Hvernig vernda hin Norðurlöndin gömlu kúakynin?
Umræða um innflutning á erfðaefni, til þess að efla íslenska mjólkurframleiðslu, hefur nú komið upp á ný í kjölfar skýrslu Landbúnaðarháskólans sem sýndi svart á hvítu að bæta mætti verulega samkeppnishæfni íslenskrar mjólkurframleiðslu með afurðameira kúakyni.
Samhliða umræðunni hefur einnig komið upp umræða um að vernda þurfi hið íslenska kúakyn enda eitt af fjölmörgum gömlum landkynjum á Norðurlöndunum sem standa eigi vörð um. Í raun blasir það við að gera þarf einhverjar ráðstafanir til að vernda íslenska kúakynið þegar til innflutnings kemur, enda er dagljóst að kynið er óhagkvæmara í rekstri en mörg erlend kúakyn.
Um þetta ætti í raun eiginlega ekki að eyða púðri, enda á það að vera sjálfsagt mál að vernda líffræðilegan fjölbreytileika og er auðvitað að fullu á ábyrgð íslenska ríkisins að sjá um það þar sem Ísland er aðili að alþjóðlegum samþykktum þar að lútandi. Það er því ekki bænda, og ætti ekki að vera áhyggjuefni bænda, að ræða um verndun kynsins heldur aðila á vegum hins opinbera. Það er einmitt þess vegna að hér á landi er starfrækt sérstök nefnd á vegum hins opinbera sem hefur það hlutverk að sjá um þessi mál. Nefndin fylgist náið með þessum málum og sér m.a. um að gera sérstakar áætlanir svo hið opinbera geti staðið við sínar skuldbindingar um verndun á líffræðilegum fjölbreytileika.
Hin Norðurlöndin
Á hinum Norðurlöndunum eru einnig starfandi sambærilegar nefndir og ráð sem hafa svipað hlutverk, þ.e. að sjá um að framfylgja stefnu þarlendra stjórnvalda til þess að viðhalda erfðabreytileikanum í náttúrunni og þar á meðal að viðhalda gömlum kúakynjum hvers lands. Raunar er það svo að á vegum hins norræna samstarfs er til sérstök stofnun, NordGen, þar sem tugir sérfræðinga starfa, sem sérstaklega vinna að því að sinna verndun á erfðaefni á Norðurlöndunum og þar á meðal eru búfjárkyn, nytjaplöntur og skógar.
Líklega kannast margir lesendur Bændablaðsins við umræðu um gömul norsk landkyn, enda íslenska kúakynið einna helst tengt þeim. Það eru þó mun fleiri kúakyn til á Norðurlöndunum og eiga í dag öll það sameiginlegt að vera í verndarflokki hvers lands, þ.e. kynin hafa í raun tapað samkeppnislega séð fyrir afurðameiri kúakynjum en er viðhaldið með sértækum aðgerðum hvers lands. Verður hér því til fróðleiks farið lauslega yfir það hvernig staðið er að þessu á hinum Norðurlöndunum, lesendum Bændablaðsins til fróðleiks.
Hvenær þurfa kyn vernd?
Samkvæmt viðmiði FAO, Alþjóðlegu matvælastofnunarinnar, er til einföld flokkunarregla fyrir kyn og hættu á útrýmingu þess. Þannig er miðað við að ef fjöldi kvendýra fer undir 1.000 og karldýra undir 20 þá er stofninn í hættu. Ef fjöldi kvendýra fer undir 300 og karldýra í 5 eða færri er stofninn í verulegri hættu og hreinlega metinn í útrýmingarhættu ef fjöldi kvendýra fer undir 100. Þessi viðmið eru notuð á hinum Norðurlöndunum til þess að meta hvort og þá hvenær hið opinbera eigi að grípa inn í með sértækum aðgerðum til þess að vernda erfðafjölbreytileikann.
Finnland
Byrjum á Finnlandi en þar eru í dag þrjú gömul kúakyn í verndarflokki. Þessi kyn eru einfaldlega kölluð Finncattle eða finnska nautgripakynið að meginnafni en eru með þrjú undirkyn: Austurkyn, Norðurkyn og Vesturkyn. Þó nokkur munur er á þessum kúakynjum en öll eru þau frekar smágerð, kollótt en þó útlitslega frábrugðin hvert öðru. Þannig er finnska Vesturkynið rautt, Norðurkynið hvítt og Austurkynið bæði rautt og hvítt. Finnar hófu innflutning á öflugri kynjum ætluð mjólkurframleiðslu fyrir mörgum áratugum og þá fóru þessi gömlu landkyn að láta undan, nú er fjöldi kvendýra allra kynjanna kominn niður fyrir 3.000 og kynin öll því komin með verndaráætlun.
Verndunin fer þannig fram að bændur fá sérstakan styrk fyrir hvert hreint kvendýr eða karldýr sem er á skrá og gildir engu hvor um er að ræða eiginlegt kúabú eða einhvers konar annan rekstur, t.d. húsdýragarð svo dæmi sé tekið. Styrkurinn er reyndar mismunandi eftir því um hvaða kyn er að ræða og þar sem flestar kýr eru til á skrá af Vesturkyninu, og það einnig afurðahæst, fá þeir sem eru með slíkar kýr 300 evrur í styrk á ári fyrir hvert dýr á skrá, eða um 44 þúsund krónur. Fyrir hin kynin tvö fá skráðir eigendur aftur á móti tvöfalt hærri upphæð fyrir hvert skráð dýr enda færri til af þeim og þau síður heppileg til mjólkurframleiðslu.
Auk þess að greiða eigendum gripa styrki þá á finnska ríkið miklar birgðir af bæði sæði ótal nauta og fósturvísum í djúpfrystum, sem hægt er að draga fram ef á þarf að halda.

Danmörk
Þó svo að það heyrist ekki mikið um gömlu dönsku landkynin nú orðið þá eru þau til þar í landi og eru fimm kúakyn í sérstökum verndarflokki þar. Það sem er e.t.v. merkilegast við stöðuna í Danmörku er að þar eru hin þekktu SDM og RDM kúakyn í verndarflokki! SDM, Svartskjöldóttar danskar kýr og RDM, Rauða danska mjólkurkúakynið, eru til víða í dag en kynin sem njóta verndar eru skilgreind sem „árgerð 1965“ (SDM) og „árgerð 1970“ (RDM), þ.e. áður en bændur kynbættu þessi gömlu landkyn með erfðaefni erlendis frá. Auk hinna eldri árgerða af SDM og RDM eru önnur kyn: Jóska kúakynið, Danska stutthornskynið og svokallað Agersø kúakyn.
Verndun þessara fimm gömlu kúakynja fer þannig fram að hið opinbera borgar VikingDanmark fyrir að varðveita erfðaefni í djúpfrysti og viðhalda erfðaefni ef á þarf að halda þ.e. með því að taka naut inn á stöð til sæðistöku. Þá greiðir hið opinbera fyrir varðveislu á fósturvísum og eggfrumum í djúpfrystum VikingDanmark. Þess utan fá eigendur skráðra gripa styrki frá danska ríkinu ef þeir sækja um styrkina. Í Danmörku þurfa sem sagt eigendur búfjár, sem talið er að þurfi að vernda, að sækja um styrki og er ekki nóg að eiga kýr eða naut heldur þarf einnig að sýna fram á að kýrnar hafi verið sæddar og að það hafi verið gert með sæði sem samþykkt er til notkunar í viðkomandi kyni. Alls gátu eigendur gripa í verndarflokki fengið styrki upp á 1.725 danskar krónur, eða um 34 þúsund krónur, á hvert kvendýr og 3.000 danskar krónur, um 59 þúsund, fyrir hvert skráð karldýr.

Svíþjóð
Í Svíþjóð eru í dag sex gömul kúakyn sem eru skilgreind sem kyn í verndarflokki. Þessi kyn eru Sænskar fjallakýr, Rauðar kollóttar, Väne kynið (kennt við samnefndan bæ), Ringamåla kynið (kennt við samnefndan bæ), Bohus kynið (kennt við Bohuslän) og Sænska láglandskynið. Líkt og í hinum löndunum sem hér að framan greinir frá borgar hið opinbera styrki til eigenda kven- og karldýra þessara kynja og auk þess sér hið opinbera um að viðhalda erfðaefni í djúpfrystum. Sænska kerfið er þó aðeins frábrugðið kerfunum í Danmörku og Finnlandi að því leyti að eigendur fá jafnmikið greitt fyrir gripinn óháð kyni en alls eru greiddar 2.000 sænskar krónur á hvert lífdýr eldra en 6 mánaða, eða um 26 þúsund íslenskar krónur.
Noregur
Í Noregi eru sjö gömul kúakyn sem eru í verndarflokki og er viðhaldið með sértækum aðgerðum. Þetta eru kynin Svartsíðóttar Þrænda- og Norðlandskýr, Þelamerkurkynið, Jarlsbergkynið, Dalakynið, Rauða Vesturkynið, Rauða Austurkynið og Vestfjarðakynið. Þessum gömlu kynjum er viðhaldið með bæði opinberum styrkjum beint til bænda og með því að greiða fyrir varðveislu og viðhald erfðaefnis með bæði djúpfrystingu á sæði og fósturvísum auk þess sem naut eru tekin inn á sæðingastöð eftir þörfum. Styrkirnir sem eigendur gripa geta fengið í Noregi eru 3.000 norskar krónur á hvern skráðan grip, eða um 38 þúsund íslenskar krónur.
Munnlegar heimildir: Seppo Niskanen, VikingGenetics í Finnlandi Thure Bjerketorp, VÄXA í Svíþjóð Kristin Malonæs, GENO í Noregi Lars Kloster, VikingLivestock í Danmörku