„Aldrei dauð stund í landbúnaði“
Í ársbyrjun hóf Örvar Þór Ólafsson störf sem fjármálastjóri hjá Bændasamtökum Íslands. Hann tók við af Gylfa Þór Orrasyni, sem hafði starfað fyrir samtökin í tæp 40 ár. Hann telur samtökin vera á spennandi tímamótum þar sem tækifæri eru til að sækja fram og efla landbúnaðinn gegnum hin sameinuðu samtök.
„Við erum þrjú sem myndum fjármálateymið en ásamt mér eru það Sigga (Sigríður Þorkelsdóttir) og Jóhanna Lúðvíksdóttir. Ég er heppinn að fá að vinna með „stelpunum“ eins og þær eru alltaf kallaðar, enda spannar þeirra reynslubanki innan BÍ og forverum samtals sjö áratugi. Við þetta bætist það lán mitt að starfa með Gylfa áður en hann lét af störfum en hann er sá einstaklingur sem þekkir fjármál samtakanna betur en nokkur annar. Það hefur verið gagnlegt að horfa í baksýnisspegilinn og skoða söguna þegar maður er að hugsa hlutina fram á við. Maður þarf auðvitað að setja hlutina í samhengi.“
Verkefni nýs fjármálastjóra snúa fyrst og fremst um að halda þétt utan um fjármál samtakanna og öllu því sem heyrir þar undir. „Við erum óhagnaðardrifin félagasamtök sem er ætlað að nýta fjármuni samtakanna til ákveðinna verkefna – ekki bara þessari grunnhagsmunabaráttu heldur einnig að bera ábyrgð á og hrinda í framkvæmd fjölmörgum verkefnum sem stuðla að velsæld bænda og framþróun í landbúnaði.
Það er ákveðinn línudans að fullnýta fjármunina í okkar verkefni en heldur ekki skila taprekstri. Samtökin þurfa ákveðið eigið fé til að hafa borð fyrir báru ef tekjuhliðin bregst af einhverjum orsökum. Við getum ekki tekið tekjurnar sem sjálfsagðan fasta, hvorki félagsgjöldin, auglýsingatekjur Bændablaðsins eða framlög frá stjórnvöldum. Það er erfitt að gera áætlanir fyrir meira en eitt ár í einu og það er ákveðin áskorun.“
Einnig sér teymið um öll fjármál fyrir Nautastöðina (NBÍ ehf.) á Hesti sem og tvö dótturfyrirtæki sem eru að slíta barnsskónum: Kolefnisbrúin og Íslenskt staðfest. „Hið síðarnefnda mun hins vegar hafa ákveðinn aðskilnað frá Bændasamtökunum varðandi bókhald, fjárhagslegar upplýsingar og fleira í ljósi hlutverks félagsins. Þá sjáum við um bókhald og uppgjör fyrir „gömlu“ félögin sem gengu inn í Bændasamtökin árið 2021, þ.e. Landssamband kúabænda, Landssamband sauðfjárbænda, Félag kjúklingabænda og fleiri. Þá er Styrktarsjóðir BÍ sérstakt félag sem heldur utan um sjóði í umsjá samtakanna,“ segir Örvar.
Bjartir tímar fram undan
Örvar segist taka við keflinu á spennandi tímum hjá samtökunum. „Allt kerfið í kringum landbúnaðinn og samtökin hefur sem betur fer einfaldast og reyndar eru enn tækifæri til hagræðis. Fjárhagurinn hefur einfaldast en við getum gert ýmsa hluti enn skilvirkari en nú er. Mér skilst að kennitölurnar sem samtökin voru að sjá um í ýmsum félögum og sjóðum hafi verið fjörutíu talsins fyrir einungis um tveimur árum. Það var farið í stórar og nauðsynlegar tiltektir í þessum málum og kennitölunum fækkaði niður í fimmtán. Og þeim mun fækka enn meira.”
Enda eru risavaxin verkefni að baki: að ljúka endanlega málefnum Bændahallarinnar, sameina samtökin undir einum hatti búgreinanna og að flytja í nýjar höfuðstöðvar í Borgartún. „Ég tek hatt minn ofan fyrir okkar formanni, framkvæmdastjóra, lögfræðingi og fleira starfsfólki sem tók að sér það verkefni að „sópa út“ úr Bændahöllinni. Það er auðvitað sorglegt fyrir samtökin hvernig sú saga endaði en við verðum að sjá tækifærin sem liggja í núverandi stöðu: nýta þennan tímapunkt til að sækja fram og nýta þau tækifæri sem eru til staðar fyrir landbúnaðinn.“
Tekjustoðirnar þarf að styrkja
Styrkja þarf tekjustoðir Bændasamtakanna að mati Örvars. „Þær eru of þunnar í dag í samhengi við þau verkefni sem okkur er falið. Félagsgjöldin dekka ekki nema um 65% af launakostnaði samtakanna. Við fáum fjármagn frá stjórnvöldum eins og lýst er í búvörusamningum frá 2021 þar sem okkur er ætlað að bera ábyrgð á ákveðnum málaflokkum og verkefnum, eins og til dæmis Íslensk staðfest.
Þetta er í takti við okkar hlutverk en fyrir utan þetta eru fjölmörg önnur verkefni sem bíða okkar á næstu árum en við höfum ekki fjármagn í. Okkur vantar meiri fyrirsjáanleika í reksturinn og traustari tekjustoðir. Íþví sambandi getum við einna helst horft til þriggja þátta:í fyrsta lagi þarf fjármagn að fylgja ef stjórnvöld vilja að landbúnaður spili lykilhlutverk í að ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur varðandi fæðuöryggi, umhverfismál o.s.frv. Í öðru lagi þurfa forsendur á bak við innheimtu félagsgjalda að vera skilvirkari og nákvæmari. Í þriðja lagi liggja stór tækifæri í að samtökin taki frumkvæði og forystu í styrkhæfum nýsköpunarverkefnum sem geta haft mikil og jákvæð áhrif hér á landi.
Til dæmis að gera Ísland sjálfbært í framleiðslu á áburði sem er stórt verkefni sem samtökin leiða. Þarna er tækifæri til að fá styrki frá Evrópusambandinu sem er lykilatriði fyrir okkur. Það þarf samt að hafa í huga að framlagið á móti styrkjum sem þessum er oft talsvert í krónum talið, að mestu leyti í formi launakostnaðar.“
Helstu tækifæri í fjármálum Bændasamtakanna
Nýr fjármálastjóri segir að fjárhagur samtakanna eigi að endurspegla sem best grunnrekstur þess. „Þannig sjáum við best hvað það kostar að reka hagsmunabaráttuna og sinna okkar fjölbreyttu verkefnum.
Hér á árum áður voru samtökin of oft eins konar afgreiðslumiðstöð fyrir alls konar fjármuni sem runnu frá ríkinu til landbúnaðarins í gegnum sjóði og tímabundin verkefni. Sumt af því hafði í raun lítið með hlutverk samtakanna að gera. Sem betur fer hefur þetta minnkað mikið. Ég vil að reksturinn sé gegnsærri þannig að slíku fé sé að ákveðnu leyti haldið aðskildu frá grunnrekstrinum. Það er öllum hagaðilum til góðs að vita hvað það kostar að halda úti starfi samtakanna.”
Þá er Bændablaðið Örvari einnig hugleikið enda í eigu Bændasamtakanna og rekstur hans því hluti af hans verksviði.
„Samtökin reka þennan mest lesna prentmiðil landsins, en auglýsingatekjur þess eru okkur mikilvægar. Það er hins vegar svo að miðillinn er hluti af okkar hagsmunabaráttu. Hann gegnir því í raun sama hlutverki og samtökin: að vinna að velsæld bænda.Þannig getum við ekki sett sömu formerki á rekstur blaðsins eins og um einkarekinn fjölmiðil væri að ræða. Að sjálfsögðu viljum við reka blaðið, sem er haldið aðskildu í bókhaldinu, réttum megin við núllið. Það hefur ekki tekist síðustu ár og er fjölmiðlastyrkurinn einfaldlega nauðsynlegur fyrir okkur, ekki síst í ljósi mikillar kostnaðaraukningar á prentun og dreifingu blaðsins. Það væri draumur að geta látið blaðið renna inn um lúguna á öllum heimilum landsins en það er auðvitað ekki raunhæft. Mikill lestur blaðsins undirstrikar áhuga landsmanna allra, líka höfuðborgarbúa, á málefnum tengdum landbúnaði,” segir Örvar.
Fjölbreyttur bakgrunnur sem nýtist í starfi
Örvar nam viðskiptafræði í Bandaríkjunum en þar starfaði hann einnig hjá Icelandic USA sem áður hét Coldwater Seafood Corporation. „Ég og konan mín, Guðrún Árdís Össurardóttir, fórum út rúmlega tvítug en snerum heim árið 2004 eftir átta lærdómsrík ár – með þrjár háskólagráður, þrjú börn, 40 feta gám og „strumpastrætó“ í farteskinu! Ég hafði nýlokið MBA námi mínu í Fairfield University í Connecticut.
Ég starfaði hjá Íslandsbanka á svokölluðum góðærisárum en fór síðan til skilanefndar Glitnis árið 2010 þar sem ég vann m.a. með lánamál fyrirtækja. Síðar vann ég í rúm fimm ár hjá Lánasjóði sveitarfélaga en þar kynntist ég málefnum sveitarfélaga vel sem og opinberum fjármálum og stjórnsýslu. Ég tel að nokkuð fjölbreyttur bakgrunnur minn nýtist vel í starfinu fyrir Bændasamtökin – það er gott að hafa góða blöndu í farteskinu fyrir þennan vettvang sem er í senn skemmtilegur og líflegur. Það er aldrei dauð stund í landbúnaði, svipað eins og maður hefur séð af kynnum sínum við sjávarútveg.“
Ættir og útivist
Örvar á ættir að rekja bæði til suðurs og vesturs. „Móðuramma mín er úr Flóanum og afi var fæddur og alinn upp á Ísafirði. Pabbamegin eru ræturnar fyrst og fremst úr uppsveitum Suðurlands en pabbi er alinn upp á Laugarvatni þar sem foreldrar hans, Haraldur Matthíasson og Kristín S. Ólafsdóttir, voru kennarar. Föðurfjölskyldan á enn þá húsið sem þau byggðu þar en maður á margar frábærar minningar úr æsku frá Laugarvatni. Afi minn, „Halli Matt“, var menntaskólakennari í ML en var alinn upp í sveit ofan úr hreppum. Áhugi hans var fyrst og fremst í bókmenntum og fræðistörfum frekar en búskap. Hann fór aldrei til útlanda á sinni löngu ævi, sá alltaf frekar ástæðu til að eyða tíma sínum í ferðalög innanlands. Hann og amma urðu miklir ferðafrömuðir og við segjum að útivistarbakterían í fjölskyldunni eigi rætur sínar að rekja til þeirra.
Þá eru tengdaforeldrarnir bæði alin upp í sveit á Vestfjörðum; Ásdís tengdamamma á Hrafnabjörgum í Laugardal (í Djúpinu) og tengdapabbi frá Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði. Við hjónin eigum sumarbústað í Djúpafirði í Gufudalssveit og því eru tengingarnar til Vestfjarða margar. Við þetta má bæta að Ólafur Magnússon, langafi minn og stofnandi Fálkans, ólst upp í Kollsvík.“
Utan vinnu er Örvar mikill útivistarmaður. „Ég hef verið á hreyfingu frá því ég var strákur og það hefur ekki minnkað mikið með árunum. Útivist og fjallamennska er í fjölskyldunni en pabbi minn, Ólafur Örn Haraldsson, var einmitt núna á dögunum sæmdur heiðursverðlaunum Ferðafélags Íslands – sami heiður og pabba hans hlotnaðist á árum áður.“
Góð tengsl við bændur
Í gegnum útivist og veiðiferðir hefur Örvar ferðast mikið um Ísland og þekkir sig á mörgum stöðum á landinu. „Ég hef verið í forsvari fyrir Fjallafélagið ásamt bróður mínum, Haraldi Erni, í rúm tíu ár. Maður hefur oft verið í samskiptum við bændur í þessu fjallabrasi og þurft að leita ráða hjá þeim.
Þá sýnir maður að sjálfsögðu þá kurteisi að hringja á undan sér ef hópar frá okkur þurfa að leggja kannski tuttugu bílum nánast á hlaðinu á sveitabýlum þegar gönguleiðin liggur beint í gegnum heimatúnin. Þessum erindum er nánast alltaf vel tekið en það hafa þó verið nokkrar undantekningar á því. Okkur hefur t.d. verið beinlínis bannað að ganga á ákveðin fjöll vegna andstöðu heimafólks við slíku en þetta eru einungis örfá tilvik.
Öll þessi ferðalög hjá okkur hjónunum og börnunum færa mann svolítið nær lífinu í sveitum landsins. Ég hef tekið þátt í smalamennsku og á auðvelt með að setja mig í spor þeirra sem geta nýtt sér auðlindir okkar og hreinleikann í íslenskri náttúru til að framleiða af urðir af bestu gæðum.“