Ungir gulrófnabændur í Ölfusi
Zophonías Friðrik Gunnarsson og Hrafnhildur Björk Guðgeirsdóttir eru rófnabændur á Læk í Ölfusi. Þau tóku við jörðinni í byrjun árs 2020 og hófu skömmu síðar rófnabúskap fyrir hálfgerða tilviljun.
Zophonías Friðrik, sem er yfirleitt kallaður Friðrik, á ættir að rekja til Lækjar. Amma hans og afi voru þar bændur og tóku faðir og föðurbróðir Friðriks við jörðinni í kringum aldamótin. Hrafnhildur og Friðrik keyptu hlut föðurbróðurins í lok árs 2019 og fluttu í kjölfarið á Læk.
Síðla vetrar 2020 fréttu Friðrik og Hrafnhildur af því að nágrannarnir Hrafnkell Karlsson og Sigríður Gestsdóttir á Hrauni hygðust hætta í búskap, en þau höfðu verið rófnabændur um árabil. Ungu hjónin ákváðu að semja við þau um kaup á öllum útbúnaði til rófnaræktunar þar sem þau áttu stórt hús á Læk sem þau vildu nýta undir einhverja starfsemi. Þetta vor sáðu þau sínum fyrstu gulrófum.
Þekkingin skipti sköpum
Ákvörðunin að gerast rófnabændur var ekki erfið þó þau hafi aldrei stefnt í þessa átt. Þá hafi verið mikil lyftistöng að fá allan nauðsynlegan búnað strax í byrjun, þó þau hafi endurnýjað flest síðan þá. „Ef við hefðum ekki haft þetta start sem við höfðum er ég ekki viss um að þetta hefði gengið eins vel,“ segir Friðrik, en aðgengið að þekkingu Hrafnkels og Sigríðar skipti ekki síður sköpum.
Þeim fannst fyrsta árið vera mikill sprengur þar sem þau þurftu að flytja allan búnaðinn á nýjan stað og sá um vorið, en um sumarið hafi tekið við mikil vinna við að koma upp vinnslu og kæligeymslu. Samhliða þessu voru þau í öðrum störfum, en þau hafa unnið í ýmiss konar verktöku ásamt því sem Hrafnhildur er sveinn í háriðn.
Friðrik var kjörinn formaður Félags rófnabænda á aðalfundi í vor. Hann segir að það sé nokkur kraftur í stéttinni núna þar sem ungt fólk hefur tekið við búi á nokkrum bæjum. Á landinu eru tíu til tólf framleiðendur, en hann segir þá tölu mismunandi milli ára. Hann gerir sér vonir um að félagið muni eflast á næstunni, en starfsemi þess hefur verið takmörkuð undanfarin ár.
Þrír til fjórir hektarar
Gulrófnagarðarnir á Læk voru fjórir hektarar í sumar, en hafa verið tveir og hálfur fram að því. Uppskeran er á bilinu 50 til 100 tonn, en hún er breytileg eftir árferði. Á haustin er byrjað að undirbúa jarðveginn, ýmist með því að tæta eða plægja. Í apríl og maí á sér stað frekari jarðvinnsla og er rófunum sáð þegar hætta á næturfrosti minnkar. Sérstakir netdúkar eru lagðir yfir garðana eins fljótt og hægt er, en þeir koma í veg fyrir aðgang kálflugu og auka hita á plöntunum.
Yfir sumarið tekur við eftirlit og kemur stundum fyrir að þau þurfa að grípa inn í með úðun gegn sníkjudýrum eða illgresi. Þau reyna að forðast að reyta arfa með höndum sem Friðrik segir óheyrilega leiðinlegt verk sem auki hættu á aðgengi kálflugu.
Uppskera í byrjun ágúst
Fyrsta uppskeran hefur stundum verið í kringum verslunarmannahelgi, en þá eru rófur sem hafa náð fullri stærð handtíndar. Þær sem eru minni fá að vaxa lengur og er allt tekið upp með vélum á haustin. Upptökuvélin, sem er knúin áfram af dráttarvél, er með vinnsluborð þar sem þrír aðilar geta hreinsað frá mestu óhreinindin og er uppskerunni safnað í sekki.
Þegar rófurnar eru fluttar heim fara þær beint í kæli þar sem hitastigið er hálfri gráðu yfir frostmarki og rakastigið hátt. Rófurnar geymast best ef þær verða fyrir sem minnstu hnjaski og eru þær því ekki hreinsaðar og snyrtar fyrr en kemur að því að afgreiða pantanir. Geymsluþolið á þessu grænmeti er með allra mesta móti og geta rófnabændur átt birgðir í allt að ár. Uppskera síðasta árs á Læk kláraðist að mestu leyti í mars á þessu ári.
Við þrif fara rófurnar í gegnum tromlu sem veltir þeim upp úr vatni. Þaðan fara þær á flokkunarband þar sem fjórir til fimm aðilar geta staðið og skorið af rótina og toppinn ásamt því að snyrta frá smáar rætur og skilja frá ósöluhæf eintök.
Rófum af svipaðri stærð er pakkað í 20 kílóa netapoka sem fara svo í verslanir og heildsölur á 500 kílóa brettum. Þegar neytendur sjá íslenskar gulrófur í lausu úti í búð er ekki ósennilegt að þær séu frá Læk.
Tvö kíló af fræi
Bændurnir á Læk þurfa að hámarki tvö kíló af fræi á ári sem þau kaupa af Fjólu Signýju Hannesdóttur frá Stóru-Sandvík í Flóa, eina aðila landsins sem ræktar gulrófnafræ. Þau eru af sérstöku yrki sem faðir Fjólu þróaði á sínum tíma, en íslenskir rófnabændur kaupa einnig fræ erlendis frá sem dafna vel hér á landi. Hrafnhildur telur ósennilegt að neytendur sjái mun á gulrófum af ólíkum yrkjum, enda sé þetta allt jafngott.
Hrafnhildur og Friðrik hafa ekki lent í uppskerubresti. Þau leggja sig fram við að rækta ekki rófur í meira en tvö ár í hverjum garði og þess á milli er spildunum breytt í tún í minnst sjö ár til þess að hvíla jarðveginn. Þá reyna þau að hafa garðana dreifða á því landsvæði sem þau hafa aðgang að til þess að vera með fjölbreyttar aðstæður.
„Það skiptir gríðarlega miklu máli í þessu hvernig veðurfarið er. Það var erfitt hjá okkur í sumar þar sem jarðvegshitinn var lágur og sprettan var hæg,“ segir Friðrik. Af þeim sökum drógu þau uppskeruna eins langt fram á haustið og þau gátu, en í betri árum hafa allar rófur verið komnar úr jörð fyrir lok september.
Halda í gleðina
Friðrik ráðleggur ungum bændum sem eru að hefja búskap að reyna að halda í gleðina og pörum í landbúnaði að vera samstiga. „Og hafa grófar áætlanir til lengri tíma svo allir viti hvert er verið að stefna, því svo fer þetta í alls konar hlykki á leiðinni.“
Hjónin segja rófnabúskapinn standa undir einu starfi, en Hrafnhildur hefur sinnt þrifum og afgreiðslu pantana á veturna. Friðrik vinnur mikið utan bús í smíðum og vélaverktöku, sem Hrafnhildur grípur stundum í. Þau vinna hart að því að greiða niður skuldir eins hratt og þau geta, en stefnan er að stækka og efla vinnsluna, kæligeymsluna og afköstin á næstu árum svo reksturinn standi betur undir sér. „Landbúnaður er í þeirri þróun í dag að annaðhvort þarftu að vera með mörg minni járn í eldinum eða þú þarft að vera þokkalega drjúgur í því sem þú ert,“ segir Friðrik.
5 hlutir sem Friðrik og Hrafnhildur geta ekki verið án
1. Peltorinn:
„Hann fylgir okkur um allt.“
2. Rófnahnífur:
Notaður þegar rófurnar eru snyrtar.
3. Vinnslan:
Tækjakosturinn gefur afköst við hreinsun og pökkun.
4. Upptökuvélin:
„Hún er lykilatriði. Maður fer ekki langt án hennar.“
5. Netadúkurinn:
Hann ver gegn sníkjudýrum og eykur hitann.