Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Horft til Hríseyjar frá Árskógssandi.
Horft til Hríseyjar frá Árskógssandi.
Mynd / Auðunn Níelsson
Fréttir 6. ágúst 2020

Vonast til að áhugi landsmanna á ferðalögum innanlands aukist enn frekar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Með opnun þessa kerfis erum við að gera upplýsingar um ferðalög um landið aðgengilegri en nokku sinni fyrr. Þarna inni eru áfangastaðir sem margir hafa ekki heyrt af áður og vönduð myndbönd af svæðunum og afþreyingu,“ segir Arnheiður Jóhanns­dóttir, framkvæmda­stjóri Markaðsstofu Norður­lands, um nýtt gagnvirkt vefsvæði, upplifdu.is, sem opnað var nýverið. Því er ætlað að auðvelda og hvetja enn frekar til ferðalaga innanlands.  
 
Markaðsstofur landshlutanna, MAS, standa sameiginlega að verk­efn­inu  sem er hið stærsta sem þær hafa ráðist í. Innan MAS eru sex mark­­aðs­­stofur, Markaðsstofa Vestur­lands, Markaðsstofa Vestfjarða, Mark­­aðs­­stofa Norðurlands, Austur­brú, Markaðsstofa Reykjaness og Markaðs­stofa Suðurlands. 
 
Hægt að sníða ferðalög eftir sínu höfði
 
Arnheiður Jóhannsdóttir, fram-kvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. 
Á vefsvæðinu gefst notendum kostur á að sníða ferðalag sitt nákvæmlega eftir sínu höfði og fá aðstoð við að sjá hvað er í boði á hverjum stað, fá nákvæma tímaáætlun milli áfangastaða og síðast en ekki síst, uppgötva nýja möguleika á myndrænan hátt. Verkefnið er liður í að auka á dreifingu ferðamanna um landið sem og styðja við uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu í kjölfar heimsfaraldurs. Þetta er langstærsta verkefni sem MAS hefur ráðist í.
 
Útgáfa á ensku í loftið í haust
 
„Það er von okkar að með þessu aukum við áhuga Íslendinga enn frekar á ferðalögum þar sem þeir sjá vel hversu mikið er hægt að upplifa á hverjum stað, fáum þá kannski til að koma aftur og dvelja lengur,“ segir Arnheiður. „Inn í þennan grunn eigum við svo eftir að bæta heilmiklu efni og þróa áfram, þessi opnun er aðeins fyrsta útgáfan og verður stöðugt hægt að bæta við myndefni og upplýsingum eftir þörfum. Ferða­þjónustan hefur staðið þétt saman að ýmsum markaðsverkefnum í gegnum árin og hefur aldrei verið mikilvægara en nú í ár enda ljóst að mikinn kraft þarf til þess að byggja ferðaþjónustuna hratt upp aftur. Þetta kerfi er mikilvægur hlekkur í  að vekja athygli á áhugaverðum ferðamannastöðum um allt land og auka þannig dreifingu ferðamanna um landið,“ segir Arnheiður. Kerfið verður sett í loftið á ensku í haust og þá miðað að erlendum markaði.“ 
 
Sóknaráætlun landshlutanna styrkti verkefnið. Þróun og framleiðsla er í höndum framleiðslustofunnar Tjarnargötunnar og er myndefnið sem prýðir síðuna unnið úr einum stærsta myndabanka sem gerður hefur verið úr efni frá Íslandi.
 
Skjámynd úr kerfinu upplifdu.is sem hefur að geyma fjölbreyttar upplýsingar um ferðalagið.