Kirkjuferja
Baldur og Sigríður hófu saman búskap á Kirkjuferju árið 2006. Baldur er þar fæddur og uppalinn.
Afi hans og amma fluttu á jörðina árið 1948.
Baldur tekur við jörðinni af foreldrum sínum.
Býli: Kirkjuferja.
Staðsett í sveit: Ölfus.
Ábúendur: Baldur Guðmundsson og Sigríður Sigfúsdóttir ásamt dætrum sínum fjórum, þeim Vigdísi Þóru, 19 ára, Jónínu, 17 ára, Helgu Guðrúnu, 13 ára og Sigurbjörgu Mörtu, 11 ára.
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Við erum sjö í heimili, við sex ásamt einum tilvonandi tengdasyni. Svo eru það hressu hundarnir, þeir Sallý, Týra og Hrappur. Einn köttur sem heitir Mýra.
Stærð jarðar? 130 ha að stærð og þar af er 15 ha tún.
Gerð bús? Blómlegur hobbíbúskapur með kindum og hestum.
Fjöldi búfjár og tegundir? Við erum með 83 kindur og 30 hesta.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Hefðbundinn vinnudagur hjá okkur í sveitinni gengur þannig vanalega fyrir sig að allir á bænum vakna á virkum dögum um klukkan sjö og borða saman morgunmat. Börnin fara í skólann og aðrir til vinnu utan bús. Þegar líða fer á daginn fara ábúendur að tínast heim og farið er í hesthúsið og fjárhúsið.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Skemmtilegast við bústörfin er þegar sauðburður stendur yfir og heyskapur. En leiðinlegast er þegar moka þarf út úr fjárhúsinu.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Færri en betri hross, fleiri kindur en það eru ekki allir sammála í fjölskyldunni með það.
Hvaða skoðun hafið þið á félagsmálum bænda? Félagsmál bænda eru í ágætum málum en afkoma bænda mætti vera betri.
Hvernig mun íslenskum landbúnaði vegna í framtíðinni? Hann mun náttúrlega blómstra, því hráefnið er svo gott sem við erum með.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Á útflutningi á ferskum landbúnaðarvörum í gegnum Þorlákshöfn.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Lýsi, mjólk, smjör, piparostur og stundum einn til tveir bjórar.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Lambalæri eða hryggur með öllu tilheyrandi, þess má geta að kvöldmatartíminn er samverustund fjölskyldunnar á bænum, því þá borða allir saman og fara yfir daginn og hvað þurfi að gera á búinu.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar hrúturinn Hannibal tók sig til og reyndi að rota bóndann á bænum með því að stanga hann beint á hausinn. Það gerðist þegar verið var að rýja, en hrúturinn átti einfaldlega ekki að vera viðstaddur.