Íslenska forystuféð – fyrri hluti
Höfundur: Jón Viðar Jónmundsson
Ég skulda mörgum eigendum forystufjár hér á landi greinargerð um íslenska forystuféð. Snemma á árinu 2009 hófst ég handa við að reyna að afla upplýsinga um allt forystufé í landinu sem sett var á haustið 2008. Ætlunin var að safna upplýsingum um féð til að geta gefið lýsingu á stofninum og hvernig varðveisla hans hefur tekist á undanförnum áratugum.
Hafði ég sambandi við mjög mikinn fjölda fólks um allt land sem ég taldi að gæti safnað fyrir mig á einhvern hátt þessum upplýsingum. Eins og ætíð þegar ég hef þurft þannig að leita til bænda voru viðbrögð mjög jákvæð. Eins og í allri smalamennsku varð leitin að síðustu gripunum mjög seinleg. Ég veit raunar að ekki var kollheimt enda líklega nær óframkvæmanlegt þegar um jafn ósamstæðan hóp er að ræða og hér. Þegar í hús voru komnar þær upplýsingar sem mér virtist mögulegt að ná til forfallaðist ég um langan tíma frá störfum. Rétt er að geta þess að í rannsókninni tókst að koma höndum yfir 1422 kindur sem settar voru á vetur haustið 2008. Þannig má ætla að stofninn hafi talið um 1500 kindur á þeim tíma. Það er um 0,3% af öllu ásettu fé í landinu og í samanburði við rannsókn Lárusar G. Birgissonar nær tveim áratugum áður (sjá hér síðar) má ætla að þessu fé fari frekar fjölgandi.
Árið 2014 gat ég fyrst einbeitt mér að verkinu að nýju. Afraksturinn mun nú á haustdögum birtast sem grein í tímaritinu Náttúrufræðingnum. Greinin er unnin í samvinnu við fjölda áhugasamra samstarfsmanna. Um allar niðurstöður vísa ég því lesendum til þeirrar greinar þegar hún birtist. Hér á eftir mun ég hins vegar ræða nokkur atriði sem tengjast þessari mestu og leyndustu náttúruperlu íslensks búfjár.
Eldri heimildir
Forystuféð hefur um aldaraðir verið eins konar huldufé í íslenskri sauðfjárrækt. Í raun eru haldbærar upplýsingar um stofninn verulega takmarkaðar. Árið 1993 vann Lárus G. Birgisson lokaverkefni sitt við Landbúnaðarháskólann þar sem hann kortlagði stofninn í fyrsta skipti. Rúmum tíu árum síðar eða 2004 vann síðan Sigríður Jóhannesdóttir við sama skóla lokaverkefni um þróun stofnsins á síðustu áratugum með tilliti til skyldleikaræktar en söfnun ætternisupplýsinga reyndist henni nokkuð snúin. Gögn þau sem þau öfluðu í þessum verkefnum komu samt að ómældu gagni við þetta verkefni. Það fólst í raun í samþættingu þessara upplýsinga með nýjum og heilstæðari gögnum.
Eins og þegar hefur verið sagt þá voru eldri heimildir um þetta fé mjög takmarkaðar. Til er að vísu hið einstaka verk Ágeirs Jónssonar frá Gottorp, bókin Forystufé. Hana má að vísu aðeins nota með varkárni sem heimildaverk um stofninn. Væri hún tekin bókstaflega mætti álykta að stofninn hafi verið bundinn Norðurlandi vestra að mestu leyti á fyrri hluta síðustu aldar, sem ég held að sé alrangt. Engu að síður er ljóst að þegar fjárskiptin voru um miðja síðustu öld féll umtalsverður hluti af forystufé í landinu. Þá voru menn áhyggjufullir um að stofninum yrði eytt og Hjörtur Eldjárn lagði þá líklega til fyrstu varnaraðgerðir til varðveislu á erfðaauðlindum þegar hann lagði til að reynt yrði að bjarga stofninum frá eyðingu með varðveislu í úteyjum fyrir Norðurlandi. Skömmu áður hafði Halldór Pálsson lagt til að þá nýstofnaður þjóðgarður á Þingvöllum yrði nýttur til slíkra hluta. Fram kemur víða í skrifum Halldórs á fjárskiptaárunum að hann taldi tvísýnt að stofninum yrði bjargað. Góðu heilli hafa áhyggjur þessara góðu manna reynst óþarfar.
Gengisfelling forystufjáreiginleikans
Það var annað en niðurskurðarhnífurinn sem ógnaði forystufé á þessum tíma. Mikilvægi þess í fjárbúskapnum fór ört dvínandi. Þegar beitarbúskapur, sem hafði verið undirstaða fjárbúskapar í landinu um aldarraðir, var að hverfa, hvarf um leið veigamesta hlutverk þessa fjár. Einnig leiddi þróun flutningatækni á þessum árum til þess að síður var þörf fyrir aðstoð þessa fjár við fjárrekstra um langa vegu og torleiði. Ekki bjó það yfir framleiðslueiginleikum á við flest annað fé. Hlutverk þess á nýjum tímum var því öðru fremur ánægjuauki fyrir eigendur þess og um leið varð brýnt að vinna að því að varðveita þennan merka stofn.
Núverandi dreifing
Örfá orð um dreifingu forystufjár um landið. Þetta fé er að finna um allt land nema í Vestur-Barðastrandasýslu fannst slíkt hreinræktað fé ekki en þar hygg ég að menn séu á góðri leið, með skipulegri notkun sæðinga, að koma sér upp slíku fé að nýju. Mestan fjölda forystufjár er að finna á Norðausturlandi en tvo svæði eru öðrum þunnskipaðri af þessu fé og er það annars vegar svæðið frá Markarfljóti austur og norður að Egilsstöðum og hins vegar á Vestfjörðum. Á Vestfjörðum er samt að finna tvær öflugar hjarðir sem hafa orðið þessari ræktun mikilvægar á síðustu árum vegna þess að þær eru á fjársölusvæðum.
Perlan í íslensku búfé
Eftir vinnu við þessar rannsóknir í nokkur ár hefur mér orðið ljósar en áður að forystuféð er líklega dýrmætasta erfðaauðlindin sem finnst hér á landi. Það má fullyrða að eiginleika þess er hvergi að finna hjá öðru sauðfé í heiminum. Þetta gerir skyldur okkar um varðveislu enn mikilvægari.
Fyrir mörgum árum þegar við Ágúst Sigurðsson vorum að vinna að gerð BLUP-kynbótamats fyrir kjötgæði hjá sauðfé hér á landi þar sem forystuféð sýndi sín sérkenni og var auðlesið úr niðurstöðunum fyrir þá eiginleika, sagði hann mér að hér værum við tvímælalaust með einstaka möguleika í höndunum til að markaðssetja mjög sérstakan eiginleika. Ég var ekki uppnuminn og hafði efasemdir en eftir því sem ég hef meira unnið að þessu efni hef ég sannfærst betur og betur um að þarna hafði Ágúst, eins og svo oft, lög að mæla. Þarna bíður stórverkefni forystufjáreigenda á Íslandi á næstu árum og áratugum.
Kynning þess verður að vísu að heppnast betur en hjá okkur Stefáni Aðalsteinssyni fyrir rúmum tveim áratugum þegar við á heimsráðstefnu í Kanada um búfjárerfðafræði og -kynbætur vorum að kynna niðurstöður rannsóknar Lárusar á þeim tíma. Undirtektir voru að vísu góðar en menn trúðu vart okkar orðum. Héldu líklega að við hefðum sloppið inn á þessa virðulegu ráðstefnu til að gera grín að mönnum líkt og Baldur og Konni forðum með íkjusögum. Það sem okkur vantaði voru mælingar til að sýna framá eiginleikann. Þær hafa nú verið gerðar og vísast til greinarinnar sem nefnd er í byrjun. Félagi okkar, Ástralíumaðurinn Piper, sem nokkrum árum síðar gaf út heimsrit sitt um erfðir hjá sauðfé og sauðfjárkynbætur, víkur að þessu í sínu riti. Hann bætir um betur með því að láta að því liggja að við værum slíkir einfeldningar að við áttuðum okkur ekki á að þarna hefðum við mætt kindum sem hefðu verið hræddar við okkur.
Það ánægjulega hefur gerst að komið er Forystufjársetur austur í Þistilfirði sem hefur vakið verðskuldaða athygli en á vonandi eftir að vekja hana enn meira á komandi árum. Fyrir meira en áratug var stofnað Forystufjárræktarfélag Íslands en starfsemi þess hefur verið öllu minni en þyrfti að vera. Nú stendur til að blása lífi að nýju í þennan félagsskap og tengja hann betur Forystufjársetrinu. Með því að kalla nýtt fólk til starfa tekst vonandi að hefja kyndilinn á loft að nýju. Verkefnin bíða í að samræma alla vinnu betur í upplýsingaöflun um þessa einstæðu erfðalind sem forystuféð er og hefja markvissa kynningu þess erlendis. Samvinna þessara tveggja aðila sem báðir stefna að sama markinu, að efla veg og virðingu forystufjár, er þar lykilatriði.
Forystufjárfélagið
Ástæða er því að kalla sem allra flesta forystufjáreigendur í landinu og aðra áhugamenn um ræktun og varðveislu forystufjár til að mæta á aðalfund félagsins sem haldinn verður sunnudaginn 23. ágúst í Forystufjársetrinu á Svalbarði í Þistilfirði og hefst klukkan 13.30. Í framhaldi af aðalfundinum mun verða fræðslufundur í setrinu. Á þeim fundi mun Ólafur R. Dýrmundsson fjalla um frænda sinn, þann einstaka mann Ágeir Jónsson frá Gottorp sem skrifaði bíblíuna Forystufé. Síðan mun ég fjalla um einhver atriði úr rannsóknum mínum og samstarfsfólks um íslenska forystuféð. Hittumst sem flest í Forystufjársetrinu.
Í næsta blaði mun birtast frekari umfjöllun um nokkur atriði sem fram koma í rannsókninni sem ástæða er til að fjalla frekar um. Það eru þættir eins og hvernig varðveisla stofnsins síðustu áratugina hefur tekist og umfjöllun um útleikseiginleika þessa fjár.