Gróður – og gáfaðir menn
Gróðurinn er undirstaða alls æðra lífs á jörðinni. Án gróðurins væru ekki fiskar í sjónum, fuglar í lofti eða fjölbreytt landdýrafána. Ísland væri líflausir brunasandar, klettaranar og hraunflákar úti í ballarhafi. Og líkt væri farið með aðrar eyjar og meginlönd. Hvergi sæist í stingandi strá, lurka eða lyng. Í gróðursnauðum heimi hefðu menn ekki orðið til. Ekki heldur nein menning.
Það þarf tré til að smíða báta til að veiða fisk. Það þarf jurtatrefjar til að gera þráð í net eða línu til að veiða fisk. Það þarf eldivið til að bræða málminn í önglana sem fiskurinn bítur á. Án tréskipa hefði Ísland aldrei verið numið af mönnum, þótt þeir hefðu verið til. Það þarf menningu til að gera skip, spinna þráð og bræða málm. Það þarf menningu til að gera menn að mönnum. Í gróðurlausum heimi getur ekki orðið til menning.
En gróðurinn einn og sér er svo sem engin undirstaða menningar. Það þarf meira til. Líkt og ær og kýr og antilópur hefðu menn getað látið nægja að elta bara uppi beitina hvar sem hún bauðst. Eða unað glaðir við sitt eins og aðrir apar Afríku án þess að leggja í hann yfir steppur og steina í allar áttir út frá þróunarmiðstöð mannapanna í sólaryl Suðurálfunnar.
Frá því að menn hófu rápið frá frumheimkynnum sínum liðu þúsundir ára áður en það verklag og sú menning sem skipti sköpum komst á. Kynstofnar komu fram og liðu undir lok vegna þess að verkkunnáttu skorti til að fást við ófyrirséðar uppákomur í náttúrunni. Einn kynstofn manna spjaraði sig þó og lagði á endanum undir sig allar álfur jarðar. Til þess þurfti nokkra fyrirhyggju og úthald umfram það sem aðrir kynstofnar höfðu tileinkað sér. Allt núlifandi mannkyn er af þessum stofni. Og þó að samkeppnin hafi kannski verið hörð, þá sameinuðust kynstofnarnir að einhverju leyti. Ef marka má DNA-rannsóknarniðurstöður, þá ber sá ættleggur sem við tilheyrum nokkra erfðaþætti frá Neanderdalsfólki og austlægu ættleggirnir sækja brot af sínum erfðum til Denisovanfólksins. En Afríkubúar sunnan Sahara hafa alveg sloppið við slíka genamengun!
Þrátt fyrir að við nútímamenn – sem við skulum kalla svo því ekki hefur orðið nein íblöndun eða stór stökk í erfðamenginu síðan við lögðum undir okkur heiminn – værum sestir að í öllum heimshlutum norðan Antarktíku, leið og beið þar til nútímamenning hófst. Það gerðist nokkurn veginn samtímis á rúmlega átta svæðum um miðbik hnattarins. Hvort það var fyrir þrjátíu þúsund árum eða tíu, greinir menn á um. En grafnar hafa verið upp ævafornar mannvistarleifar í Asíu, Afríku og á báðum Ameríkuflekunum sem benda til þess að garðrækt og akuryrkja hafi verið komnar vel á veg í þéttbýliskjörnum fyrir að minnsta kosti ellefu til þrettán þúsund árum. Á þeim tíma var megnið af Evrópu undir jökli, svo að Evrópumenn geta af litlu státað í þessum efnum. En þeirra tími kom samt síðar.
Með garðræktinni og akuryrkjunni hófst nútímamenningin. Ræktunin var forsenda þéttbýlis og fólksfjölgunar. Minni tími fór í að leita uppi fæðuna og þótt að kvikfénaður hafi líka verið kominn til sögunnar á sama tíma, þá gekk hann meira sjálfala í umsjá hirða. Ræktunin kallaði á samvinnu og við hana urðu meiri samskipti manna á milli. Með ræktuninni og þéttbýlismyndun þróaðist iðnaður. Einn var flinkari en annar við að fást við ýmis viðvik og brúkshluti. Með því hófst sérhæfing. Starfsgreinar urðu til. Og víða varð til ritmál. Það auðveldaði dreifingu upplýsinga. Í Kína eru til meira en fimm þúsund ára gamlir plöntulistar og prískúrantar sem gefa ekkert eftir listum frá gróðrarstöðvum nútímans eða IKEA og Quelle.
Ræktunarfólk um allan heim lagði sig fram um að finna og velja úr þær jurtir sem verðmætastar voru frá næringarsjónarmiði. Stærstu og bestu plönturnar voru valdar til undaneldis og endrum og eins komu upp stökkbreytingar sem voru til bóta. Eins urðu til kynblendingar eða að menn æxluðu saman úrvalsplöntum sömu tegundar. Smám saman urðu ræktunarplönturnar stærri og matarmeiri en formæður þeirra. Stundum var líka orðið erfitt að greina formæðurnar í hinum ræktuðu afkomendum. Góð dæmi um það eru t.d. maís, hrís og aðrar korntegundir. Í grænmetinu er fátt líkt með melónum og gúrkum annað en blóm og blaðgerð, séu aldinin borin saman við frumgerðirnar. Sömu sögu er að segja um káltegundirnar sem í ræktun eru nú á dögum. Fleira er á sömu lund. Sítrusávextir eru allir taldir vera komnir frá einni frumtegund sem ekki finnst lengur og upprunnir á landsvæði sem fyrir löngu er sokkið í sæ sunnan við Indónesíu.
Eftir að Móravíumaðurinn og ágústínaklerkurinn Gregor Mendel setti fram kenningar sínar um lögmál erfðafræðinnar um og uppúr miðri nítjándu öld – en fékk enga viðurkenningu fyrir fyrr en hann var allur – komst skriður á jurtakynbæturnar. Það sem áður hafði verið háð slembilukkunni var nú komið í skilvirkt kerfi. Nú gátu menn raðað saman erfðaþáttum að vild, ef þeir bara höfðu grunnþekkinguna. Hvarvetna spruttu upp ný og endurbætt ræktunarafbrigði plantna af öllu tagi, rósir, aldintré, grænmeti, grös og korntegundir.
Nokkrir jurtakynbótamenn urðu heimsþekktir, t.d. hinn norskættaði Bandaríkjamaður Norman Borlaug sem hrinti af stað „Grænu byltingunni“ til að draga úr hungursneyðinni í „þriðja heiminum“ – og fékk Nóbelsverðlaunin fyrir vikið. En ekki eru allar raddir samhljóma um ágæti framtaksins. Plöntur Borlaugs þurftu mikinn áburð og voru mun viðkvæmari fyrir kvillum og pestum en hinir fornu og aðlöguðu stofnar korntegundanna sem fátæku bændurnir höfðu ræktað áður. Þannig að uppskeran var rýrari og dýrari en til stóð þegar til kastanna var komið. Fjöldi gamalla sáðsorta glataðist, bændur höfðu ekki ráð á að rækta „súperkorn Borlaugs“ og flosnuðu upp.
Annar Bandaríkjamaður gerði líka garð sinn frægan í orðsins fyllstu merkingu. Hann hét Luther Burbank og er líklega frægastur fyrir þá kartöflusort sem hann kom á framfæri sem unglingur. Árið var 1872. Frá barnæsku hafði hann verið athugull grasagrúskari og velti einkum fyrir sér sérkennilegum tilbrigðum í þeim plöntutegundum sem hann rakst á.
Meðal annars að í einu kartöflubeði fjölskyldunnar skar ein plantan sig úr og hafði borið sig að því að mynda ber. Burbank setti á sig hvar plantan var og beið eftir því að berið þroskaðist. Biðin tók lengri tíma en hann hélt og einn morgun þegar hann vitjaði um meðgönguna var berið horfið. Hann fyltist vonleysi fyrst og hélt að fugl hefði étið berið. En svo lagði hann saman tvo og tvo og fann það út að enginn fugl gæti hafa tekið svona eitrað ber umhugsunarlaust. Því lagðist hann á hnén og fór að leita og fann berið nokkurn spöl frá plöntunni. Fræjunum úr berinu sáði hann svo vorið eftir. Þau voru 23. Ein af fræplöntunum kom með það sem hann hafði verið að sækjast eftir. Það voru aflangar, stórar kartöflur. Hýðið sterkt og hnjaskþolið. Augu grunn. Og síðast en ekki síst var að innvolsið var þétt í sér og mjölvisríkt. Burbank fjölgaði yrkinu og kom sér upp nokkru útsæði. Útsæðið sló í gegn og varð þekkt undir nafni Burbanks. Nokkrum árum síðar seldi Burbank útsæðið og réttinn til að framleiða það til sölu. Fyrir það fékk hann 150 bandaríkjadali. Burbank fannst hálfpartinn að hann hefði verið plataður – en upphæðin sem hann fékk dugði honum til að flytja til Santa Rosa í Kaliforníu og kaupa þar gott garðland og koma upp bráðabirgðahúsi fyrir sig. Og nú tók Burbank til starfa. Óháskólagenginn, en með kerfi Mendels að leiðarljósi, lagði hann í það. Er hann lést 1926 hafði hann komið frá sér um 800 gerðum af nýjum og kynbættum garðplöntum. Meðal annars þyrnalausum fíkjukaktusi sem átti að leysa beitarvandamál og stuðla að arðsömum nautabúskap á eyðimörkum. Steinlausum plómum fannst honum líka gagnlegt að koma á framfæri, en hlaut dræmar undirtektir plómuframleiðenda sem seldu plómurnar eftir vikt. Þar munaði um steininn. Og í íslenskum görðum eru nokkrar snotrar garðjurtir sem rekja má til kynbóta Burbanks. En kartaflan góða 'Russet Bubank‘ lifir enn í fullu fjöri. Hún er eina kartaflan sem McDonald‘s-hamborgarakeðjan hefur til skamms tíma samþykkt í „frönskurnar“ sínar – þótt hún sé nú komin í harða samkeppni við erfðabreytta kartöflusort sem Monsanto hannaði fyrir keðjuna. Burbank var mikill heimspekingur sem aldrei lá á skoðunum sínum og oft er vitnað í spakmæli hans. Hann var gallharður og sannfærður guðleysingi, en þrátt fyrir það í miklum metum hjá trúarpostulum og guðspekingum. Og iðnjöfrar og bandaríkjaforsetar sóttust eftir félagsskap hans.
Ef við lítum okkur nær og könnum hóp íslenskra jurtakynbótamanna, þá ber nú kannski fyrst upp á kanadíska Vestur-Íslendinginn Baldur Stefánsson sem ræktaði remmuna úr repjunni og gerði þar með repjuolíu hæfa til manneldis undir heitinu „Canola“. Illu heilli tókst Monsanto að sannfæra Baldur eftir að hann var orðinn lasið gamalmenni um að selja sér réttinn til að rækta upp Roundup-ready repjustofn. Af því hafa spunnist margar sorgarsögur vegna yfirgangs- og ruddahegðunar Monsanto gagnvart bændum sem vilja ekkert með erfðabreytuna hafa og óska einskis frekar en að fá að halda áfram að rækta sinn upprunalega repjustofn í friði. Út í þá sálma fer ég ekki nánar hér. Það væri leiðindalestur.
En til Íslands aftur. Við höfum sannarlega ekki verið svipt snillingum á jurtakynbótasviðinu. Þing og þjóð stendur í ævarandi þakkarskuld við Jónatan Hermannsson á Korpu sem hefur fært byggræktarmörkin norður í Kolbeinsey að kalla má. Veðurfarsskýrslur og spár íslensku Veðurstofunnar, Háskólaalmanakið og alþjóðlega atómklukkan hafa ekki roð við honum þegar kemur að þeim upplýsingum um veður og tíma sem hann les úr byggökrunum. Og dr. Þorsteinn Tómasson er kominn vel á veg að þróa móleitt birki sem sker sig tilsýndar ekki tiltakanlega í lit frá gróðursnauðu mólendismyndinni sem skiptir svo miklu máli fyrir ferðaiðnaðinn og meðvitaða umhverfisunnendur. Nú bíðum við bara með krosslagða fingur og vonum að dr. Aðalsteinn Sigurgeirsson komi fljótlega fram með alaskalúpínu í gamburmosalitunum.