Lundi
Lundi er algengasti fuglinn okkar og jafnframt einn af okkar einkennisfuglum. Hann er að öllu leyti farfugl og dvelur hér við land yfir sumarið og út ágúst eða þegar ungatíma lýkur. Þá hverfur hann langt út á Norður-Atlantshaf og sést lítið við land aftur fyrr en í apríl. Lundinn er afar félagslyndur og verpur í holum í stórum byggðum á grösugum eyjum, höfðum og brekkum. Lundinn verpir einungis einu eggi og má segja að varp og ungatíminn sé fremur seinlegt. Fyrstu fuglarnir byrja að verpa í seinni hlutanum í maí og liggur fuglinn á í um 40 daga. Þá tekur við ungatíminn sem getur varað frá 35–55 dögum. Það er því ekki fyrr en síðsumars sem unginn (pysjan) yfirgefur holuna. Lundinn er nokkuð langlífur fugl, talið er að meðalaldur lunda sé á bilinu 20–25 ár en elsti lundinn sem vitað er um var 38 ára gamall og var merktur af Óskari J. Sigurðssyni, vitaverði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Þeir eru afar hraðfleygir og geta náð yfir 80 km hraða á klukkustund á flugi. Hann stendur uppréttur á landi, er því nokkuð fimur á fæti. Svo er ekki nóg með að hann sé góður sundfugl heldur getur hann líka kafað niður á allt að því 60 metra dýpi þar sem hann leitar sér að æti. Það er því óhætt að segja að lundar hafi góða aðlögunarhæfni í að koma sér á milli staða hvort sem það er í lofti, á láði eða í legi.