunar.“

Þá segir Álfsól hugmynd hafa kviknað um hvort hægt væri að setja svepprótarsmit inn í venjuleg framleiðsluferli skógarplantna og hún valið það sem lokaverkefni.

„Helsta niðurstaðan er að ég tel vera mögulegt að koma svepprótarsmiti inn í framleiðslu skógarplantna,“ segir hún og heldur áfram:

„Ég var með nokkrar aðferðir í gangi við smitun lerkis og ein alveg sérstaklega sem gaf góða raun og skilaði mestu en það var að smita í tvígang. Þeim sérfræðingum sem ég bar þetta undir fræðilega, m.a. framleiðendum svepprótarduftsins, leist svo sem ekkert á það og töldu að óreyndu tvísmitun ekki myndu bæta smitið.

Hvatning var frekar á þann veg að sleppa tvísmitun því enginn hafði trú á slíku. Ég ákvað samt að prófa og það reyndist einmitt gefa betri niðurstöður.“

Smitunin fór þannig fram að hún blandaði þýsku svepprótardufti, sérhæfðu fyrir vökvun á skógarplöntum, í vatn og drekkti plöntunum.

Við tvísmitun tók hún plöntur úr bökkunum, skoðaði eftir fínrótum og þegar þeirra varð vart smitaði hún hluta plantnanna aftur með dýfingu.

Hinn snjalli og afkastamikli priklunar-róbót í Sólskógum gerir stöðinni kleift að framleiða um sjö milljónir plantna fyrir næsta ár, mest birki og stafafuru en einnig lerki, ösp og sitkagreni.

Mun halda rannsóknum áfram

Álfsól er því búin að kasta áhugaverðum bolta upp í loftið. Hún er í kjöraðstæðum til að skoða þetta áfram þar sem hún starfar á garðyrkjustöðinni Sólskógum og er raunar að taka smám saman við rekstri hennar ásamt maka sínum, Guðmundi Gíslasyni garðyrkjufræðingi. Hann er sonur hjónanna Katrínar Ásgrímsdóttur og Gísla Guðmundssonar sem rekið hafa Sólskóga um árabil, fyrst á Fljótsdalshéraði og svo í Kjarnaskógi við Akureyri.

„Það er draumurinn fyrir framtíðina að kanna þetta betur,“ segir Álfsól. „Kannski ekki í sumar, maður er svona að koma sér inn í starfsemina hér og sjá alla boltana sem eru á lofti nú þegar á stöðinni. Ég sé þetta þó alveg fyrir mér, eftir tvö til þrjú ár, þegar ég verð búin að koma mér inn í verkefnin hér, að ég finni mér tíma til að halda rannsókninni áfram. Svepprótarsmitið er mjög sérhæft viðfangsefni og ég veit ekki til þess að neinn annar sé að skoða það núna hér á Íslandi,“ segir Álfsól einnig. Flest allar rannsóknir sem hún hafi fundið, um að smita plöntur og planta þeim út, bendi til að lifun aukist. „Auk þess sýnist mér það skila betri plöntum.“

Þess ber að geta að hérlendis starfar aðili sem kallast Rootopia, m.a. að ræktun nytjaplantna í samlífi við svepprótarsveppi. Virðast því vera heilmiklir möguleikar til að efla íslenska skógrækt með áframhaldandi rannsóknum og tilraunum á aukinni lifun með svepprótarsmiti.

Tæknivæðing hjá Sólskógum

Þessa dagana er Álfsól að koma sér inn í allt sem lýtur að starfsemi Sólskóga og rekstri fyrirtækisins. Þau Guðmundur séu að taka við, hægt og rólega.

Skógarplöntuframleiðsla er um 70% af starfseminni en auk þess er garðyrkjustöðin með skrauttré og -runna, rósir, sumarblóm, matjurtir og krydd. Stöðugildi séu um 12,5 og fyrirtækið á góðri siglingu.

„Jú, þetta er allt í blóma,“ segir hún. „Við erum búin að vera í uppbyggingu í skógarplöntunum og verið gífurleg aukning hjá okkur þar.

Seinasta vor tókum við í gagnið svonefndan priklunar-róbót sem gerir okkur kleift að sá plöntum í bakka með mjög litlum hólfum. Þannig getum við nýtt plássið í gróðurhúsunum mun betur og aukið framleiðsluna án þess að byggja
meira.

Svo fara þessar plöntur í litlu bökkunum í gegnum róbótinn sem tekur þær upp og setur í venjulegu bakkastærðirnar,“ útskýrir hún. Þarna sparast því gríðarmörg mannleg handtök og róbótinum að þakka að þau geti aukið framleiðsluna eins og raun beri vitni. Markmiðið sé að anna eftirspurn.

„Fyrir næsta ár held ég að stefnt sé á um 7 milljónir plantna, mest birki og stafafuru en einnig lerki, ösp og sitkagreni,“ segir Álfsól.

Þau stefni jafnframt að innleiðingu sjálfvirkrar vökvunar fyrir garðplönturnar á næstu fimm árum eða svo.

Um framtíðaráformin segist hún gera ráð fyrir að verða áfram í Sólskógum eins langt og augað eygi.

„Ég geri ráð fyrir að reyna að framleiða eins og eftirspurnin kallar á og fá meiri skóg sem víðast. Það stuðlar að auknum líffræðilegum fjölbreytileika og myndar svæði fyrir skordýrin, fuglana og fleiri lífverur,“ segir Álfsól að endingu.

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt