Fendt – dísilhesturinn
Í upphafi fjórða áratugar síðustu aldar hófu tveir þýskir bræður að framleiða traktora undir handleiðslu föður síns. Fyrstu dráttarvélarnar, sem kallaðar voru dísilhesturinn, voru litlir, sex hestöfl og beit fyrir einföldum plóg og sláttuvél.
Orðspor smátraktoranna spurðist út og síðasta dag desembermánaðar 1937 stofnuðu þeir fyrirtæki um framleiðsluna sem að sjálfsögðu fékk ættarnafn fjölskyldunnar, sem heitir Fendt. Sama ár kom fyrsta Fendt dráttarvélin á markað.
Stökk fram á við
Fyrsta dráttarvélin undir heiti Fendt fékk týpuheitið F18 og var stórt stökk fram á við í tæknibúnaði frá dísilhestinum. Ári síðar, 1938, kom F22 á markað með tveggja strokka dísilvél og framleiðsla gekk vel.
Vegna skorts á eldsneyti í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni framleiddi Fendt verksmiðjan í Weimar dráttarvélar sem gátu gengið á nánast hvaða olíu sem var og þar á meðal gasi sem unnið var úr timbri.
Eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar fór framleiðsla Fendt á fullt aftur og árið 1946 var framleiðsla yfir eitt þúsund dráttarvéla með mótor frá Deutz. Síðasta dráttarvélin sem Fendt framleiddi með mótor frá Duest fór á markað 1949 og var eins strokka og 18 hestöfl.
Í lok fimmta áratugarins skipti Fendt yfir í mótor frá MWN og í upphafi sjötta áratugarins setti fyrirtækið á markað öflugri týpu sem kallaðist F28 með tveggja strokka vél frá MWN.
Ævintýralegur vöxtur
Vöxtur Fendt frá 1950 til aldamóta var ævintýralegur. Árið 1955 hafði Fendt framleitt 50 þúsund dráttarvélar, tíu árum síðar voru þær orðnar 150 þúsund og um miðjan tíunda áratuginn 500 þúsund.
Árið 1996 kynnti Fendt til sögunnar Vario, stiglausa gírskiptingu afturábak og áfram, sem þótti mikil nýjung og hefur sú tækni verið í öllum Fendt dráttarvélum frá 2009.
Frá 2009 hefur Fendt verið hluti af AGCO samsteypunni sem er einn af stærstu framleiðendum landbúnaðartækja í heiminum.
Í dag eru dráttarvélar sem eru 70 til 500 hestöfl framleiddar undir heitinu Fendt og þykja þær í alla staði tæknilega fullkomnar.
Fendt á Íslandi
Búvélar fluttu inn fyrstu Fendt dráttarvélina til Íslands snemma á níunda áratug tuttugustu aldar. Ingvar Helgason hf. tók við umboðinu 1997 og frá 2004 hefur Vélfang verið söluaðili þeirra hér á landi.
Sigurður Ottósson, bóndi á Ásólfsskála undir Vestur-Eyjafjöllum er staðfastur eigandi og áhugamaður um Fendt dráttarvélar.
„Ég á aðra Fendt dráttarvélina sem var flutt til landsins, sem var annaðhvort 1983 eða 1984. Týpan heitir 305 LSA Turbomatic og er 60 hestöfl og enn í fullri notkun við búskapinn. Ég tók hann í gegn árið 2005 og reif hann alveg niður á dúk og lét sandblása hann. Gamli Fendtinn minn er því mjög flottur í dag.“
Að sögn Sigurðar var talsvert flutt inn af Fendt dráttarvélum á níunda áratugnum enda verðið á þeim gott á þeim tíma og hann segir að margar þeirra séu enn í fullu fjöri.
„Ég keypti mér nýjan Fendt í fyrra af gerðinni 504 sem er 150 hestöfl og ég er ekki síður ánægður með hann.“