Búa til melassa úr spæni
Það er líklega öllum ljóst að í Noregi er til mikið af skógi og sögunar-verksmiðjur eru mjög víða. Úrgangurinn frá verksmiðjunum hefur hingað til verið nýttur til brennslu eða sem undirburður fyrir skepnur en þetta gæti nú verið að breytast. Norsku feðgarnir Arne og Hans Christian Grønn hafa nefnilega fundið upp aðferð sem gerir það hagkvæmt að framleiða melassa úr þessum úrgangi og þessa dagana er verið að reisa stóra verksmiðju í Noregi sem byggir á uppfinningu feðganna.
Þessi framleiðsla á melassa er talin geta staðið undir framleiðslu sem er ódýrari en innfluttur melassi kostar í Noregi og ætti þar með að gera innflutninginn óþarfan!
Melassi til vinstri, þá kjarnfóðurkögglar í miðjunni og til hægri brennslukögglar.
Hvað er melassi?
Melassi er dökkt, þykkt en ekki mjög sætt síróp og er aukaafurð sem verður til þegar verið er að framleiða sykur úr sykurrófum eða sykurreyr. Melassi er töluvert mikið notaður í fóður fyrir búfé enda með um 60% sykurinnihald og þykir hagstætt fóður. Þó svo að algengast sé að melassi sé framleiddur úr framangreindum sykurplöntum þá má þó framleiða hann úr öðrum plöntum enda er grunnhráefnið byggingarefni plantna sem m.a. veitir plöntufrumum styrk og því er gnótt af slíkum fjölsykrum í trjám og trénisríkum plöntum.
Innflutningur á hrávörum
Líkt og á Íslandi búa norskir bændur við það að mikið af því próteini sem gefið er þarlendu búfé í formi kjarnfóðurs er flutt inn til landsins. Undanfarið hefur verið töluverð athygli á þessum þætti fóðrunar enda er aðalpróteingjafinn gjarnan sojaprótein sem oft er framleitt við misgóðar aðstæður og oft á svæðum þar sem vafi leikur á um að farið sé að reglum um góða umhverfisvernd. Norskir bændur og neytendur hafa því lagt aukna áherslu á að byggja framleiðslu landsins á umhverfisvænum hráefnum. Vegna mikillar áherslu á próteinið í Noregi hefur annað mikilvægt hráefni vart verið nefnt í umræðunni og það er orkugjafinn sjálfur í kjarnfóðrinu.
Í Noregi kemur aðalorkan í fóðrinu frá korni en einnig rófum og svo melassa. Bæði korn og rófur eru framleiddar, amk. að hluta til, í Noregi en hingað til hefur melassinn verið fluttur inn til landsins og það ekki litlu magni, um 60-70.000 tonn á ári! Fáir hafa velt þessum innflutningi fyrir sér og það er líklega vegna þess að sykur er framleiddur víða í Evrópu og við góð skilyrði þar sem umhverfisvernd er í hávegum höfð. Melassinn fellur því til við framleiðslu sem stenst skoðun. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að hingað til hefur Norskur landbúnaður þurft á því að halda að nota innfluttan melassa sem vissulega er síðra en ef hægt væri að nota heimaaflað hráefni og það er einmitt það sem fyrirtækið Glommen Technology í bænum Elverum í Noregi ætlar sér að gera.
Tók mörg ár
Það eru feðgarnir Arne og Hans Christian sem eiga Glommen Technology í gegnum annað fyrirtæki sem þeir eiga og er sögunarverksmiðjan Glommen Mjøsen. Þar á bæ fellur auðvitað mikið til af allskonar úrgangi frá vinnslunni og feðgarnir hafa alltaf horft á þennan úrgang sem vannýtta auðlind en hinsvegar átt erfitt með að finna almennileg not fyrir hann. Fyrir nærri 30 árum fóru þeir að gera fyrstu tilraunir sem gengu út á það að reyna að ná plöntusykrinum út úr saginu með einhverjum hætti en það var þó ekki fyrr en með sérstöku verkefni sem hófst árið 2012 að almennilega gekk að vinna að tæknilegum lausnum. Það tók þó nokkur ár í viðbót að þróa aðferð sem gekk upp og gat dregið sykrurnar úr trjákurlinu en það tókst og nú hafa feðgarnir fengið einkaleyfi fyrir hugmynd sinni en afurðina kalla þeir „Skógarmelassa“.
Nota engin aukaefni
Sag inniheldur 40-45% af cellulósa og 25-30% af hemícellulósa auk annarra efna en vegna hins mikla magns af hemícellulósa er hráefnið afar áhugavert fyrir frekari vinnslu. Tæknin sem þeir feðgar nota byggir ekki á neinum viðbótarefnum heldur einfaldlega er hráefnið látið fara í gegnum mismunandi ferla, m.a. með atnsrofi og síðar eimun. Út úr þeirri vinnslu verður til einskonar leðja sem svo er síuð með sérstökum aðferðum sem hafa verið þróaðar fyrir olíuvinnslu. Lokaafurðin er svo kögglaður skógarmelassi með u.þ.b. 60 sykurinnihald! Það sem er síað frá í vinnslunni og nýtist ekki sem skógarmelassi fer einnig til kögglunar og henta þeir vel til brennslu t.d. húshitunar. Eini úrgangur framleiðslunnar er í raun hreint vatn!
Byggja verskmiðju fyrir 1,5 milljarða
Nú hefur þeim feðgum tekist að fá fagfjárfesta að verkefninu og er verið að byggja upp stóra verksmiðju, fyrir um 1,5 milljarða íslenskra króna, sem mun framleiða skógarmelassa fyrir norska markaðinn í framtíðinni og það á samkeppnishæfu verði að sögn feðganna. Framleiðslugeta verksmiðjunnar verður í fyrstu 100 þúsund rúmmetrar af sagi en úr því magni má vinna um 15 þúsund tonn af skógarmelassa eða um 25% af innflutningnum. Verksmiðjan er staðsett við hlið timburvinnslu svo hráefnið er tryggt og mun vinnslan keyra allan sólarhringinn. Síðan er stefnt að því að byggja fleiri verksmiðjur á stöðum þar sem hráefnið fellur til og þannig byggja upp næga framleiðslu á skógarmelassa svo innflutningur verði óþarfur.
Hentar sérstaklega vel sem fóður
Skógarmelassinn inniheldur eins og áður segir um 60% sykur og þessi sykur er samsettur af nokkrum megingerðum sykra eins og þrúgusykurs (glúkósa), galaktósa, xylósa og mannósa og um 50% sykursins er mannósi. Þar sem hátt hlutfall af þessum sykri skógarmelassa eru stórsameindir brotnar hann hægt niður sem er afar heppilegt sé hann gefinn jórturdýrum sem fá kjarnfóður.
Nú þegar hafa verið gerðar fóðurtilraunir á nautgripum þar sem búið var að skipta út hefðbundnum melassa með þessum skógarmelassa í því kjarnfóðri sem gripirnir fengu. Niðurstöðurnar sýndu að kjarnfóðrið var einkar lystugt og var átgetan góð hjá gripunum.
Skógarmelassa má einnig nýta í fóður svína en þó með aðeins breyttu sniði þar sem svín eru einmaga dýr og þurfa aðra samsetningu fóðursins. Þá má, fræðilega séð amk., nýta skógarmelassann sem grunnhráefni til próteingerðar með því að nota örverur til framleiðslunnar. Í fyrstu er þó markmiðið að framleiða nóg fyrir heimamarkaðsþörfina á melassa.
Þýtt og endursagt með leyfi höfundar úr Buskap 1/2020