Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hópmynd tekin í tilefni af því að bæði íslenskir bændur og landbúnaðarráðherra landsins voru stödd á sama tíma í Kína.
Hópmynd tekin í tilefni af því að bæði íslenskir bændur og landbúnaðarráðherra landsins voru stödd á sama tíma í Kína.
Mynd / SS
Á faglegum nótum 2. desember 2019

Landbúnaðarfagferð til KÍNA – fyrri hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson - snsig@arlafoods.com
Dagana 27. október til 8. nóvember sl. stóð yfir ferð 40 Íslendinga, aðallega íslenskra bænda, til Kína en tilgangur ferðarinnar var að bæði kynna sér þarlendan landbúnað og þá aðallega kúabúskap. 
 
Í ferðinni var farið til fjögurra borga í þeim tilgangi að sækja kínverska bændur heim, en auk þess var auðvitað tækifærið gripið til þess að skoða og upplifa nokkra af helstu ferðamannastöðum landsins. Hér á eftir er fyrri hluti frásagnar um þessa ferð en fyrst og fremst verður þó fjallað um hinn landbúnaðarfaglega hluta ferðarinnar.
 
Móttaka með landbúnaðarráðherra
 
Þegar komið var til Kína var þegar kominn annar dagurinn í ferðalaginu, enda bæði flugið langt og mikill tímamunur á milli landanna og strax eftir lendingu tók við þéttskipuð dagskrá með blöndu af ólíkum viðburðum. 
 
Þennan fyrsta dag hópsins í Kína var m.a. farið í móttöku í íslenska sendiráðinu í Peking þar sem sendiherra landsins, Gunnar Snorri Gunnarsson, tók á móti íslenska hópnum og kynnti þar bæði mikilvæga starfsemi sendiráðsins í Kína og þá þætti sem tengja saman matvælalandið Ísland og Kína. 
 
Útflutningur íslenskra matvæla til Kína hefur vaxið ár frá ári og bæði er þar um að ræða útflutning á eldislaxi og fleiri afurða. Nú síðast hefur tekist að fá leyfi til að flytja út takmarkað magn af lambakjöti frá Íslandi til Kína og þá er verið að skoða ýmis önnur áhugaverð verkefni eins og t.d. skyrsölu svo dæmi sé tekið.
 
Kínverjar eru einmitt byrjaðir að nota ost í stórum stíl á bæði flatbökur og við almenna matargerð. Vandamálið er hins vegar það að þeir kunna almennt ekki vel við hina venjulegu lykt sem er af gulum osti og kvarta neytendur oft undan vondri lykt af ostinum. Í stað þess að reyna að berja hausnum við steininn og hreinlega kenna Kínverjum að læra að meta hefðbundna lykt af hörðum osti þá var fundin upp einföld lausn. Þegar pokinn með rifna ostinum er opnaður þá ilmar hreinlega eins og vanilluís.
 
Vel rekið sendiráð
 
Sendiráðið er rekið með hagsýni og sparnað að leiðarljósi og er húsnæðið t.d. í eigu Eistlands og fá Íslendingar þar inni, gegn leigugreiðslu, með eistneska sendiráðinu. Þá er sendiráðið með umtalsverðar tekjur af sölu og vinnu við vegabréfsáritun Kínverja sem vilja fara í heimsókn til Íslands. 
 
Sagði Gunnar Snorri m.a. að það stefndi í að sendiráðið næði þeim merka áfanga að vera sjálfbært, þ.e. skapaði sér það miklar tekjur með útgáfu vegabréfsáritana að tekjurnar stæðu undir öllum kostnaði við reksturinn.
 
Þegar Kína er sótt heim er um að gera að prófa sem mest, m.a. svona kerrur sem hægt er að ferðast í um miðbæ Peking.
 
Landbúnaðarráðherra á staðnum
 
Svo skemmtilega vildi til að þegar hópurinn var staddur í Peking þá var Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Íslands staddur í Kína í tengslum við heimsókn hans á umfangsmikla sjávarútvegssýningu í hafnarborginni Qingdao. Fyrst svo skemmtilega hittist á að hann væri í Kína á sama tíma og stór hópur íslenskra bænda, ákvað hann að gera lykkju á leið sína og mæta í móttöku sendiráðsins. Einstakur viðburður og hefur væntan­lega ekki gerst oft áður að bændur og ráðherra landsins hittist og ræði málefni íslensks landbúnaðar í íslensku sendiráði erlendis og hvað þá í Kína. 
 
Árþúsunda saga
 
Líkt og flestir vita þá á Kína sér afar langa sögu og þegar landið er heimsótt er vart annað hægt en að kynna sér nokkra af þeim stöðum sem snerta söguna. Næsti dagur var því nýttur til þess að skoða höfuðborgina og heimsækja þekkta staði í Peking var m.a. farið á staði eins og Torg hins himneska friðar, hina Forboðnu borg, í Lama-hofið, skroppið í hjólakerrureið auk þess sem gengið var um Hutong-hverfi borgarinnar svo dæmi sé tekið.
 
Þróunarmiðstöð Arla í Kína
 
Fjórði dagur ferðarinnar rann skjótt upp og hófst með því að farið var í heimsókn í þróunarmiðstöð Norður- evrópska afurðafélagsins Arla en félagið er þarna með sérstaka þróunardeild sem vinnur að því að bæði þróa og aðlaga mjólkurafurðir félagsins að kínverskum aðstæðum. Um afar mikilvæga starfsemi er að ræða enda þarf að breyta verulega bæði útliti, áferð og bragði hefð­bundinna mjólkurvara svo þær renni ljúft í kínverska neytendur. 
 
Sumar vörur ganga auðveldlega í kínversku neytendurna eins og t.d. innflutta G-mjólkin en Arla er einn stærsti innflytjandi slíkrar mjólkur til Kína í öllum heiminum og flytur þangað árlega sem nemur hartnær jafnmiklu magni mjólkur og er framleidd árlega hér á landi.
 
Hér má sjá hjónin Eið Ólason og Guðrúnu Sigurjónsdóttur á Glitstöðum í Borgarfirði með Kínamúrinn í síðdegissólinni í bakgrunni. Mynd / Þórunn Andrésdóttir í Bryðjuholti.
 
Kenna notkun mjólkurvara
 
Á meðan hefðbundin mjólk virðist renna ljúft í Kínverjana, og í vax­andi magni ár frá ári, þá er það ekki sama sagan með allar aðrar mjólkurvörur og þær þarf þá að aðlaga markaðinum. Til þess að þetta sé hægt, þarf ýmislegt til og er þarna í raun rekin lítil afurðastöð þar sem hægt er að framleiða flestar mjólkurvörur. Auk þess eru þarna bæði tilrauna- og sýningareldhús og stóreldhús. Reglubundið er kínverskum matargerðarmönnum og -konum boðið í þessa aðstöðu þar sem þekktir kínverskir meistarakokkar leiðbeina með hvaða hætti hægt er að nota mjólkurvörur við kínverska matargerð.
 
Kínverska matargerðin byggir á miklum hefðum og hafa kokkar, sem starfa hjá Arla, unnið sleitulaust að því að þróa uppskriftir sem tvinna saman kínverskar hefðir og notkun hefðbundinna mjólkurvara eins og smjörs, rjóma, jógúrts og osta.
 
Ostur með vanillulykt
 
Þó svo að allar vörur sem Arla flytur inn til Kína séu í sérstökum umbúðum sem eru sérstaklega hannaðar fyrir kínverska markaðinn, þá þarf stundum að aðlaga mjólkurvörurnar sjálfar svo hægt sé að markaðssetja þær með góðum árangri. Sem dæmi um sérstaklega þróaða vöru fyrir kínverska markaðinn er innfluttur rifinn ostur en Kínverjar eru einmitt byrjaðir að nota hann í stórum stíl á bæði flatbökur og við almenna matargerð. Vandamálið er hins vegar það að þeir kunna almennt ekki vel við hina venjulegu lykt sem er af gulum osti og kvarta neytendur oft undan vondri lykt af ostinum.
 
Í stað þess að reyna að berja hausnum við steininn og hreinlega kenna Kínverjum að læra að meta hefðbundna lykt af hörðum osti þá var fundin upp einföld lausn. Þegar pokinn með rifna ostinum er opnaður þá ilmar hreinlega eins og vanilluís. Lítið dæmi sem sýnir að stundum er einfaldlega betra til að ná árangri á markaði að aðlaga sig að markaðinum í stað þess að reyna að aðlaga markaðinn að vörunni sem er verið að selja.
 
Ráðgjafarmiðstöð fyrir kínverska bændur
 
Á sama stað starfrækir Arla, í samvinnu við kínverska afurða­fyrirtækið Mengniu, ráðgjafarmiðstöð sem er sérhæfð fyrir rekstur kínverskra kúabúa og sérstaklega rekstur stórbúa. Var starfsemi hennar einnig kynnt íslenska hópnum. Tilgangur ráðgjafarmiðstöðvarinnar er fyrst og fremst að aðstoða kínverska kúabændur í því að bæta rekstur búa sinna. Auk þess er tilgangurinn að efla almenna þekkingu á mjólkurframleiðslu í Kína. Einnig að miðla upplýsingum til bæði kúabænda og yfirvalda um ýmis málefni sem snerta mjólkurframleiðslu.
 
Samstarf við heimamenn nauðsynlegt
 
Þó svo að Arla sé eitt af allra stærstu afurðafélögum heims á sviði mjólkur­vara, var forsvars­mönnum þess strax ljóst að til að ná almennilegum árangri í Kína þá þyrfti að gera það í samvinnu við heimamenn. Arla var þegar í samstarfi við ríkisfyrirtækið COFCO varðandi sérpökkun á G-mjólk fyrir fyrirtækið og því var hendi næst að efla samstarfið frekar. Enda er COFCO án nokkurs vafa lang stærsta fyrirtækið í matvælasölu í Kína og raunar í heiminum öllum.
 
Fyrirtækið er t.d. gríðarlega sterkt á hinum kínveska drykkjarvörumarkaði og er m.a. með ráðandi hlut í mjólkurafurðafyrirtækinu Mengniu og er auk þess í gos­drykkjaframleiðslu í samstarfi við CocoCola auk þess að vera í margkonar annarri framleiðslu. Í samráði við COFCO keypti Arla rúmlega 7% hlutafjárins í afurðafyrirtækninu Menginu árið 2012 og var það upphafið að nánu samstarfi Arla, Mengniu og COFCO í Kína og vinna þessi þrjú fyrirtæki saman enn í dag á kínverska markaðinum.
 
Léttvínsgerð í Kína er hefðbundin og tunnurnar innfluttar frá bæði Bandaríkjunum og Evrópu.
 
Umfangsmikil vínframleiðsla
 
Líkt og hér að framan hefur komið fram er COFCO í margs konar framleiðslu og m.a. í vínframleiðslu og var hópnum boðið í heim­sókn á einn af vín­búgörðum fyrir­tækisins þar sem fram fór kynning á starfseminni. Þar kom m.a. fram að Kína er mun stærra og umsvifameira í vínframleiðslu en margur heldur. Landið er með um 800 þúsund hektara sem nýttir eru til vínberjaframleiðslu og er einungis Spánn með meira land undir slíka framleiðslu. Í landinu eru því ótal bú í framleiðslu á léttvíni en COFCO er þó líklega umsvifamest.
 
Þetta ríkisfyrirtæki var það fyrsta sem hóf vínframleiðslu í landinu en það gerðist í kjölfar heimsóknar Nixons Bandaríkja­forseta árið 1972. Þá hafði hann víst haft á orði við kínverska ráðamenn að margt gott væri nú framleitt í Kína en þeir stæðu þó Bandaríkjamönnum að baki m.a. í framleiðslu á léttvíni. Þetta létu kínverskir ráðamenn ekki segja sér tvisvar og var þegar ráðist í að undirbúa vínframleiðslu í Kína. Árið 1978 var svo fyrsta rauðvínsflaskan tilbúin og síðan hefur ekki verið litið um öxl. Fyrsta árið nam framleiðslan um 10 þúsund lítrum og ekki nema tveimur áratugum síðar var framleiðslan komin í rúmlega 300 milljónir lítra og er í dag talin vera um 900 milljónir lítra á ári.
 
Að heimsókninni lokinni var svo haldið á Kína­múrinn, sem skartaði sínu fegursta í haustsólinni.
 
Vinna úr 5,5 milljörðum lítra
 
Síðasta dagurinn sem ferða­hópur­inn dvaldi í Peking var tekinn með trompi og fyrst var farið í skoðunarferð í Lama­klaustrið. Því næst var haldið í heimsókn í eina af vinnslustöðvum afurðafyrirtækisins Mengniu, í einu af úthverfum Peking. Fyrirtækið er í dag eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði mjólkurvinnslu, sem er í raun undraverð stærð á fyrirtæki miðað við aldur þess, en það er einungis 20 ára gamalt. 
 
Fyrirtækið var stofnað á kórréttum tíma, einmitt þegar mjólkurvörusala byrjaði fyrir alvöru að ná sér á strik í Kína og síðan þá hefur þróunin verið hröð. Í dag er Mengniu með 41 vinnslustöð í landinu auk þess að vera með tvær utan landsteinanna líka. Fyrirtækið er enn í miklum vexti og stefnir á aukin umsvif á heimsmarkaðinum á komandi árum.
 
Hjá fyrirtækinu starfa í dag um 40 þúsund manns og það vinnur úr 5,5 milljörðum lítra af mjólk á hverju ári. Mjólkin kemur frá rúmlega 600 kínverskum kúabúum sem eru dreifð víða um þetta stóra land en þó er stærsti hluti búanna staðsettur á austurhluta landsins, allt frá norð­austur­hluta landsins og niður undir Sjanghæ.
 
Sérhæfð vinnsla
 
Í þeirri vinnslustöð sem hópurinn heimsótti voru ekki nema tvær vinnslulínur fyrir mjólkurafurðir. Önnur þeirra var nýtt til framleiðslu á bragðbættri jógúrt en hin var notuð til framleiðslu á G-mjólk, bæði með og án bragðefna. Þrátt fyrir einhæfa framleiðslu í þessari afurðastöð var afkastagetan gríðarleg. Daglega er unnið úr 400 þúsund lítrum af mjólk sem er álíka magn og unnið er úr daglega að meðaltali á Íslandi í mun fleiri afurðastöðvum. Sérhæfingin hefur gert Mengniu mögulegt að keppa við innfluttar mjólkurafurðir af krafti og það þrátt fyrir að afurðastöðvaverð í Kína sé með því hæsta sem gerist í heiminum.
 
Í næsta Bændablaði verður birtur síðari hluti umfjöllunarinnar um þessa ferð bænda til Kína og verður þá m.a. fjallað um þrjár mismunandi heimsóknir á kúabú, þar á meðal bæði stærsta kúabú í Asíu auk stærsta kúabúsins í Kína sem notar mjaltaþjóna, sem eru sjaldséðir í landinu. Þá sótti hópurinn einnig heim lífrænt hrísgrjónabú.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...