Hreinir spenaendar = lægri frumutala!
Það hefur legið fyrir í mörg ár að skýrt samhengi er á milli hreinleika kúa og frumutölu og hefur þá oftast fyrst og fremst verið horft til hreinleika júgurs og fóta og hreinleikanum gefin einkunn á bilinu 1-5 til þess að átta sig á umfangi mögulegs vandamáls á búinu.
Til þessa hefur þó ekki verið mikið gert af því að gefa sérstaka einkunn fyrir hreinleika spenaenda en það er þó hægt að gera og hefur reynst gott stjórntæki til þess að meta eigin vinnubrögð við þrif á spenum.
Hreinn spenaendi
Sé spenaendinn tandurhreinn og þurr þegar mjaltatækið er sett á spenann dregur verulega úr líkum á því að mögulegt umhverfissmit geti borist í spenann og valdið sýkingu. Að sama skapi geta óná-kvæm vinnubrögð við undirbúning kúnna haft slæm áhrif og ýtt undir sýkingar og því mikilvægt að geta metið vinnubrögðin á hverjum tíma. Frönsk rannsókn, sem tók sérstaklega til hreinleika á spenum, leiddi í ljós að samhengi var að jafnaði á milli hreinleika á spenum og frumutölu sem í sjálfu sér kom ekki á óvart. Hins vegar þróuðu Frakkarnir hreinleikaskala sem má styðjast við heima á búum og getur hver sem er metið hreinleikann, sem er afar jákvætt. Flestir, sem eru vanir að mjólka, telja væntanlega að þeir þrífi spenaendana vel og með neðangreindri aðferð er einfaldlega hægt að skrá það niður og meta hvort bæta megi vinnubrögðin eða hvort allt sé eins og það eigi að vera.
Klútaaðferðin
Til þess að gera þetta þarf að notast við hreina og hvíta klúta og eftir að hefðbundnum þrifum á spenum er lokið, er spenaendinn „þrifinn“ með hvíta klútnum. Miða þarf við að meta a.m.k. 20% spenaendanna í fjósinu, svo niðurstöðurnar gefi þokklega rétta mynd af stöðunni. Spenaþrifunum er svo gefin einkunn í samræmi við meðfylgjandi myndir og lýsingu: Auðvitað er best að allir spenaendar hafi fengið einkunnina „1“ eða „2“, en líklega óraunhæft að slíkt náist og líklega finnast einkunnir eins og „3“ og jafnvel „4“ einnig.
Mat niðurstaðna
Þegar búið er að gefa einkunn fyrir spenaendaþrifin, þarf að taka saman niðurstöðurnar með því að telja hve margir spenaendar fengu einkunnina „1“, „2“, „3“ og „4“. Leggðu nú saman hve margir spenaendar fengu einkunnina „3“ og „4“ og reiknaðu svo út hlutfall þessarar samtölu af heild. Sé það þitt mat að meira en 80% af spenaendunum hafi fengið einkunnina „3“ eða „4“ þá gefur það vissulega tilefni til þess að ætla að bæta megi vinnubrögðin við þrif spenaendanna og þar með draga úr líkum á því að smitefni berist í kýrnar.
Benda má áhugasömum um spenaþrif á grein í Bændablaðinu frá 6. febrúar á síðasta ári (3. tbl.), þar sem farið er ítarlega yfir helstu atriði sem lúta að þrifum á spenum.