Unir glöð og býr að sínu
Embla Sól Haraldsdóttir stendur ásamt manni sínum fyrir myndarbýli að Skáldsstöðum í Eyjafjarðarsveit. Þar var nýlega sett upp lausagöngufjós með mjaltaþjóni.
Skáldsstaðir eru um 38 km innan við Akureyri, vestan megin Eyjafjarðarár. Eitt íbúðarhús er á jörðinni en henni þó skipt niður á Skáldsstaði og Skáldsstaði 3.
Embla Sól Haraldsdóttir er 22 ára gömul, fædd á Akureyri og ólst upp þar og á Árskógssandi. Hún stundaði nám við Verkmenntaskólann á Akureyri og útskrifaðist þaðan 2021 sem sjúkraliði og stúdent. Með námi vann hún á Hlíð og hélt þar áfram eftir útskrift.
Hugurinn beindist snemma að búskap
„Ég kynntist kærastanum mínum 14 ára gömul og hann er héðan frá Skáldsstöðum, fæddur og uppalinn. Um 16 eða 17 ára aldur fór okkur að langa til að taka við búskapnum,“ segir Embla.
Kærastinn er Gunnar Smári Hólm Ármannsson, árinu eldri en Embla og eiga þau litla dóttur, Freydísi, sem verður tveggja ára á vori komanda. Gunnar Smári er þriðji ættliðurinn sem tekur við búinu á Skáldsstöðum, af foreldrum sínum, Kolbrúnu Elfarsdóttur og Ármanni Hólm Skjaldarsyni.
Byggja bjartsýn upp
„Við erum aðallega með kýr og nautgripi,“ svarar Embla, aðspurð um bústofninn á Skáldsstöðum. „Í heildina litið erum við með u.þ.b. 130 gripi og þar af eru 52 mjólkandi kýr. Einnig erum við með 23 kindur. Svo auðvitað með hund og kött!“ Þess má geta að naut frá þeim hafa farið í Nautastöð BÍ að Hesti, nú síðast nautið Skáldi.
Fjósinu var árið 2022 breytt í lausagöngufjós með Delaval- mjaltaþjóni en áður var básafjós. „Við erum enn að fjölga kúm upp í þann fjölda sem fjósið tekur og verður það sjálfsagt orðið fullt innan nokkurra mánaða,“ útskýrir Embla og heldur áfram: „Við stefnum ekki að meiri breytingum eins og er á Skáldsstöðum en við eigum líka Ártún, sem er næsti bær við hliðina, og þar erum við með kindurnar í gömlum fjárhúsum og kvígur í fjósinu. Þar er hlaða sem við stefnum á að breyta fyrir nautgripi og verður sjálfsagt byrjað eitthvað á því í ár.“
Húsakostur gæti enn aukist því Skáldsstaðir 3 eru lóð í eigu tengdaforeldra Emblu og þar langar þau að hennar sögn að byggja sér sumarhús.
Í góðu gengi
Embla hefur, eins og svo margir bændur þurfa að gera, unnið viðbótarstarf við búreksturinn. „Ég hef verið að vinna á Sjúkrahúsinu á Akureyri í 50% starfshlutfalli síðan stelpan okkar byrjaði á leikskóla,“ segir hún. „Mér hefur líkað það mjög vel en þó ákveðið að hætta vegna þess að það er bara nóg að gera heima og verður enn þá meira í vor og sumar þegar heyskapur og tilvonandi breytingar á hlöðu í Ártúni byrja. Svo er bara spennandi að fara alveg yfir í það sem mér finnst allra skemmtilegast!“
Hún vill hafa bjartsýni og jákvæðni í forgrunni, jafnvel þótt afkoma bænda sé víða lök og þungt hafi verið í þeim hljóðið að undanförnu gagnvart því rekstrarumhverfi sem íslenskum landbúnaði er búinn. „Auðvitað er umhverfi íslensks landbúnaðar ekki í toppmálum eins og staðan er núna en við verðum bara að vera jákvæð og bjartsýn á að hlutirnir breytist til hins betra,“ segir hún og vill hvorki vol né víl.
„Við skrifuðum undir kaupsamning á Skáldsstöðum fyrir aðeins rúmu hálfu ári síðan og reksturinn hefur gengið mjög vel hingað til þannig ég get ekki sagt að við höfum átt við einhverja erfiðleika með reksturinn,“ bætir hún við.
Embla áréttar þó að gott væri að sjá nokkra hluti breytast. „Eins og til dæmis afurðaverð í landbúnaði og tollvernd á landbúnaðarvörum,“ segir hún.
Fjörugt félagslíf
Áhugamálin eru ýmis fyrir utan búskapinn og þau Gunnar Smári hafa m.a. verið á hvolfi í undirbúningi þorrablóts. „Mín helstu áhugamál fyrir utan búskapinn er að prjóna og svo finnst mér skemmtilegt að grípa í bækur af og til,“ segir Embla og bætir við:
„Um mitt ár í fyrra byrjaði ég svo að sjá um bókhaldið fyrir búið og það finnst mér mjög gaman þótt það tengist nú búskapnum. Ég er ekki í kvenfélagi eða leikfélagi hér í sveitinni en er í hóp þar sem ég og níu vinkonur mínar úr sveitinni hittumst reglulega. Einnig vorum við Gunnar svo heppin að vera í þorrablótsnefnd Eyjafjarðarsveitar 2024 sem er búið að vera mjög skemmtilegt.“ Flestir í sveitinni séu nokkuð samhentir og þau Skáldsstaðabændur eigi marga vina- og kunningjabæi umhverfis. Henni finnist alltaf gaman að fá gesti til þeirra héðan og þaðan úr sveitinni.
„Framtíðin er björt og spennandi og við vonum að umhverfi í íslenskum landbúnaði muni batna á komandi árum,“ segir Embla að lokum.