Fæðubótarefni sem inniheldur brodd – óformleg athugun á virkni gegn slefsýki
Á tilraunabúi LbhÍ að Hesti var vorið 2019 gerð athugun á gagnsemi Lambboost fæðubótarefnisins gegn slefsýki. Leitast var við að gera samanburð á því hvort munur væri á tíðni slefsýki hjá lömbum sem fengju Lambboost annars vegar og fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf hins vegar. Einnig var borinn saman vöxtur lambanna yfir sumarið til að kanna hvort munur væri á meðferðunum tveimur.
Ekki ber að sjá þessa athugun sem auglýsingu fyrir ákveðið fæðubótarefni, heldur sem vísbendingu um að efni sem innihalda brodd og góðgerla geti komið að gagni. Til eru önnur fæðubótarefni sem innihalda brodd og gætu gert svipað gagn og það sem prófað var á Hesti. Einnig getur verið munur á því milli hjarða hvaða aðferðir gagnast, og því eru þetta ekki algild sannindi.
Slefsýki á Hesti
Slefsýki hefur um árabil verið skæð á Hesti, en fyrst er sagt frá því í uppgjöri frá búinu árið 1987 að tvö lömb hafi vorið 1986 drepist úr svokölluðum vatnskjafti. Hin síðari ár hefur verið beitt fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf með því að gefa nýfæddum lömbum svokallaðar lambatöflur. Reynslan hefur sýnt að ef ekki eru gefnar lambatöflur, hafi mjög fljótt farið að bera á slefsýki, og þegar sjúkdómseinkennin uppgötvast er í langflestum tilfellum of seint að reyna að bjarga þeim. Jafnvel þó fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf hafi verið beitt, hafa á bilinu 5-10 lömb fengið slefsýkieinkenni árlega.
Orsakir slefsýki
Slefsýki orsakast af kólígerlum (E.coli) í umhverfinu, sem eiga uppruna sinn í þörmum ánna og finnast því einnig í stíum og króm þar sem gerlarnir geta komist af í einhvern tíma. Það er því meiri hætta á smiti í röku og saurmenguðu umhverfi, og eykst hættan eftir því sem líður á sauðburð þar sem erfiðara verður að halda umhverfinu þurru og hreinu. Lömb sem fá ekki nægan brodd og/eða góða þarmaflóru strax í byrjun eiga á hættu að kólígerlarnir fjölgi sér úr hófi fram og losi inneitur (endotoxin) sem veldur einkennunum. Einkennin stafa af því að þarmahreyfingar lamast og slímhúð eykur vökvaseyti. Einnig geta gerlarnir komist gegnum slímhúðina og valdið blóðsýkingu. Ef mótefni úr broddi og önnur þarmaflóra er til staðar, er ólíklegra að kólígerlavöxtur verði eins hraður og mikill með áðurgreindum afleiðingum.
Ástæðan fyrir því að sýklalyf skömmu eftir burð geta verið fyrirbyggjandi gegn slefsýki er sú að sýklalyfið útrýmir kólígerlum sem koma í meltingarveginn áður en þeir ná að fjölga sér. Sýklalyf getur einnig útrýmt annarri flóru sem annars myndi koma sér fyrir og getur þannig haft hamlandi áhrif á meltingarveg lambsins á fyrstu dögunum. Það er auðvitað ástæða til þess að leggja sitt af mörkum til þess að minnka sýklalyfjanotkun og finna leiðir til þess að verjast slefsýkinni án þess að flest lömb byrji ævina á því að gleypa sýklalyf. Vorið 2019 var því ákveðið að á sauðburði yrði látið reyna á fæðubótarefni með broddmjólk og góðri gerlaflóru til þess að verja nýfædd lömb á Hesti.
Verklýsing
Athugunin fór fram á tímabilinu 1.-24. maí 2019 en á því tímabili báru 507 ær. Í töflu 1 má sjá aldursdreifingu ánna í tilrauninni og skiptingu í ein-, tví- og þrílembur. Í byrjun sauðburðar (1.-11. maí) fengu lömb undan 151 á ýmist lambatöflur (Amoxibactin) eða Lambboost inngjöf (einu sinni eða tvisvar). Seinna á sauðburði (17.-24. maí) fengu lömb undan 126 ám ýmist Amoxibactin eða Lambboost inngjöf (einu sinni eða tvisvar). Lömb um það bil annarrar hverrar ær fengu Lambboost og lömb hinna fengu Amoxibactin. Tví- og fleirlembingar fengu sömu meðferð innbyrðis, sjá fjölda lamba í hverjum hóp í töflu 2.
Sýklalyfjahópur: Amoxibactin (50 mg) var gefið að meðaltali 84 mín eftir burð (0 mín-6 klst og 35 mín) 161 lambi undan 89 ám á tímabilinu 1.-11. maí en 157 lömbum undan 90 ám á tímabilinu 17.-24. maí.
Fæðubótarefni x1: Einn skammtur af Lambboost var gefinn að meðaltali 40 mín eftir burð (0 mín-3 klst og 26 mín) 76 lömbum undan 38 ám sem báru 1.-11. maí og 43 lömbum undan 22 ám sem báru 17.-24. maí.
Fæðubótarefni x2: Tveir skammtar af Lambboost voru gefnir (fyrri skammtur um 31 mín eftir burð (0 mín-1 klst og 40 mín), seinni skammtur um 6 klst og 35 mín eftir burð (3 klst til 11 klst og 55 mín) 48 lömbum undan 24 ám sem báru 1.-11. maí og 24 lömbum 14 áa sem báru 17.-28. maí.
Í millitíðinni (12.-16. maí) báru 193 ær og fengu lömb þeirra öll lambatöflur eins og hefðin hafði verið á búinu.
Niðurstöður og umræður
Sýklalyfin og fæðubótarefnið höfðu bæði fyrirbyggjandi áhrif gegn slefsýki. Þó fékk tvílembingur sem fæddist 9. maí og fékk einn Lambboost skammt, slefsýki sem meðhöndluð var með 100mg Amoxibactin í einum skammt. Lambið náði sér af sjúkdómnum og var slátrað um haustið. Lambið á móti fékk einnig einn Lambboost skammt og fékk ekki slefsýki. Lömbin höfðu fengið sinn skammt 2,5 klst eftir burð og mögulega var það heldur seint, enda fengu öll hin lömbin skammtinn sinn mun fyrr nema tvö önnur tvílembingspör sem fengu seinna. Þann 18. maí fæddist lamb undan tveggja vetra á, sem gleymdist að gefa nokkra fyrirbyggjandi meðhöndlun og fékk það slefsýki og drapst. Það sýndi sig því að hætta var á slefsýki á bænum þetta vorið, þó milt veðurfar hafi líklega stuðlað að því að ástandið var með besta móti, þar sem hægt var að setja fé út jafnt og þétt.
Öll lömb voru vigtuð við fæðingu, 383 lömb voru vigtuð 25. september og 264 lömb voru vigtuð 17. október. Dagleg þyngdaraukning frá fæðingu var reiknuð og voru hóparnir mjög svipaðir en daglegur vöxtur var eilítið meiri hjá lömbum sem fengið höfðu lambatöflur. Til þess að auka á marktækni þessarar niðurstöðu hefði þurft að taka fleiri lömb í Lambboost-hópana, en líklegt er þó að ekki hafi verið munur.
Sauðburður 2020 og 2021
Eftir að ljóst varð að fæðubótarefnið hafði góð áhrif gegn slefsýki, var ákveðið að reiða sig enn frekar á Lambboost sem fyrirbyggjandi aðgerð framvegis, og kappkosta að gefa það sem fyrst eftir burð. Á sauðburði 2020 voru notaðir 600 skammtar af Lambboost en Amoxibactin notað í tvílembinga undan gemlingum og alla þrílembinga. Á sauðburði 2021 fengu öll lömb Lambboost. Vorin 2021 og 2022 reyndust ekki frábrugðin fyrri árum þegar kemur að fjölda lamba sem fengu einkenni, og þurftu Amoxibactinmeðhöndlun. Lambboost hefur þannig virkað jafnvel og Amoxibactin til þess að fyrirbyggja slefsýki.
Ályktun og framhald
Niðurstaðan er að á Hesti er fæðubótarefni sem inniheldur brodd og góðgerla góður valkostur til fyrirbyggjandi aðgerða gegn slefsýki. Notkun fæðubótarefnisins í hvert lamb eins fljótt eftir burð og mögulegt var, minnkaði notkun á sýklalyfjum úr u.þ.b. 1.200 töflum (fram til ársins 2019) í 200 töflur (árið 2021). Kosturinn við að gefa lömbum broddprótín sem þetta fljótlega eftir burðinn er, að það kemur mótefnum í vinstrina sem tempra vöxt örvera og virðist einnig örva sultinn í lömbunum svo þau sækja fastar að fá broddinn hjá ánni. Góðgerlarnir veita kólígerlunum samkeppni svo að þarmaflóran verður fjölbreyttari og jafnvægi kemst á. Þessi áhrif á þarmaflóruna höfðu þó ekki varanleg áhrif á vöxt og þrif lambanna, en það hefði auðvitað verið rúsínan í pylsuendanum.
Ekki er nóg vitað um meingerð slefsýki og ástæður þess að kólígerlar valda henni í einhverjum hjörðum og síður í öðrum. Einnig er ekki nóg vitað um það hvaða áhrif einn skammtur af sýklalyfi hefur á þróun þarmaflórunnar, sem er nauðsynleg til þess að fóðrið nýtist og vöxtur sé góður. Það er þó vitað að notkun sýklalyfja þarf að vera markvissari og einungis eiga sér stað þegar virkilega er ástæða til. Þessi krafa um minni sýklalyfjanotkun hefur orðið til þess að í Bretlandi er nú farið að lifna yfir rannsóknum á sjúkdómnum, sem annars hafa legið í láginni áratugum saman. Það má því búast við því að ýmislegt verði að frétta af fyrirbyggjandi aðgerðum gegn slefsýki á næstu misserum.
Höfundar:
Charlotta Oddsdóttir dýralæknir á Keldum og gestalektor við LbhÍ, Eyjólfur Kristinn Örnólfsson, sérfræðingur við LbhÍ og Logi Sigurðsson, bústjóri á tilraunabúinu Hesti.