Dæmi um hárlausan blett á kú.
Dæmi um hárlausan blett á kú.
Mynd / assurewel.org
Á faglegum nótum 24. júlí 2024

Hárlausir blettir, sár og bólgur

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Líklega þekkja flestir kúabændur það hvimleiða vandamál að gripir þeirra fái hárlausa bletti, bólgur eða lítil sár sem má rekja til þess umhverfis sem þeir eru hýstir við.

Þetta gerist oftast ef legusvæði gripanna er óþægilegt, svo sem ef undirlagið er of hart eða of mjúkt og/eða undirburðurinn ofan á legusvæðinu er of knappur eða hreinlega rangur, sem veldur því að gripirnir eru að hreyfa sig meira en ella þegar þeir liggja og ættu að vera að hvíla sig. Önnur skýring gæti verið plássleysi eða ranglega stilltar innréttingar. Hvað sem veldur þessu þá verður til núningur á milli undirlagsins og húðar gripanna sem með tímanum getur leitt til þess að hárin hreinlega nuddast af, en núningurinn getur einnig valdið bjúgsöfnun án þess að hárin nuddist af. Þetta er áhætta sem fylgir því að hafa gripi á húsi en mikilvægt er að halda þessu vandamáli í lágmarki. Víða erlendis er miðað við að ef meira en 10% gripanna, í sama flokki innan fjóss, eru með einhvers konar hárlausa bletti, sár eða bólgur á hæklum eða framhnjám þarf að gera ráðstafanir til að draga úr vandamálinu.

Bólgur sem þessar eiga helst ekki að finnast í hjörðinni.
Vandamál víða

Í norska rannsóknarverkefninu Kubygg, sem gert var fyrir rúmum áratug þar í landi, var m.a. skoðað hvernig staða þessara mála var í þarlendum fjósum en meirihluti þeirra var þá hefðbundin básafjós. Í ljós kom að hárlausir blettir fundust á 53% skoðaðra gripa, sár á 6% gripa og bólgur á 1% gripanna. Þetta er reyndar óvenju hátt hlutfall en sem áður segir má rekja það til þess hve margar kýr voru bundnar á bása. Eins og þekkt er í dag er þorri gripa nú orðið í lausagöngu svo vænta má þess að vandamálið sé miklu minna að umfangi. Í gæðakerfinu Arlagaarden, sem byggir á því að gera gæðaúttektir á fjósum og gripum bænda sem selja mjólk til norður-evrópska afurðafélagsins Arla, er t.d. hlutfall hárlausra bletta innan við 5%.

Áhrif á framleiðslueiginleika

Sár á gripum eru auðvitað eitthvað sem þarf að taka alvarlega og góð staða þessara mála geta einnig skipt máli þegar kemur að framleiðslueiginleikum gripanna. Séu sár til staðar setur það af stað aukna framleiðslu á hvítum blóðkornum, til að takast á við sýkinguna, en það ferli krefst orku sem ætti miklu frekar að fara í að framleiða mjólk eða kjöt. Enn fremur getur það hreinlega haft áhrif á frumutölu mjólkurinnar þar sem hærra hlutfall er af þeim í líkamanum. Þá getur ranglega hannað legusvæði haft áhrif á át gripa enda sýna rannsóknir að  slíkum tilvikum reyna gripir yfirleitt að liggja lengur en ella, til að draga úr álagi á líkamann þegar staðið er á fætur á ný. Fyrir vikið éta gripirnir heldur minna með tilheyrandi afleiðingum á framleiðslueiginleika þeirra.

Að greina vandamálið

Fyrsta verk er að greina vandamálið og það eru til margs konar aðferðir til þess að meta vandamálið hlutlægt og hvaða aðferð er beitt er líklega ekki aðalmálið heldur að vandamálinu sé gefinn gaumur. Einfaldast er að telja gripina, innan sama flokks, t.d. kýrnar saman eða kvígurnar o.s.frv., og leita að þeim sem eru mögulega með hárlausa bletti, lítil sár eða bólgur. Þó svo að oft sé miðað við að bregðast við þegar og ef hlutfallið fer yfir 10% þá er rétt að taka fram að dýravelferð snýst um einstaklinginn sem slíkan og þó svo að hlutfallið geti verið lágt, geta verið gripir inn á milli sem eru í ójafnvægi og með bólgur eða sár sem þarf að takast á við og meðhöndla auk þess að finna skýringuna á því að vandamálið kom upp.

Sár á fótum geta komið og þá er brýnt að bregðast hratt við og meðhöndla þau.
Að finna ástæðuna

Ef athugun bendir til þess að þetta sé vandamál í fjósinu þarf fyrst að komast að því hvað veldur.

I. Fyrst þarf að skoða hvort vandamálið sé fylgifiskur annarra meina svo sem heltis. Hölt dýr liggja t.d. lengur en óhölt og geta fengið hárlausa bletti eða sár af þeim völdum. Í svona tilvikum geta aðstæður í fjósinu í raun verið almennt mjög góðar en heltið er þá í raun orsakavaldurinn og þarf þá að skoða hvað sé til ráða til að koma í veg fyrir heltið.

II. Líklega er algengast að finna skýringuna með því að skoða undirlagið vel og hvort þar finnist ástæða vandamálsins t.d. hvort það sé of hart eða undirburður rangur eða knappur. Þá getur óhreint undirlag valdið sama skaða.

III. Næst er að skoða hvort t.d. legubásar kúnna eru of þröngir og/ eða of stuttir. Góður ávitull um að þetta sé vandamálið er ef stærstu kýrnar í hópnum eru mest með hárlausa bletti, sár eða bólgur en ekki hinar minni. Sé legusvæðið of lítið gerist það að það myndast óþarfa núningur á milli undirlagsins og stærstu kúnna þegar þær leggjast niður eða standa á fætur. Með bættum aðbúnaði, bústjórn og kynbótum er ekki óeðlilegt að kýrnar í dag séu stærri en kýrnar sem voru í fjósum bænda fyrir 2–3 áratugum. Það er því ekki ólíklegt að einhverjir básar séu hreinlega ekki af réttri stærð í eldri fjósum landsins.

IV. Fjórða atriðið sem vert er að veita athygli er hvort legusvæðisinnréttingarnar í fjósinu séu rétt upp settar og stilltar. Oftast er hægt að breyta innréttingum eitthvað, þ.e. laga það hvernig þær eru stilltar og þá sér í lagi herðakambsslána. Oft er hún of aftarlega miðað við bringuborðið, þ.e. ef slíkt er til staðar, sem gerir það að verkum að kýrnar liggja mun aftar í básunum en þær ættu að gera. Enn fremur, ef það er ekkert bringuborð, þá geta kýrnar færst of framarlega í legubásana þegar þær liggja, sem leiðir til þess að þegar þær ætla að standa á fætur aftur þá er herðakambssláin fyrir þeim og hindrar þær í að standa hratt á fætur. Þær vita þetta sjálfar og þurfa því að mjaka sér í rétta stöðu, með tilheyrandi núningi líkamans við undirlagið. Rétt er að vekja athygli á því að ef mikill breytileiki er á holdafari og/eða stærð gripanna þá getur verið erfitt að finna rétta stöðu innréttinga og því er ákjósanlegast að vera með eins einsleitan hóp og unnt er á hverjum tíma.

V. Fimmta atriðið, sem gæti valdið hárlausum blettum, sárum eða bólgum, eru aðrar innréttingar eða hönnun gangsvæðanna í fjósinu. Eru einhvers staðar staðir í fjósinu þar sem gripirnir rekast oft utan í, sem gæti valdið því að þeir fá álagsmeiðsl eða sár?

Þetta má oftast finna skjótt með því að ganga um fjósið og leita að glansandi innréttingum. Það bendir til þess að gripir nuddist oft upp við viðkomandi innréttingu.

Meðhöndlun

Þegar skýringin er fundin á því sem er að valda gripunum skaða er auðvitað fyrsta verk að gera viðeigandi úrbætur. Séu gripir með sár og sýna merki um sársauka þarf að veita þeim rétta meðferð eins fljótt og auðið er. Lítil sár má meðhöndla með yfirborðs sótthreinsun eða úða með sótthreinsiefni en ef um stærri sár er að ræða eða bólgur sem hafa leitt til heltis gæti þurft að kalla til dýralækni.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...