Hof
Hof er landnámsjörð Ingimundar gamla, eins og sagt er frá í Vatnsdælasögu. Jörðin hefur verið í eigu fjölskyldunnar í 120 ár og er Jón 4. ættliðurinn í búskapnum.
Býli: Hof í Vatnsdal.
Staðsett í sveit: Húnavatnshreppi.
Ábúendur: Jón Gíslason og Eline M. Schrijver.
Fjölskyldustærð (og gæludýra):
Dæturnar eru tvær, Ásdís Brynja, f. 1999 og Lara Margrét f. 2001.
Stærð jarðar? Býsna stór, nær neðan frá Vatnsdalsá og alveg upp á fjall!! Eitthvað á annað þúsund hektarar.
Gerð bús? Sauðfjár- og hrossabú. Ferðaþjónusta og skógrækt.
Fjöldi búfjár og tegundir? 660 vetrarfóðraðar ær, rúmlega 50 hross. Auk þess nokkrar hænur, endur, hundur og köttur.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum?
Misjafnt eftir árstímum. Á veturna er skepnuhirðing kvölds og morgna, og þess á milli er riðið út og spjallað við bændur. Á sumrin er gestum sinnt, auk hefðbundinna starfa.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skítmokstur alls konar er leiðinlegastur, en búfjárrækt í allri sinni mynd er skemmtilegust. Allt frá hrútapælingum til hrossasýninga.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir 5 ár? Vonandi svipaðan, betra fé og betri hross.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Fögnum hverjum þeim sem er tilbúinn að fórna tíma sínum í hagsmunabaráttu bænda, vitandi það að viðkomandi fær trúlega næstum ekkert nema vanþakklæti fyrir störf sín.
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Vonandi vel, enda er vaxandi skilningur á nauðsyn eigin landbúnaðar í vitrænu þjóðfélagi.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Á hreinum og vistvænum afurðum, auk þess sem íslenski hesturinn stendur alltaf fyrir sínu.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Þetta venjulega, mjólk og viðbit.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Lambahryggur, helst með yfir 30 mm vöðvaþykkt, og ís og súkkulaði á eftir.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þau eru mörg, en á þessu ári stendur frammistaða Konserts frá Hofi á Landsmóti hestamanna upp úr. Ný viðmið í hrossarækt!