Drekahrísi þykir víða plága
Drekaávöxtur var nánast óþekktur í Evrópu fyrir 1990 en vinsældir hans hafa aukist talsvert síðan þá, þrátt fyrir að aldinið sé fremur sjaldséð hér á landi. Plantan sem ber aldinið er kaktus sem blómstrar á nóttinni og gefur frá sér sterkan ilm. Talið er að um sé að ræða ræktunartegund sem ekki þekkist í náttúrunni nema þar sem hún hefur dreift sér frá ræktun og þykir víða mikil plága.
Fullvaxið drekahrísi með aldinum í ræktun.
Upplýsingar um ræktun drekaávaxtar í heiminum eru takmarkaðar en samkvæmt mati Alþjóða matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er ræktun aldinsins vaxandi. Mest er ræktunin í Víetnam, Kína, Mexíkó, Kólumbíu, Níkaragva, Ekvador Malasíu, Ástralíu og í suðurríkjum Bandaríkjanna Norður-Ameríku.
Víetnam er stærsti ræktandi drekaaldina í heiminum en Bandaríki Norður-Ameríku stærsti innflytjandinn.
Ekki fundust upplýsingar um innflutning á drekaávöxtum til Íslands enda líklegt að aldinið sé flokkað með öðrum ávöxtum vegna takmarkaðs innflutnings.
Ættkvíslin Hylocereus og tegundin undatus
Ættkvíslin Hylocereus tilheyrir ætt kaktusa og er upprunnin í Mið- og Suður-Ameríku. Talsverður ruglingur er um hversu margar tegundir tilheyra ættkvíslinni og hefur þeim fremur fækkað en fjölgað á síðustu árum. Samkvæmt International Organization for Succulent Plant Study voru tegundirnar ellefu árið 2019. Allar tegundir ættkvíslarinnar eru stórar ásætur í náttúrulegu umhverfi sínu sem hanga eða klifra á öðrum gróðri og taka til sín vatn og næringu úr loftinu eða jarðvegi sem safnast í kringum hana.
Aldinið er ílangt eða egglaga, sex til tólf sentímetrar að lengd og fjórir til níu sentímetrar að þvermáli og með utanáliggjandi flipum.
Vöxtur greinanna er frjálslegur og oftast þrístrendur og geta þær náð tíu metrum að lengd og vaxa loftrætur út frá þeim. Plönturnar eru næturblómstrandi og gefa frá sér sterka lykt til að laða að sér frjóbera.
Aldin allra tegundanna eru æt en sú sem er þekktust kallast H. undatus á latínu en drekahrísi á íslensku og aldinið drekaaldin. Uppruni drekahrísis er óþekktur en margt bendir til að um sé að ræða ræktunartegund, hugsanlega blending af H. ocamponis og H. escuintlensis, sem ekki finnst villtur í náttúrunni nema sem slæðingur frá ræktun.
Drekahrísi er stórvaxinn klifurkaktus sem er jarðlægur eða klifrar upp eftir trjám og grjóti eða öðru sem fyrir er. Greinarnar oftast fjórar til sjö og ná yfir tíu metrum að lengd en eru styttri í ræktun. Eiginlegar rætur er litlar og út frá greinunum vex fjöldi loftróta. Hver grein er þrístrend og samsett úr 10 til 120 sentímetra löngum og 10 til 12 sentímetra breiðum vaxtarhlutum. Greinarnar verða brúnar, harðar og hornkenndar með aldrinum. Þyrnar á fullvaxta plöntu grábrúnar eða svartar, einn til fjórir sentímetrar að lengd og tveir að þvermáli þar sem þeir eru þykkastir en mjókka í nálarodd við endana. Yfirleitt einn sér eða þrír í knippi. Næturblómstrandi og standa blómin sem eru stór, hvít eða grængul og ilmsterk eina nótt. Tvíkrýnd og bjöllulaga, 25 til 30 sentímetrar að lengd í fyrstu en 15 til 25 sentímetrar að þvermáli eftir að þau opna sig að fullu. Fræflar margir og 5 til 10 sentímetrar að lengd, frævurnar eru styttri og margar saman í blómbotninum. Aldinið safaríkt og mjúkt, rautt, gult eða rauðbleikt eftir afbrigðum, ílangt eða egglaga, sex til tólf sentímetrar að lengd og fjórir til níu sentímetrar að þvermáli og með rauðum og grænum utanáliggjandi flipum. Yfirleitt 150 til 600 grömm að þyngd en til eru afbrigði sem bera aldin sem eru um kíló að þyngd. Aldinkjötið hvítt yfir í rautt og með mörgum litlum svörtum fræjum.
Drekaaldin eru ræktað víða í hitabeltinu og til er fjöldi yrkja sem eru ólík að stærð og bragði.
Blómin, sem opnast í eina nótt, eru stór og gefa frá sér sterka lykt.
Saga og útbreiðsla
Þrátt fyrir að ekki sé vitað með vissu hvaðan drekahrísi er upprunnið er vitað að plantan var mikið ræktuð í Mið- og hitabelti Suður-Ameríku og á eyjum í Karíbahafi fyrir komu Kólumbus og kóna hans til Nýja heimsins árið 1492. Talið er að ræktun plöntunnar í Mið- og Suður-Ameríku hafi breiðst út með verslun og að fuglar hafi borið fræ hennar til afskekktra eyja.
Spánverjar fluttu plöntuna með sér til Filippseyja og hófu ræktun á henni þar snemma á sextándu öld og er talið að hún hafi borist til Kína árið 1645. Frakkar hófu ræktun á drekahrísi í Indókína um 1860 og með tímanum hefur plantan orðið mikilvæg nytjajurt í hitabelti Suðaustur-Asíu.
Plantan hefur víða í heiminum sloppið út í náttúruna frá ræktun og þar sem hún hefur komið sér best fyrir er litið á hana sem ágenga tegund sem breiðir hratt úr sér á stórum svæðum. Í Suður-Afríku, þar sem plantan var upphaflega flutt inn sem skrautjurt, er hún flokkuð sem alvarlega ágeng og þar þarf sérstakt leyfi til að rækta hana í dag.
Drekahrísi er harðgerð planta sem hefur mikla aðlögunargetu og þykir plága þar sem hún hefur dreift sér út í náttúruna og flokkast víða sem ágeng tegund.
Hermt er að drekahrísi hafi borist sjóleiðina til Havaí-eyja 1830 með plöntusendingu frá Mexíkó og átti að fara til Kína. Flestar plönturnar í sendingunni voru dauðar þegar skipið kom til hafnar á Havaí-eyju en þar sem lífsmark fannst í drekahrísinu var ákveðið að planta því út. Skipsplönturnar náðu sér fljótt og þóttu fallegar og fjölgaði sem skrautplöntum í görðum. Þar reyndist þó vera úlfur í sauðargæru og í dag er drekahrísi talið meinsend á öllum Havaí-eyjum, stórum sem smáum. Sömu sögu er að segja frá Flórídaskaga Bandaríkja Norður-Ameríku, Eldlandseyjum, Kúbu, Kanaríeyjum og á Spáni. Í Ástralíu hefur plantan gert sig heimakomna í margs konar gróðurlendi.
Drekahrísi er harðgerð planta með mikla aðlögunargetu. Plantan dafnar í beinni sól og í skugga, hún er þurrkþolin en lifir líka vel í jöðrum regnskóganna. Hún þolir salt og hefur gert sig heimakomna allt frá fjöru og upp í 2.750 metra hæð yfir sjávarmáli, hvort sem það er í sandi, lausaskriðum, við vegkanta eða grónu landi.
Dæmi eru um að plantan klifri upp eftir stofni hárra trjáa og komi sér fyrir efst í krónu þeirra og að trén falli að lokum unda þunga hennar.
Græðlingar tilbúnir til gróðursetningar.
Nafnaspeki
Latneska ættkvíslarheitið Hylocereus er samsett í gríska orðinu hyle sem þýðir viður og latneska orðinu cereus sem þýðir vaxkennt. Tegundaheitið undatus þýðir að plantan sé rifjuð eða með strendar greinar.
Mexíkóska heitið pitahaya er samheiti yfir aldin nokkurra kaktustegunda og er hljóðbreyting þess algengt heiti drekaaldins á mörgum tungumálum. Á ensku kallast plantan og aldin hennar pitahaya, dragon fruit, night blooming cereus, moonflower, lady of the night, strawberry pear, belle of the night, Cinderella plant og Jesus in the cradle. Frakkar segja pitahaya, pitahaya rouge, fruit du dragon, raquette tortue, cierge-lézard og poire de chardon og Ítalir pitahaya eða frutto del drago.
Í Kóreu kallast aldinið yong-gwa og Víetnamar segja thanh long en Finnar pitaija eða lohikäärmehedelmä. Þjóðverjar segja drachenfrucht og distelbirne, Svíar skogkaktus og röd pitahaya. Á íslensku þekkjast heitin drekahrísi og drekaávöxtur.
Ræktun
Drekahrísi er ræktað sem skrautjurt víða um heim bæði sem garð- og pottaplanta, auk þess sem hún er ræktuð til matar víða í hitabeltinu. Auðvelt er að fjölga plöntunni, hvort sem er með fræi eða græðlingum. Fræin, sem sá skal grunnt og vökva sparlega, ála yfirleitt á tveimur vikum í góðri gróður- eða sáðmold.
Í ræktun til manneldis er plöntunni fjölgað með græðlingum til að viðhalda yrkjum sem reynst hafa vel á viðkomandi ræktunarstað og 1100 til 1350 græðlingum plantað á hektara. Græðlingunum er komið fyrir við T-laga uppistöðu eða uppistöðu með einhvers konar stæði á sem þeir vaxa upp eftir og breiða svo úr sér á þverspýtunni. Til að auka vaxtarrýmið eru þverspýturnar tengdar saman með þykkum vír með gúmmíhlíf sem greinarnar geta teygt úr sér á. Fullorðin planta í ræktun getur orðið nokkur tonn að þyngd og því þarf að tryggja góðan burð í uppistöðum hennar. Plantan er klippt reglulega í ræktun svo að hún vaxi ekki úr sér.
Uppskera á drekaávöxtum er öll unnin með handafli og mannfrek.
Plantan er fljótsprottin og getur hún myndað aldin á fyrsta ári í ræktun en yfirleitt tekur fimm ár að rækta hana til að gefa hámarks uppskeru. Góð yrki blómstra þrisvar til sex sinnum á ári og geta gefið af sér 25 til 30 tonn af aldinum á hektara í 30 ár við kjöraðstæður. Uppskera á drekaávöxtum er öll gerð með höndum og er mannfrek.
Flest yrki eru sjálffrjóvgandi en þar sem plantan er næturblómstrandi treysta ósjálffrjóvgandi yrki á næturfiðrildi og leðurblökur sem frjóbera. Í ræktun eru blómin oft frjóvguð með höndum til að tryggja góða aldinmyndun. Fullur aldinþroski eftir frjóvgun tekur um fjörutíu daga.
Ræktendur hafa komist upp á að stjórna blómgunartíma drekahrísis og þar með aldinmyndun með því að rjúfa myrkvunartíma plöntunnar með blossaljósum á reglulegu millibili í fjórar klukkustundir á sólarhring, milli klukka 22.00 og 02.00, þar sem dag- og næturlengd er svipuð allt árið um kring. Einnig er hægt að safna og geyma frjókorn blómanna við vægt frost í allt að níu mánuði og nota það við handfrjóvgun blómanna.
Drekahrísi er harðgerð og vindþolin planta sem kýs mikla sól og þurran jarðveg en vex við margs konar skilyrði og þolir allt að 40° Celsíus og jafnvel lítils háttar frost í stuttan tíma.
Kjöraðstæður við ræktun er í frjósömum og vel framræstum og aðeins súrum jarðvegi, pH 5,3 til 6,7, við 18 til 25° á Celsíus og í hálfskugga.
Nytjar
Í 100 grömmum af fersku drekaaldini eru 60 kaloríur, 82% kolvetni, 4% prótein og um 11% dagsþörf einstaklings af C-vítamíni og kalsíum og fræin innihalda ýmiss konar fitusýrur.
Áferð aldinsins við neyslu er ekki ólík því að borða kívíávöxt nema hvað drekaaldin er eilítið súrara og best er að borða það kalt. Heil aldin eða niðurskorin þykja góð í wok-rétti. Safi aldinsins er notaður í safa til að bragðbæta áfenga drykki, orkustangir, hlaup, sýróp, kökur og mjólkurvörur eins og ís og jógúrt. Blómin eru æt og þurrkuð í te.
Pökkun drekaávaxta í Víetnam.
Rauði liturinn í aldininu kallast betacyanins og innheldur betanin sem er sama litarefni og finnst í rauðrófum, beðju og plöntum innan ættkvíslarinnar Amaranth og er notað í matarlit og til að lita textíl.
Auk þess sem drekahrísi er ræktað vegna aldinanna hefur plantan lengi notið vinsælda sem garðplanta og sem stássplanta í pottum innandyra.
Safi úr stöngli plöntunnar var í eina tíð notaður gegn iðraormum en er í dag er sú hreinsunaraðferð sögð hættuleg. Neysla á drekaávexti er sögð auka súrefnisflutning blóðsins og því orkuaukandi og hressandi.
Í Mexíkó og víðar í Mið-Ameríku er árlega haldin hátíð drekaávaxtarins og klæðist fólk gjarnan fötum með drekahrísismunstri í tilefni dagsins.
Drekaávöxtur á Íslandi
Ekki er minnst á drekaávöxt í íslenskum fjölmiðum fyrr en um aldamótaárið 2000 og þá aðallega í auglýsingum. Í DV í apríl 2004 er grein sem kallast Hvaðan koma ávextirnir? Eins og fyrirsögnin gefur til kynna er sagt frá því hvaðan margar tegundir eru fluttar til landsins og náttúrulegum uppruna þeirra. Um drekaávöxt segir: „Kína og Taíland. Drekaávöxtur kemur upphaflega frá Mið-Ameríku. Ávöxturinn er í raun kaktusafbrigði og þykir bragðið minna á kíví. Meðalkílóverð: 999 krónur.“
Í Morgunblaðinu í maí 2006 er fjallað um Íslandsmeistaramót barþjóna. Þar kemur meðal annars fram að Valtýr Bergmann hafi fengið önnur verðlaun fyrir kokteil sem hann kallaði Sex bomb þar sem drekaávöxtur var notaður sem skreyting.
Annað slagið hefur verið hægt að fá drekahrísi-kaktus sem pottaplöntu í blómabúðum.
Góð yrki blómstra þrisvar til sex sinnum á ári og geta gefið af sér 25 til 30 tonn af aldinum á hektara í 30 ár.