Kartöflubændur ganga í Samband garðyrkjubænda
Í tíunda tölublaði Bændablaðsins árið 2001, í lok maí, er greint frá því að Landssamband kartöflubænda hafi samþykkt á aðalfundi sínum að ganga í Samband garðyrkjubænda. Í umfjöllun blaðsins er rætt við Sighvat B. Hafsteinsson, þáverandi formann karöflubænda, sem sagði að það væri skoðun þeirra að það myndi styrkja starfið með því að vera í félagi með öðrum garðyrkjumönnum.
„Hagsmunir okkar tvinnast saman við hagsmuni annarra garðyrkjubænda. Þannig fara til dæmis framleiðsluvörur okkar og þeirra að mestu í gegnum sömu heildsölufyrirtæki,“ sagði Sighvatur sem var kjörinn í stjórn Sambands garðyrkjubænda.
Árið 2001 voru félagar í Landssambandi kartöflubænda 50 talsins og þrátt fyrir inngöngu í Samband garðyrkjubænda var ákveðið að Landssamband kartöflubænda héldi áfram starfa sem sjálfstætt samband.