Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Nýupptekinn hvítlaukur úr tilraunaræktun Haraldar og Þórunnar í þurrkun í gróðurhúsinu, sem tekur um þrjár til fjórar vikur.
Nýupptekinn hvítlaukur úr tilraunaræktun Haraldar og Þórunnar í þurrkun í gróðurhúsinu, sem tekur um þrjár til fjórar vikur.
Mynd / smh
Líf og starf 14. september 2023

Búið að selja nær alla 6–8 tonna uppskeru næsta árs

Höfundur: Sigurður Már Harðarson

Farsælli tilraunaræktun hvít­lauksbændanna í Neðri­Brekku í Dölum er nú lokið. Næsta sumar verður markið sett hátt, en þá er fyrirhugað að senda á bilinu sex til átta tonn af Dalahvítlauk í íslenskar matvöruverslanir.

Þegar blaðamann bar að garði var uppskeru nýlokið og ferskur hvítlaukurinn hékk í gróðurhúsinu til þerris. „Við höfum tekið tvö markviss sumur í þessa tilrauna- ræktun og erum komin með nokkur yrki sem við ætlum að nota til ræktunarinnar næsta sumar. Það þarf líka að rækta jarðveginn upp – ná upp almennilegum lífrænum massa. Það höfum við gert á undanförnum tveimur árum og ætlum að halda því áfram,“ segir Haraldur Guðjónsson, hvítlauksbóndi í Neðri-Brekku.

Setja niður um 40 þúsund geira

Þau Þórunn Ólafsdóttir, kona hans, eru komin í samstarf við breskan hvítlauksræktanda, The Garlic Farm, á eyjunni Isle of Wight í Englandi, og kaupa útsæði af honum. Þau eiga von á um 40 þúsund hvítlauksgeirum í lok september sem þau munu setja niður nú í haust. Þangað til munu þau vinna í hvítlauksbeðunum.

Þau hafa notið liðsinnis Arnars Eysteinssonar, bónda í Bessatungu, við jarðvegvinnuna en af föður hans, Eysteini Þórðarsyni, keyptu þau einmitt sitt land í Neðri-Brekku. „Það er hellingur af grjóti í landinu, en við höfum aðgang að tæki hér á næsta bæ sem tekur stærstu steinana. Þá hefur Arnar smíðað einfalt lítið snilldartæki fyrir okkur sem við notum til að móta beðin í snyrtilegar raðir. Við notum viðarkurl á milli beða í tvennum tilgangi, bæði fagurfræðilegum en einnig virkar kurlið sem eins konar hvati fyrir tiltekinn sveppagróður í beðunum sem líka hamlar illgresisvexti,“ segir Haraldur.

Hann bætir við að Gunnbjörn hjá Kol ehf., sem er flutningsþjónusta í Búðardal, hafi verið þeim mikil hjálparhella og séð um að þau fengju hæfilegan efnivið, eins og trjákurl úr Skógrægt Vesturlands og moltu frá Flúðasveppum.

Haraldur er hér við sáningarvélina og rýnir í upplýsingar um fræin.

Kröfuharður hvítlauk

Þau segjast hafa unnið heimavinnuna vel og kannað í þaula hvernig hægt er að bæta jarðveginn með lífrænum aðferðum svo hvítlauksræktunin megi takast eins vel og mögulegt er miðað við staðhætti. „Hvítlaukurinn þarf frjósaman jarðveg og þrífst illa í bleytu. Þá þolir hann ekki illgresi og ég hef samviskusamlega passað upp á að hreinsa öll beð af öllu slíku, pikkað hvert einasta upp með höndunum. Svo þarf hann helst skjól,“ segir Þórunn spurð um helstu kröfur hvítlauksins varðandi ræktunarskilyrði.

„Við höfum talsvert pælt í því hvernig við getum haldið jarðveginum frjósömum án þess að nota tilbúinn áburð – við ætlum okkur nefnilega á næstu árum að sækjast eftir því að fá lífræna vottun fyrir vörumerkið okkar. Í grúski okkar komumst við á snoðir um ræktunaraðferð sem kallast á ensku „cover crop“, en þá er sáð fyrir tilteknum fjölbreyttum þekjugróðri í beðunum eftir uppskerutímann til að vernda og auðga jarðveginn,“ bætir Þórunn við.

Alls voru tilraunabeðin 24 í sumar. Fjölbreyttur þekjugróður er notaður til að rækta í beðunum eftir uppskeru til að vernda og auðga jarðveginn.

Byltingarkennd aðferð

Haraldur segir að þekjugróðurinn séu einærar jurtir sem sáð sé með þar til gerðu sáningartæki í sex raðir í hvert beð. Það eru bygg, hafrar, vetrarhveiti, vetrarrúgur, fóðurflækja, hestabaunir, ertur, mungbaunir, bókhveiti, mustard white, radísur og grimson clover.

Cover Crop er hluti af byltingarkenndri aðferð og breytingu í landbúnaði, sem kallast á ensku „Regenerative Acriculture“. Hún snýst aðallega um að snúa ekki jarðvegi, heldur nota einæran þekjugróður, stunda beitarstjórnun og skiptiræktun, þar sem hún á við. Á ensku hefur þessi nálgun verið kölluð „No-Till, Cover Crops, Control Grazing and Crop Rotation,“ útskýrir Haraldur.

Fyrstu tilraunir með hvítlauksræktun árið 2019

Þórunn byrjaði að prófa sig áfram með ræktun á hvítlauk strax árið 2019, eftir að hafa sótt fyrirlestur hjá Garðyrkjufélagi Íslands.

„Mér fannst þetta bara svo áhugavert þegar þau bentu á að þetta væri vel hægt á Íslandi. Maður hafði verið að kaupa þennan innflutta úti í búð og ég tók eftir því að þegar hann hafði verið geymdur í tvær til þrjá vikur, þá varð hann nánast orðinn að dufti. Þessi tegund sem er hér algengust er mjög hraðvaxta – og laukurinn hraðþurrkaður – og því má segja að bragðgæðin og geymsluþolið sé mjög í samræmi við það,“ segir Þórunn sem lengi hefur haft áhuga á matargerð og gæðum hráefna til matargerðar.

Haraldur er búfræðingur frá Hvanneyri og segja þau að bakgrunnur þeirra beggja fari vel saman í þessu hvítlauksverkefni.

Þau stefna bæði að því að hætta að vinna í daglegri reglulegri vinnu á næsta ári en segja að það sé bæði gefandi og skemmtilegt að geta helgað sig þessari ræktun í Dölunum, þar sem þau eru þó ekki með fasta búsetu.

Skylt efni: Hvítlaukur

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...