Starfsleyfi álvers í Hvalfirði til umræðu
Á baksíðu Bændablaðsins 21. janúar 1997 er sagt frá kynningarfundi að Heiðarborg í Leirársveit, þar sem fjallað var um starfsleyfi fyrir álver Columbia á Grundartanga í Hvalfirði.
Í fréttinni kemur fram að mikið hafi verið spurt um fyrirhugað álver og var ljóst af fundarmönnum að íbúarnir á svæðinu hefðu miklar áhyggjur af starfseminni, en þær snérust fyrst og fremst um áhrif efnamengunar á landbúnað og ferðamennsku – og ekki síst ímynd Íslands.
Á myndinni er Reynir Ásgeirsson, Svarfhóli í Svínadal, en hann var einn fjölmargra sem tóku til máls á fundinum. Reynir sagði áformin tilræði við framtíð íslenskra barna og afkomenda þeirra. Sigurbjörn Hjaltason á Kiðafelli beindi meðal annars máli sínu til aðstofaðarforstjóra Columbia, sem sat fundinn. „Það gleði í huga okkar vegna nærveru þinnar en sorg í hjarta vegna fyrirætlana þinna. Þær ógna umhverfi okkar og lýta landið okkar.“
Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, sagði á fundinum að tryggt væri að tekið yrði á mengunarvarnarmálum í samræmi við lög og reglur og gerðar ströngustu kröfur.
Í fréttinni kom fram að í undirbúningi væri stofnun umhverfissamtaka sem væri ætlað að berjast gegn álverksmiðju í Hvalfirði. Í hópi forsvarsmanna þar væri Jón Gíslason, bóndi á Hálsi í Kjós, og Halldór Jónsson, læknir á Móum í Innri-Akraneshreppi.