Dýrin í Hálsaskógi
Leikfélag Mosfellssveitar setti upp á dögunum hið sívinsæla leikrit Dýrin í Hálsaskógi eftir meistara ævintýranna, Thorbjørn Egner.
Verkið er vel þekkt og fá áhorfendur að upplifa samfélagið í skóginum og sjá kunnuglegum persónum á borð við söngelsku músina hann Lilla og hinn lævísa Mikka ref bregða fyrir.
Dýrin í skóginum með Lilla klifurmús í fararbroddi búa við stöðugan ótta af því að verða étin af refnum og öðrum rándýrum í þeirra nánasta umhverfi, sem sjá ekki ástæðu til þess að afla sér matar á annan hátt.
Þau taka þó af skarið og ákveða að útbúa ný lög í skóginum, svo allir geti búið saman í friði.
Leikstjóri er Birna Pétursdóttir, tónlistarstjóri er Sigurjón Alexandersson og Eva Björg Harðardóttir hannar leikmynd og búninga.
Sýningar eru í Bæjarleikhúsinu í Mosfellsbæ á sunnudögum kl. 14 og fer nú hver að verða síðastur að ná sér í miða enda allt að verða uppselt. Miðasalan er á tix.is en einnig eru upplýsingar á Facebook-síðu félagsins.