Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að hin viðurkennda verndandi ARR-samsæta sé mjög sjaldgæf er hægt að innleiða hana tiltölulega hratt hér á landi, þannig að allar kindur á riðusvæðum verði með verndandi arfgerðir eftir innan við 10 ár og allur stofninn eftir innan við 20 ár.
Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að hin viðurkennda verndandi ARR-samsæta sé mjög sjaldgæf er hægt að innleiða hana tiltölulega hratt hér á landi, þannig að allar kindur á riðusvæðum verði með verndandi arfgerðir eftir innan við 10 ár og allur stofninn eftir innan við 20 ár.
Mynd / Þórdís
Á faglegum nótum 28. júlí 2023

Hægt að innleiða ARR hratt án þess að stofna stofninum í hættu

Höfundur: Þórdís Þórarinsdóttir, ráðunautur hjá RML og Jón Hjalti Eiríksson, lektor hjá LBHÍ

Búið er að birta lokaskýrslu verkefnisins „Ræktun gegn riðu - Áhrif mismunandi leiða við innleiðingu verndandi arfgerða metin með slembihermunum“ á heimasíðu RML.

Verkefnið var unnið af Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins í samstarfi við Landbúnaðarháskóla Íslands og var styrkt af Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar. Niðurstöðurnar sýna að þrátt fyrir að hin viðurkennda verndandi ARR-samsæta sé mjög sjaldgæf er hægt að innleiða hana tiltölulega hratt hér á landi, þannig að allar kindur á riðusvæðum verði með verndandi arfgerðir eftir innan við 10 ár og allur stofninn eftir innan við 20 ár. Þetta er hægt með viðráðanlegum fjölda arfgerðagreininga og án þess að setja stofninn í hættu vegna skyldleikaræktar eða lítillar virkrar stofnstærðar.

Þegar fyrstu íslensku kindurnar sem bera ARR-samsætuna fundust á bænum Þernunesi á Austurlandi í fyrra vöknuðu miklar vonir um innleiðingu samsætunnar í íslenska sauðfjárstofninn og sigur í baráttunni gegn riðu, en ARR- samsætan er alþjóðlega viðurkennd sem verndandi gegn riðu. Fáir arfberar ARR, sem allir eru úr sömu hjörðinni í upphafi, vekja hins vegar áhyggjur um að innleiðing samsætunnar í allan stofninn geti verið tímafrek og kostnaðarsöm, dregið úr erfðaframförum í kynbótastarfinu ásamt því að valda óhóflegri skyldleikarækt og tapi á erfðafjölbreytni í stofninum. Markmið þessa verkefnis var því að meta áhrif mismunandi leiða innleiðingar ARR í íslenska sauðfjárstofninn og voru helstu áhrifaþættir til skoðunar: Hraði innleiðingar, skyldleikarækt, virk stofnstærð og erfðaframför.

Í rannsókninni var íslenski sauðfjárstofninn og kynbætur á honum settur upp með hermilíkani í tölvu og reyndum við eftir fremsta megni að líkja eftir stofninum í raun. Stofninum var skipt niður í hjarðir og hjörðunum skipt þannig að hluti var á riðusvæðum og hluti á öðrum svæðum. Í hermilíkaninu voru hermdir þrír framleiðslueiginleikar: Fallþungi, gerð og mæðraeiginleiki. Settar voru upp 12 sviðsmyndir fyrir 20 ár af riðumótstöðuræktun þar sem ARR-samsætan var innleidd í 130.000 áa stofn. Þrjár breytur aðskildu sviðsmyndirnar: 1) hvort áhersla á riðumótstöðuræktun var mikil í öllum stofninum eða mikil á riðusvæðum en minni annarstaðar, 2) hversu stórt hlutfall lamba var arfgerðargreint, og 3) hvort hrútar með verndandi arfgerðir voru aðeins notaðir í eitt ár eða í allt að þrjú ár. Til samanburðar var sett upp grunnsviðsmynd þar sem aðeins var valið fyrir framleiðslueiginleikum. Í töflu 1 má finna lýsingu á sviðsmyndunum sem eru sýndar í myndum 1 til 3 í þessari grein.

Mynd 1 - Þróun arfgerðahlutfalla ærstofnsins á árunum eftir að riðumót- stöðuræktun hefst. Q eða R tákna breytileika í sæti 171.

Mynd 2 - Þróun meðalskyldleikaræktarstuðuls í stofninum við innleiðingu ARR-samsætunnar.

Mynd 4 – Virk stofnstærð fyrir ár 1-15.

Í öllum sviðsmyndum báru nánast allar kindur minnst eina ARR-samsætu eftir 20 ár af riðumótstöðuræktun og á riðusvæðum eftir 9 ár. Á mynd 1 sést þróun arfgerðahlutfalla ærstofnsins í fjórum af sviðsmyndum rannsóknarinnar. Eftir 20 ár af riðumótstöðuræktun er hlutfall arfhreinna ARR-gripa að nálgast 100% í sviðsmyndum þar sem allur stofninn leggur áherslu á innleiðingu en er á bilinu 50-70% í sviðsmyndum þar sem minni áhersla er utan riðusvæðanna.

Mikill munur var á fjölda arfgerðar greininga milli sviðsmynda. Þar sem mest var greint þurfi næstum eina og hálfa milljón arfgerðargreininga á næstu 20 árum sem gæti kostað hátt á fjórða milljarð króna. Ef lægra hlutfall er greint og aðeins riðusvæði hefja riðumótstöðuræktun af fullum krafti dugar aftur á móti að greina um 300 þúsund kindur samtals næstu 20 ár, að hámarki 30 til 40 þúsund á ári. Kostnaður við slíka leið gæti væri nær 700 milljónum, miðað við 2.500 kr á greinda kind. Umfangsmiklar arfgerðargreiningar, svo sem mikil greining gimbrarlamba til lengri tíma, skilaði litlum viðbótarárangri miðað við kostnað og breytti litlu um erfðaframför og skyldleikarækt samkvæmt líkaninu.

Í öllum tilfellum dró riðumótstöðuræktunin úr erfðaframför fyrir framleiðslueiginleikana, samanborið við grunnsviðsmyndina. Niðurstöðurnar benda til að á bilinu 6 til 10 ár af framförum gætu tapast, sem lauslega áætlað getur jafngilt um 600 milljóna verðmætum fyrir greinina. Aftur á móti var lítill munur á riðumótstöðusviðsmyndum varðandi tap á erfðaframför.

Mynd 2 sýnir þróun skyldleikaræktarstuðuls í stofninum í fjórum sviðsmyndum riðumótstöðuræktunar og í grunnsviðsmyndinni til samanburðar. Allar sviðsmyndir riðumótstöðuræktunar leiddu til meiri skyldleikaræktar en hefðbundin ræktun. Skyldleikaræktin var afgerandi meiri í sviðsmyndum þar sem allur stofninn lagði áherslu á innleiðingu ARR en í sviðsmyndum þar sem áherslan var meiri á riðusvæðum en á öðrum svæðum. Sviðsmyndir þar sem hrútar voru endurnýjaðir hratt leiddu til minni skyldleikaræktaraukningar en sviðsmyndir þar sem endurnýjun hrúta var hefðbundin. Mynd 3 sýnir virka stofnstærð á árum 1 til 15 af riðumótstöðuræktun fyrir fjórar sviðsmyndir ásamt grunnsviðsmyndinni. Í öllum sviðsmyndum minnkaði virk stofnstærð við riðumótstöðuræktun í samanburði við grunninn. Lægsta virka stofnstærðin var 86 sem er þó vel yfir 50 sem mælt er með sem algeru lágmarki af Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna. Niðurstöðurnar sýndu að hraðari endurnýjun hrúta eykur virka stofnstærð og eru áhrifin sérstaklega greinileg í sviðsmyndum þar sem innleiðing ARR fer hratt fram í öllum stofninum.

Niðurstöður þessa verkefnis sýna að þrátt fyrir lága upphafstíðni tíðni ARR-samsætunnar er hægt að innleiða samsætuna í allan íslenska sauðfjárstofninn á innan við 20 árum og á riðusvæðum á innan við 10 árum. Þó riðumót- stöðuræktunin hafi neikvæð áhrif á skyldleikarækt er þetta hægt án þess að skyldleikarækt fari yfir hættumörk eða virk stofnstærð fari undir hættumörk. Þrátt fyrir það er rétt að hvetja bændur og forsvarsmenn sæðingastöðvanna til að nota ekki sömu ARR hrútana mikið fyrstu ár innleiðingarinnar og helst skipta þeim út árlega, enda sýna niðurstöður hermilíkansins að notkun lambhrúta eingöngu eykur virka stofnstærð verulega.

Í þessari rannsókn var aðeins horft til arfgerða með ARR- samsætunni og niðurstöðurnar sýna að við getum vel komið okkur upp stofni sem er ónæmur fyrir riðu á stuttum tíma með því að horfa eingöngu til ARR. Það þýðir ekki að við eigum að hætta að horfa til fleiri arfgerða sem rannsóknarniðurstöður benda til að veiti góða vernd gegn riðu. Fleiri samsætur fjölga þeim möguleikum sem við höfum.

Svona hermilíkan getur að sjálfsögðu ekki líkt eftir öllum atriðum raunveruleikans og er í einhverjum tilfellum byggt á einföldunum. Slík líkön eru þó einhver nákvæmasta leið sem við höfum til að spá fyrir um framtíðina og gefa góða mynd af afleiðingum mismunandi ræktunaráherslna, sem er mjög gagnlegt hjálpartæki við stefnumörkun. Líkanið sem sett var upp í þessu verkefni er hægt að nota til að svara fleiri spurningum um kynbótastarfið í sauðfjárræktinni, bæði um ræktun á riðuþolnu fé og hefðbundnara kynbótastarf.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...