Búnaðargjald dæmt ólögmætt
Í 21. tölublaði Bændablaðsins árið 2011, þann 24. nóvember, er forsíðufrétt um að unnið sé að tillögum um breytingar á innheimtu búnaðargjalds.
Í inngangi fréttarinnar segir: „Samkvæmt áliti Lagastofnunar Háskóla Íslands bendir margt til að innheimta búnaðargjalds, í því horfi sem nú er, standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar né Mannréttindasáttmála Evrópu um félagafrelsi. Hægt er að fullyrða að innheimta búnaðargjalds sem rennur til búgreinafélaganna standist ekki stjórnarskrá. Þá leikur vafi á að innheimta búnaðargjalds, sem rennur til Bændasamtaka Íslands annars vegar og til búnaðarsambandanna hins vegar, standist að fullu umrædda löggjöf. Þó má færa rök fyrir því að innheimta búnaðargjalds til þessara samtaka geti fallið undir undanþáguákvæði með breytingum en nauðsynlegt er að skoða lagalega stöðu þeirra frekar,“ segir í inngangi forsíðufréttarinnar.
Þetta voru niðurstöður álitsgerðar Lagastofnunar um lögmæti búnaðargjalds, sem Sigurður Líndal lagaprófessor vann að beiðni Bændasamtakanna.
Haft var eftir Haraldi Benediktssyni, þáverandi formanni Bændasamtaka Íslands, að áfram verði unnið í samstarfi við Lagastofnun við að útfæra þær breytingar á lögum um búnaðargjald sem væntanlega þurfi að gera.
Í kjölfar málaferils búnaðargjaldsins, en það var fellt úr gildi 1. janúar 2017 með lagabreytingu, var sem kunnugt er tekið upp nýtt félagsgjald Bændasamtaka Íslands til að standa straum af tekjuöflun inn í félagskerfi bænda.
Sjá nánar á Tímarit.is.