Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Carlo Petrini í Háskóla Íslands 23. maí.
Carlo Petrini í Háskóla Íslands 23. maí.
Mynd / smh
Fréttir 18. júlí 2017

„Íslenska lambið það besta sem ég hef nokkurn tíma smakkað“

Höfundur: Sigurður Már Harðarson
Carlo Petrini, einn af stofnendum Slow Food-hreyfingarinnar árið 1989 og forseti hennar frá byrjun, var hér á landi dagana 22.–24. maí síðastliðinn og flutti fyrirlestur í Háskóla Íslands, innblásinn af óréttlátu hagkerfi matvælaframleiðslu í heiminum – sem hann sagði í raun vera glæpsamlegt. Í heimsókninni heimsótti hann félaga í Slow Food á Íslandi og smáframleiðendur. 
 
Blaðamaður fékk tækifæri til að spyrja hann út í nokkur atriði sem hann ræddi um í fyrirlestrinum og um Íslandsdvölina. „Ég var virkilega hrifinn af landi og þjóð. Þetta var mitt fyrsta skipti á Íslandi og mér gafst færi á – þrátt fyrir að hafa fáa daga – til að kynnast góðu starfi bænda á Íslandi og hvernig þeir hafa þurft að aðlagast krefjandi aðstæðum. Ég er auðvitað mjög áhugasamur um mat og á Íslandi fann ég mörg dæmi um framúrskarandi framleiðslu og fyrirmyndarbændur – en sumir þeirra eru á mjög einangruðum svæðum. Ég hitti líka margt fólk sem vinnur hörðum höndum að því hvern dag að kynna hvernig upplifa megi landið og kosti þess á jákvæðan hátt. Svo er ekki hægt að segja annað en að íslenskt landslag sé hreinlega hrífandi.“ 
 
Mysudrykkurinn er úrvals vara
 
Petrini varð nokkuð tíðrætt um íslenska mysu í fyrirlestrinum og lýsti því ítrekað yfir hversu spenntur hann væri að smakka þessa vöru þar sem búið var að blanda saman við hana bláberjasafa – en slíkur drykkur er framleiddur undir merkjum Íslandus. Hann sagði hana dæmi um vöru sem Íslendingar ættu að vera stoltir af. Í raun skyti það skökku við að stórir gosdrykkjaframleiðendur hefðu yfirburðastöðu á markaði gagnvart innlendri framleiðslu eins og mysudrykkjum. „Ég prófaði mysuna og ég varð strax yfir mig hrifinn. Þetta er úrvals vara; ekki bara af því að drykkurinn er mjög bragðgóður, heldur líka af því að hann segir okkur líka söguna – um virði alls matar fyrr á öldum. 
 
Svo smakkaði ég líka á ýmsum öðrum frábærum íslenskum afurðum. Mig langar sérstaklega að nefna íslenska lambið því það er það besta sem ég hef nokkurn tíma smakkað. Ég smakkaði líka frábært íslenskt bygg, frábæra ýsu og þorsk – og jafnvel íslenska tómata. Hreindýr var sömuleiðis mjög gott, svartfuglsegg og áfram gæti ég haldið. Mér finnst að Ísland geti státað af frábærri matararfleifð, að Íslendingar ættu að vera stoltir af henni og styðja íslenska bændur.“
 
Þegar Petrini er spurður að því hvort mysudrykkir eigi möguleika í framtíðinni gagnvart stórum gosdrykkjaframleiðendum til að mynda, segir hann að það eigi ekki að stilla því þannig upp. „Þetta snýst ekki um að berjast gegn risunum. Ég er hins vegar sannfærður um að það sé þess virði að þið haldið því hátt á lofti hversu mikilvæg mysan var fyrir Íslendinga áður fyrr og hversu mikið myndi tapast ef þessi mjólkurafurð hyrfi. Ég er viss um að Íslendingar hafa áhuga á að hverfa að rótum sínum og menningu – alveg eins og ferðamenn hafa áhuga á arfleifð Íslendinga þegar þeir heimsækja Ísland. Gosdrykkjaframleiðendur geta aldrei boðið slíkt. Mysa getur átt góða möguleika á innlendum og erlendum mörkuðum, ef upplýsingum um þessa arfleifð er haldið til haga og þeim komið skilmerkilega til skila.“ 
 
Petrini bætir því við að hann skilji að Íslendingar vilji styðja við íslenska búvöruframleiðslu. „Slíkur stuðningur er ekki dýru verði keyptur ef um er að ræða framleiðslu í sátt við umhverfið, sem er ekki of stór í sniðum og er ætluð fyrir innanlandsmarkað. Slíkt fyrirkomulag leiðir af sér staðbundin hagkerfi og styður við smá samfélög. 
 
Þrjátíu ára saga Slow Food
 
Um þessar mundir fagnar Slow Food-hreyfingin 30 ára afmæli. Upphaf stofnunar Slow Food má rekja til andófs ítalskra ungmenna, þar á meðal Petrini, gegn skyndibitavæðingu í Róm árið 1986. Alþjóðlega hreyfing Slow Food var hins vegar stofnuð í París 1989. Petrini segir að í hvert skipti sem hann horfi 30 ár til baka hugsi hann um það hversu mikið hreyfingin hafi breyst.
 
„Það var litið á okkur í byrjun sem ljóðskáld og draumórafólk – með það eina markmið að njóta góðs matar. En eftir því sem við fórum dýpra ofan í stjórnmálin – og könnuðum hvernig staða mála var í matvælaframleiðslu heimsins, því betur áttuðum við okkur á því hversu mikilvægt það var sem við vorum byrjuð á. Þess vegna breyttumst við hægt og rólega – og erum enn að breytast. Við settum verkefnið um Bragðörkina (Ark of Taste) af stað 1996, árið 2004 var Móðir jörð (Terra Madre), tengslanet Slow Food, stofnað og einnig Háskóli matarvísinda (University of Gastronomic Sciences) – og á síðustu árum höfum við beint sjónum okkar að matarsóun, loftslagsbreytingum og stefnumótun varðandi matvælaframleiðslu.
Þetta eru einungis dæmi um það hvernig við höfum þróast varðandi hugsjónir og stefnumál. Við teljum að það megi takast á við margar krefjandi áskoranir samtímans í gegnum umræðu um matvælaframleiðslu. Í þá átt ætlum við áfram að halda.
 
Það sem við gerðum í Róm fyrir meira en 30 árum var einungis að andæfa þeirri þróun að matur væri að verða einsleitnari. Það sem við höfum orðið í dag, getum við þakkað ótrúlegu fólki sem hefur stutt okkur og hjálpað undanfarin 30 ár. Þá er ég ekki bara að tala um hugsuði, rithöfunda, stjórnmálamenn, heimspekinga og matreiðslumeistara – heldur allt það fólk sem hefur ákveðið að leggja sína ástríðu af mörkum og tíma í þágu málstaðar okkar, sem felst í því að berjast fyrir því að allir eigi rétt á góðum og ómenguðum mat sem framleiddur er í sanngjörnu framleiðsluferli (good, clean and fair food).“
 
Erum á réttri leið
 
Petrini er spurður um það hvernig hann sjái næstu 30 ár þróast – hvort það votti fyrir því í dag að mál séu að þróast í þá átt sem Slow Food-hreyfingin vinnur eftir. Verður til að mynda þörf fyrir hreyfinguna þá? „Næstu skref, held ég, að verði að vinna meira að fræðslumálum um matvæli. Unga fólkið mun leika lykilhlutverk varðandi framtíð móður jarðar og við þurfum að hjálpa því með þeim ráðum og tólum sem við búum yfir; minningum og þekkingu. Ég vona sannarlega að það verði ekki þörf fyrir okkar hreyfingu í framtíðinni – það myndi þýða að við hefðum náð takmarki okkar. Ég sé mörg jákvæð merki um það að nýjar kynslóðir eru mun virkari og meðvitaðari en mín kynslóð var – þannig að ég er öruggur um að við erum á réttri leið.“
 
Starf Slow Food snýst að mestu um nokkur meginverkefni. Petrini er spurður út í hvað sé áhugaverðast að gerast í þessari verkefnavinnu. „Við erum með mörg ólík verkefni í gangi. Bragðörkin (sem í grunninn gengur út á að varðveita líffræðilegan fjölbreytileika um víða veröld) er ört stækkandi verkefni, Bandalag matreiðslumanna (Chef Alliance) var nýlega stofnað og er tengslanet matreiðslumanna innan vébanda Slow Food-hugsjónarinnar sem vinna með staðbundin matvæli – og er nú líka á Íslandi. Þá get ég nefnt verkefnið 10.000 garðar í Afríku. Einnig er vert að minnast á að þetta er mikilvægt ár fyrir okkur vegna þess að við ætlum að halda alþjóðlega ráðstefnu í Chengdu í Kína í september, þar sem framtíð okkar verður rædd; stefnumótun og starfsemi.“
 
Fyrirlestur Petrini í Háskóla Íslands í maí snerist að miklu leyti um að vekja athygli á og gagnrýna það sem hann kallaði glæpsamlegt matvælaframleiðsluhagkerfi heimsins. Slow Food-hreyfingin hefur á þessum nótum sent inn tillögur til Evrópusambandsins um hvernig breyta þurfi stuðningskerfi landbúnaðarins; styðja frekar við smáframleiðendur og fjölskyldubú á kostnað framleiðslumagns – meðal annars til að styrkja hinar dreifðu byggðir. „Ég held að það sé engin leið önnur en róttæk breyting á því kerfi sem við höfum ef við viljum eiga framtíð á jörðinni. Núverandi framleiðslukerfi virkar ekki, því það skaðar bæði umhverfið og smáframleiðendur. Ég held að það séu hægfara breytingar á því að eiga sér stað í Evrópu.“
Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi
Fréttir 22. nóvember 2024

Breytileikinn T137 verði viðurkenndur sem verndandi

Formlegt erindi liggur nú í matvælaráðuneytinu þar sem óskað er eftir því að arf...

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga
Fréttir 22. nóvember 2024

Hlaðvarp um landbúnað í aðdraganda kosninga

Áherslur framboða í málefnum tengdum landbúnaði er umræðuefni hlaðvarpsins „Á hl...

Lán að ekki fór verr
Fréttir 22. nóvember 2024

Lán að ekki fór verr

Um sex þúsund varphænur drápust í eldsvoðanum sem varð í eggjabúi hjá Nesbúeggju...

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning
Fréttir 22. nóvember 2024

Aldrei fleiri umsóknir um nýliðunarstuðning

Matvælaráðuneytið hefur úthlutað nýliðunarstuðningi í landbúnaði fyrir árið 2024...

Ákvörðun felld úr gildi
Fréttir 21. nóvember 2024

Ákvörðun felld úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að nýlega samþykktar undaþágu...

Skráð heildartjón rúmur milljarður
Fréttir 21. nóvember 2024

Skráð heildartjón rúmur milljarður

Skráð heildartjón vegna kuldakasts og annars óvenjulegs veðurfars á árinu er rúm...

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu
Fréttir 21. nóvember 2024

Fyrirhugaðar breytingar voru á sláturfyrirkomulagi og kjötvinnslu

Áður en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm boðaði Kaupfélag Skagfirðinga (KS) ...

Undanþágan dæmd ólögmæt
Fréttir 21. nóvember 2024

Undanþágan dæmd ólögmæt

Óvissa er uppi um framhald samruna og hugmynda Kaupfélags Skagfirðinga (KS) um h...