Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bakki í Geiradal
Bóndinn 14. nóvember 2022

Bakki í Geiradal

Hjónin Árný og Baldvin fluttu á Bakka í Geiradal í Reykhólahreppi í maí árið 2014 með 40 kindur ásamt lömbum. Síðan þá hafa þau unnið að því að stækka og bæta fjárstofninn í um 530 fjár á vetrarfóðrum. Núna eru þau með féð á Bakka og á nágrannabænum Gautsdal, en láta sig dreyma um að stækka fjárhúsin heima til að geta haldið allan bústofninn þar.

Baldvin Reyr Smárason

Býli: Bakki í Geiradal, Reykhólahreppi.

Ábúendur: Árný Huld Haraldsdóttir og Baldvin Reyr Smárason.

Fjölskyldustærð (og gæludýra): Hér búum við ásamt börnunum okkar, Hrafnhildi Söru (2009), Hafrúnu Magneu (2012) og Smára Hlíðari (2018). Kolbeinn Óskar (2005), systursonur Baldvins, er svo hérna sem heimalningur. Nýjustu „fjölskyldumeðlimirnir“ eru hvolpurinn Alda og kettlingurinn Rjómi. Nokkrar endur sjá okkur líka fyrir eggjum.

Stærð jarðar: Um 1.100 hektarar.

Gerð bús og fjöldi búfjár: Sauðfjárbú, en í vetur verðum við með um 530 fjár á fóðrum.

Árný Huld Haraldsdóttir

Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Yfir veturinn byrjar Baldvin á að gefa í Gautsdal og á Bakka. Yfir daginn eru svo alls konar verk unnin í tengslum við búfénaðinn og dagurinn brotinn upp með hádegismat og kaffitíma. Um fimmleytið er svo lagt af stað í seinni gjöf og farin sama leið og um morguninn.

Stundum lýkur vinnudegi um og upp úr kvöldmatarleytinu, en stundum er haldið áfram að sinna einhverju skemmtilegu í fjárhúsunum fram eftir kvöldi. Árný vinnur utan búsins allt árið og sinnir líka sveitarstjórnarstörfum, en fátt er betra en að fara í fjárhús til að hreinsa hugann. Í sauðburði, heyskap og smalamennskum skiptast allir vel á við öll verk og nýta styrkleika sína til hins ýtrasta.

Smári Hlíðar

Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Baldvini finnst skemmtilegast að heyja þegar ekkert er bilað en pottþétt leiðinlegast að flokka kindurnar eftir ströngum reglum „forstjórans“ fyrir fengitíma. Árnýju finnst skemmtilegast í sauðburði og vildi helst að hún þyrfti aldrei að sofa í maí, henni finnst heldur ekkert leiðinlegt að velta sér upp úr Fjárvís og plana allt í excel. Kolbeinn er mikill vinnuþjarkur, tekur þátt í öllu og er meira að segja kominn í rúninginn. Hrafnhildur elskar að taka á móti lömbum og hefur gott lag á kindunum. Hafrún fóstrar lömb sem fæðast líflítil af öllu hjarta og töfrar ótrúlegustu kindur á sitt band til að fá klapp. Smári fæddist svo með dálæti af vélum, bílum og öðrum tækjum og er til í allt þeim tengdum.

Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir 5 ár? Við sjáum fyrir okkur að við verðum komin með allt okkar fé heim í nýrri viðbyggingu við fjárhúsin. Endurbæturnar verði að mestu leyti búnar, þótt alltaf megi gera betur í dag en í gær. Fjöldi fjár verði svipaður en vonandi verði á hverju ári einhverjar framfarir sem megi fagna.

Draumurinn er svo að koma fyrir flottri aðstöðu fyrir heimavinnslu á meðhöndlun á lamba- og ærkjöti.

Hafrún Magnea

Hvað er alltaf til í ísskápnum? Hér eru alltaf til andaregg – stundum alveg 120 stk. Skinka, ostur, kokteilsósa og mjólk eru mjög mikilvæg. Líklega er svo alltaf eitthvað skrítið þar líka eins og bóluefni eða önnur lyf fyrir sauðfé sem „þarf“ að geyma þar. Í frystinum er alltaf til lambakjöt og kindahakk.

Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Heimilisfólki ber ekki saman um hver sé vinsælasti maturinn á heimilinu og skal það liggja á milli hluta að sinni.

Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þau eru nú nokkuð mörg og erfitt að velja eitthvað eitt. Ætli fyrsti sauðburðurinn renni ekki seint úr minni. Þá vorum við með 140 gemlinga og fengum að ganga í gengum allan tilfinningaskalann á hverjum degi.

Fjölbreyttir vinnudagar
Bóndinn 22. nóvember 2024

Fjölbreyttir vinnudagar

Þau Unnur Jónsdóttir og Símon Bergur Sigurgeirsson á Lundi í Lundarreykjadal hóf...

Leigja jörð og rekstur
Bóndinn 25. október 2024

Leigja jörð og rekstur

Nú kynnast lesendur búskapnum á Flugumýri í Blönduhlíð í Skagafirði og geta í kj...

Sauðfé passleg stærð
Bóndinn 11. október 2024

Sauðfé passleg stærð

Hjónin Jón Atli Jónsson og Bryndís Karen Pálsdóttir reka sauðfjárbúið Gröf í Ska...

Blómlegt býli
Bóndinn 27. september 2024

Blómlegt býli

Freydís Gunnarsdóttir er tiltölulega nýtekin við rekstri Gróðrarstöðvarinnar Árt...

Göngur og góður reiðtúr
Bóndinn 13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Á Fjöllum 2 í Kelduhverfi stunda Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Jóhannes Guðmundss...

Farsæl gúrkutíð
Bóndinn 30. ágúst 2024

Farsæl gúrkutíð

Gúrkuplantan vex hratt á garðyrkjustöðinni Gufuhlíð í Biskupstungum en fjölskyld...

Endalaus verkefnalisti
Bóndinn 16. ágúst 2024

Endalaus verkefnalisti

Ofaldar hryðjuverkahænur, rótargrænmeti, ferðamenn og kindur þrífast vel á Þurra...

Svín og korn
Bóndinn 12. júlí 2024

Svín og korn

Bændurnir í Laxárdal stunda svína- og kornrækt en lesendur munu geta fylgst með ...