Fleiri lömb til nytja – Reynslubanki sauðfjárbænda
Í sauðfjárrækt eru frjósemi ánna og lifun lamba til haustsins stórir áhrifaþættir á afkomuna. Í niðurstöðum skýrsluhalds undanfarinna ára má sjá að undan hverjum 100 fullorðnum ám eru að misfarast um 18-20 lömb árlega. Afföll lamba undan veturgömlum ám eru heldur meiri. Það er mikilvægt að leita allra leiða til að draga úr lambavanhöldum en á flestum búum verður drýgstur hluti þeirra áður en sauðburði lýkur. Hér má sjá hlutfall lamba undan fullorðnum ám sem ekki lifa til sauðburðarloka, flokkuð í þrennt. Þetta er landsmeðaltal áranna 2018-2020.
Að sjálfsögðu reyna allir að leggja sig fram við að lambavanhöld verði sem minnst. Það er samt talsverður breytileiki í því hvernig það tekst, bæði milli ára og búa. Það getur því verið gagnlegt fyrir alla að safna saman upplýsingum frá sem flestum búum og reyna að draga fram það sem gefst vel hjá mörgum og miðla til allra. Með þetta markmið var lagt upp með verkefni hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem ber heitið Fleiri lömb til nytja. Þar var öllum sauðfjárbændum boðið að taka þátt í könnun þar sem spurt var um fjölmörg atriði sem geta haft áhrif á lambahöld að vori. Til að taka þátt þurfti að láta þess getið hvaða bú væri að svara. Sérstök áhersla var lögð á að fullur trúnaður ríkti um þær upplýsingar sem þátttakendur legðu til og að svör yrðu aldrei rekjanleg niður á einstök bú. Úr Fjárvís voru sóttar upplýsingar um afföll lamba að vori árin 2018-2020 hjá þátttakendum. Þannig er hægt að skoða svörin og skýrsluhaldsgögnin saman frá mörgum hliðum og meta áhrif einstakra þátta á vanhöld lamba út frá svörunum. Tekið skal fram að hér er ekki um tilraunaniðurstöður að ræða. Verkefnið gefur hinsvegar áhugaverðar upplýsingar sem gætu verið kveikjan að því að ákveðnir hlutir yrðu skoðaðir nánar.
Alls tóku 295 bú þátt í könnuninni. Þau dreifðust nokkuð vel um landið sem styrkir úrvinnsluna.
Öllum sauðfjárbændum var boðið að taka þátt í könnuninni óháð bústærð. Á mynd 2 má sjá flokkun á þátttökubúunum eftir bústærð. Það hefði mátt vera aðeins skarpari þátttaka meðal stærri sauðfjárbúa þó þar sé vissulega færri búum til að dreifa.
Á mynd 3 má sjá samband bústærðar hjá þátttakendum og hlutfalla lamba sem farast í fæðingu eða drepast á sauðburði. Heilt yfir fara þessi vanhöld hlutfallslega minnkandi eftir því sem búin stækka. Á minni búunum er oft ekki stöðug viðvera í fjárhúsunum sem eykur þá líkur á vanhöldum, einkum að lömb farist í fæðingu. Það kom skýrt fram í könnuninni að eftirlitsmyndavélar eru sérstaklega gagnlegar á minni búum.
Spurt var um mönnun á sauðburði og það skoðað með tilliti til bústærðar. Það kom skýrt fram að þar sem aðeins einn eða tveir komu að sauðburðinum voru afföll almennt meiri. Um leið og þriðji maður kom til sögunnar batnaði ástandið talsvert. Þar kemur eflaust til að þá er auðveldara að skipuleggja það að allir nái að hvílast og sofa nóg á þessum álagstíma. Í töflu 3 má sjá niðurstöður spurningar þar sem spurt var um svefn á sauðburði. Valmöguleikar voru fjórir en hér dregið saman í tvo. Góður svefn þar sem skipulega var lagt upp með að allir næðu að sofa nóg eða það næðist svona oftast. Svefnleysi aftur á móti þar sem mannskapurinn verður alltaf langþreyttur af svefnleysi eða illa hefur gengið að skipuleggja nægjanlega hvíld fyrir alla. Þar sem mannskapurinn nær að hvílast nokkuð vel ferst minna af lömbum í fæðingu. Það má einnig nefna að þegar spurt var um reglufestu hvað varðar matartíma þá voru merkjanleg jákvæð áhrif reglulegra og staðgóðra máltíða á lambahöldin.
Hér eru aðeins nefnd örfá dæmi úr þeim miklu upplýsingum sem samlestur á niðurstöðum könnunarinnar og skýrsluhaldsgögnin eru að skila. Boðið var upp á fræðslufund um þetta verkefni á netinu 21. apríl sl. þar sem margt fleira úr niðurstöðunum var kynnt. Hægt er að nálgast upptöku af fundinum á heimasíðu RML. Vinnu við lokaskýrslu er ekki lokið. Það er stundum talað um reynsluvísindi og það að draga saman reynslu margra bænda fyrir heildina getur reynst skilvirk leið í leiðbeiningum.
Árni Brynjar Bragason
ráðunautur búfjárræktar-
og þjónustusviðs
ab@rml.is
Eyþór Einarsson
ráðunautur búfjárræktar-
og þjónustusviðs
ee@rml.is
Harpa Birgisdóttir
ráðunautur búfjárræktar-
og þjónustusviðs
harpa@rml.is