Viðurkenningar í Húnaþingi vestra
Þrjár viðurkenningar voru veittar fyrir gott umhverfi í Húnaþingi vestra fyrir árið 2022.
Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri afhenti þær við athöfn í Sjávarborg á Hvammstanga.
Viðurkenningarnar féllu í skaut eigenda Bakkatúns 2 á Hvammstanga, Grundar í Vestur hópi og Tannstaðabakka. Húna þing vestra hefur árlega veitt umhverfisviðurkenningar frá árinu 1999 og hafa um 70 eignir eða aðilar fengið viðurkenningu.
Bakkatún 2 á Hvammstanga fékk viðurkenningu fyrir auðséðan metnað fyrir fallegum frágangi á tiltölulega nýju húsi og lóð. Um Grund í Vesturhópi segir í umsögn dómnefndar að þar sé hulinn heimur, þar sem ekki sést af vegi heim að bænum, sem er lögbýli, nýtt sem frístundabyggð og til skógræktar. Tannstaðabakki fékk umhverfisviðurkenningu fyrir mjög myndarlega heildarumgjörð á stórbúi. „Ber fyrrum eigendum órækt vitni um metnað og atorku en jafnframt vísbending um að núverandi eigendur sem tekið hafa við keflinu muni halda því starfi áfram,“ segir í umsögn dómnefndar.