Angus- og Limósínblendingar hafa yfirburði yfir Gallowayblendinga
Í jólablaði Bændablaðsins fyrir 15 árum fjallar Þórólfur Sveinsson, starfsmaður RALA á Möðruvöllum, um nautgriparækt og nautakjötsframleiðslu sérstaklega. Fyrirsögnin er afgerandi: Nautakjötsframleiðsla með Angus eða Limósínblendingum skilar meiri framlegð til bóndans og ánægðari neytendum
Þar segir meðal annars : „Í útdrætti af niðurstöðum úr kjötblendingsverkefninu á Möðruvöllum sem kynnt var á veitingahúsinu Greifanum á Akureyri um daginn komu fram miklir yfirburðir Limósín- og Angusblendinganna í samanburði við íslensku nautgripina. Væntingarnar sem gerðar voru í upphafi hafa fyllilega staðist og jafnvel gott betur. Ávinningurinn af einblendingsræktun þessara kjötkynja með íslenskum mjólkurkúm virðist vera mun meiri en sést hefur í erlendum tilraunum með þarlendum mjólkurkúakynjum.
Í sambærilegri tilraun sem gerð var á Möðruvöllum fyrr á þessum áratug virðast Limósín- og Angusblendingarnir einnig hafa talsverða yfirburði fram yfir Galloway blendinga í vaxtarhraða og fóðurnýtingu. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum Matvælarannsókna á Keldnaholti (Matra) virðast kjötgæðin einnig vera meiri í blendingunum. í skynmati sem metur safa, meyrni, fínleika og heildaráhrif kjötsins með sérþjálfuðum smökkurum bar Anguskjötið af, bæði í kvígum kvíga, en kvígur og uxar eru talin hafa svipaðan vöxt og fóðurnýtingu.“