Lambastaðir
Svanhvít og Almar keyptu Lambastaði og fluttu þangað frá Selfossi í byrjun árs 2005 en þá var enginn búskapur á bænum.
Árið 2012 byggðu þau gistihús á jörðinni og sneru sér alfarið að þeim rekstri í framhaldinu.
Býli: Lambastaðir.
Staðsett í sveit: Flóahreppi, Árnessýslu.
Ábúendur: Svanhvít Hermannsdóttir og Almar Sigurðsson.
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Við erum hér tvö og hundurinn Hekla.
Stærð jarðar? 85 ha.
Gerð bús? Ferðaþjónustubýli og hobbíbúskapur.
Fjöldi búfjár og tegundir? 30 ær og 20 hænsni.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Þegar ekki er COVID-19 er fótaferð kl. 7.00 hvern morgun og gengið til starfa við að útbúa morgunmat og síðan taka við þvottar og annað sem þarf að gera varðandi ferðaþjónustuna.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Þetta er allt skemmtilegt nema dagurinn sem lömbin fara í sláturhúsið.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Það er best að segja sem minnst um það.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í útflutningi íslenskra búvara? Vonandi er fólk að vakna við það að ,,hollur er heimafenginn baggi“ og við eigum að vera sem mest sjálf okkur nóg.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Egg, súrmjólk, ostur og fullt af ávöxtum og grænmeti.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Lambahryggurinn er alltaf sígildur.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Á vorin þegar allt vaknar af dvala og lömbin spretta í heiminn hraust og spræk.
Svanhvít og Glódís Hansen í fjárhúsinu.