Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Innleiðing verndandi arfgerða á fljúgandi ferð
Á faglegum nótum 25. febrúar 2025

Innleiðing verndandi arfgerða á fljúgandi ferð

Höfundur: Eyþór Einarsson, ráðunautur á búfjárræktarsviði.

Árið 2024 voru framkvæmdar umfangsmeiri arfgerðargreiningar í sauðfjárrækt en nokkru sinni áður.

Eyþór Einarsson

Íslensk erfðagreining framkvæmdi greiningar á nánast öllum sýnum sem tekin voru á síðasta ári. Fyrirtækið á hrós skilið fyrir sína aðkomu en greiningar gengu hratt og vel og óhætt að segja að þetta samstarf sé sauðfjárbændum ákaflega dýrmætt. Þá hefur úthlutun hylkja, móttaka sýna og utanumhald niðurstaðna í Fjárvís tekist með miklum ágætum og má jafnframt þakka þeim fjölmörgu samstarfsmönnum innan RML sem hér hafa lagt hönd á plóg.

Umfang arfgerðargreininga tvöfaldaðist á milli ára

Alls bárust gildar niðurstöður fyrir 72.339 sýni. Til samanburðar, þá voru greind á árinu 2023 rúmlega 35 þúsund sýni. Ef aðeins er rýnt nánar í sýnasafnið frá síðasta ári þá var megnið af sýnunum úr lömbum, enda lögð rík áhersla á að fylgja eftir notkun arfblendinna hrúta með arfgerðargreiningum þannig að til ásetnings veljist þeir gripir sem hreppa góðu genin. Upplýsingar um allar niðurstöður eru varðveittar í Fjárvís.

Tafla 1. Skipting sýna sem tekin voru árið 2024, eftir aldri og kyni.

Rúmlega 98% af niðurstöðunum er tengt við gripi inn í skýrsluhaldskerfinu en það sem upp á vantar er aðallega frá fjáreigendum sem ekki eru í skýrsluhaldi. Í töflu 1 er gerð grein fyrir hvernig sýnin sem skráð eru á gripi skiptast eftir aldri og kyni.

Þátttaka í greiningum

Í Fjárvís eru skráðir 17.725 lifandi hrútar og sauðir. Af þessum hópi eru 53% með þekkta arfgerð. Þetta hlutfall er reyndar nokkuð hærra í yngstu árgöngunum en af hrútum fæddum 2024 eru 64% með greiningu og er hlutfallið svipað fyrir 2023 árganginn. Á meðfylgjandi súluriti (mynd 1) er yfirlit yfir hversu hátt hlutfall hrúta og áa er með arfgerðargreiningu eftir sýslum. Þarna kemur í sjálfu sér ekki á óvart að mest sé um greiningar í þeim héruðum þar sem riðuógnin er mest og er það einnig stefnan samkvæmt landsáætlun um útrýmingu riðu að þar þurfi innleiðingin að ganga greiðast. Það skal þó áréttað að það er geysilega mikill akkur í því fyrir þetta verkefni að allir kynbótahrútar landsins séu arfgerðargreindir og því væri æskilegt að bláu súlurnar á mynd 1 væru enn hærri heilt yfir. Mikilvægið felst ekki eingöngu í því að stuðla að vali fyrir verndandi arfgerðum heldur er einnig fólgin í því leit í stofninum að fleiri nýjum upprunabúum góðra gena. Á síðasta ári kostaði einungis 300 kr. (sem var þá verðið á hylkinu) að arfgerðargreina ásetta hrúta og er stefnan áfram að styðja vel við þær greiningar.

Ef teknir eru saman allir lifandi gripir, hrútar og ær, þá eru 75.621 gripur með greiningu sem er 21% af þeim fjölda sem skráður er á lífi í Fjárvís. Þetta hlutfall var á síðasta ári 15%. 

Mynd 1. Hlutfall arfgerðargreindra hrúta og áa, sem skráðir eru lifandi í Fjárvís, eftir sýslum.

Hlutfall verndandi og mögulega verndandi arfgerð vex hratt

Mynd 2 sýnir samsetningu stofnsins í dag út frá arfgerðum og byggir á þeim rúmlega 75 þúsund gripum sem skráðir eru lifandi í Fjárvís og hafa arfgerðargreiningu. Í þessari samantekt eru arfgerðir gripa flokkaðar í 5 flokka, í samræmi við litamerkingar breytileikanna í Fjárvís. Það er V eða verndandi (dökkgrænt flagg)sem eru arfgerðir sem innihalda ARR en mega þó ekki vera arfblendnar á móti VRQ. Þá er það MV eða mögulega verndandi (ljósgrænt flagg), en það eru arfgerðir sem innihalda breytileikana T137, C151 og H154 (AHQ) en þessar arfgerðir mega heldur ekki innihalda VRQ. Þriðji flokkurinn kallast lítið næmar arfgerðir (blátt flagg) en það eru bara arfgerðir sem innihalda N138, arfhreint eða á móti villigerðinni ARQ. Síðan er það villigerðin, ARQ/ARQ sem einnig er þekkt sem hlutlaus (gult flagg) og að lokum áhættuarfgerðir (rautt flagg), en það eru allar arfgerðir sem innihalda VRQ. Þetta er aðeins ýtarlegri flokkun en landsáætlun um útrýmingu riðu gerir ráð fyrir, en í henni eru arfgerðir bara flokkaðar verndandi, mögulega verndandi eða næmar.

Mynd 2. Samsetning stofnsins (ær og hrútar) út frá arfgerðum lifandi kinda í Fjárvís í ársbyrjun 2025.

Miðað við sambærilega skoðun á gögnunum fyrir ári síðan lækkar hlutfall villigerðarinnar úr 69% í 54% og V og MV arfgerðirnar aukast úr 19% í 35%. Þetta gefur því til kynna að innleiðingin gangi fremur hratt og vel. Hins vegar verður að taka tillit til þess að greiningarnar koma fyrst og fremst frá búum sem eru að vinna mjög markvisst að innleiðingu og því má reikna með að hlutfall villigerðarinnar í stofninum í heild sé talsvert stærri biti af kökunni ef allur stofninn væri greindur.

Hrútar með verndandi arfgerð finnast á helmingi búa

Samkvæmt Fjárvís eru nú lifandi 2.566 hrútar sem bera hina verndandi arfgerð ARR, þar af 55 hrútar sem eru arfhreinir (ARR/ ARR). Þá er 291 hrútur sem bera V/MV arfgerðir. Fyrir ári síðan voru aðeins til 667 hrútar sem báru ARR genasamsætuna og hefur því fjöldi þeirra fjórfaldast. Þá eru 259 hrútar með MV/MV og 1.554 með MV/N.

Í töflu 2 kemur fram að á um helming búa sem skiluðu skýrsluhaldsgögnum fyrir árið 2024 er að finna hrúta sem bera ARR genasamsætuna, þar af eru á 21 búi 100% hrútanna með ARR genasamsætu (hrútar með a.m.k. eitt dökkgrænt flagg). Ef horft er bæði til verndandi og mögulega verndandi arfgerða þá er um 60% búa sem hafa yfir slíkum hrútum að ráða. Væntanlega leynast síðan fleiri slíkir hrútar á einhverjum búum ógreindir.

Tafla 2. Yfirlit yfir fjölda búa skipt eftir því hve hátt hlutfall hrúta á búunum bera verndandi (V/X) og mögulega verndandi (MV/X ) arfgerðir.

Um næstu skref

Á næstu dögum verður útlistað hvernig reglur um hvatastyrki verða útfærðar fyrir árið 2025 en áfram mun matvælaráðuneytið styrkja þetta verkefni. Ljóst er að í vor er von á margföldum fjölda lamba sem gætu borið V eða MV arfgerðir miðað við fyrri ár og verður því að velja þau lömb sem á að greina í vor af kostgæfni þannig að greiningar verði gerðar með sem hagkvæmustum hætti.

Óhætt er að segja að innleiðing verndandi arfgerða gangi vel. Það sést bæði á þessum niðurstöðum og eins á mjög góðri þátttöku í sauðfjársæðingum nú fyrr í vetur. Ný reglugerð byggð á landsáætluninni er í burðarliðnum og með tilkomu hennar verður hægt að fylgja innleiðingunni enn betur eftir. Mjög ánægjulegt er að ekki fannst riða í neinu sláturhúsasýni frá síðustu sláturtíð. En vissulega erum við ekki enn komin fyrir vind, þurfum að halda þétt á spöðunum áfram og muna að þetta er sameiginlegt verkefni allra sauðfjárbænda að byggja upp þolinn sauðfjárstofn.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...