Nýr og mikið breyttur Land Rover Discovery Sport
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Fyrir um mánuði síðan frumsýndi BL nýjan og breyttan Land Rover Discovery Sport, ég fékk að prófa bílinn yfir helgi fyrir nokkru síðan. Þó að breytingarnar virðist ekki miklar við fyrstu sýn er þetta allt annar bíll en fyrirrennari hans.
Nýtt met, ekki minnist ég þess að hafa mælt svona lága mælingu á hávaða.
Tvö ný met í prufuakstri
Eins og margir hafa tekið eftir þá hef ég aðeins aðra sýn á bíla sem ég prófa miðað við marga aðra bílablaðamenn. Nánast alla prufubíla mæli ég hávaðann inni í bílnum á sama vegi á 90 km hraða og þessi bíll sló öll met (metið átti SsangYong Rexton 64,7db), en þessi mældist 63.5db. Ég margmældi því ég vildi hreinlega ekki trúa mælingunni, en til samanburðar þá mældist Range Rover PHEV rafmagns/bensínbíllinn 66,6db, að vísu í -14 stiga frosti.
Það eitt að komast niður fyrir 70db finnst mér gott, en að ná svona neðarlega er einsdæmi og það á vetrardekkjum sem segir bara það eitt að bíllinn er einstaklega vel hljóðeinangraður.
Seinna metið var gott loftnet við útvarpið, en ég hlusta nánast alltaf á Gullbylgjuna þegar ég prófa bíla og oftast dettur hún út á svipuðum stöðum (Það gerist næstum alltaf þegar bestu lögin eru í útvarpinu), en í þessum bíl náði ég að hlusta á Gullbylgjuna alla leið á Þingvöll og aðeins lengra.
Sparneytinn, sprækur með 9 þrepa sjálfskiptingu
Land Rover Discovery Sport er hægt að fá í mörgum útfærslum á verði frá 6.890.000 upp í 10.390.000 og hestöfl véla frá 150 upp í 200 hestöfl.
Sjálfskiptingin er 9 þrepa og fann ég aldrei fyrir því þegar bíllinn skipti á milli þrepa/gíra.
Bíllinn sem ég prófaði var með minnstu vélinni og því ekki alveg sá sprækasti, en hann er uppgefinn fyrir að eyða í blönduðum akstri 5,5 lítrum á hundraðið.
Eftir nálægt 200 km akstur sagði aksturstölvan að mín eyðsla hafi verið 7,4 lítrar á hundraðið sem er mjög gott miðað við aksturslag mitt.
Mér fannst mjög gott að keyra bílinn í alla staði, en persónulega mundi ég velja næstu stærð af vél sem er 180 hestöfl upp á að fá betri snerpu úr kyrrstöðu og hafa betra tog væri maður með vagn, kerru eða hjólhýsi í eftirdragi.
Rými fyrir aftursætisfarþega er með almesta móti.
Allt innrými gott og pláss mikið
Framsætin eru mjög góð og aftursætin líka, fótapláss bæði fram í og aftur í er meira en í flestum bílum.
Farangursrými er stórt, en varadekkið er það sem ég kalla aumingi í staðinn fyrir fullbúið varadekk sem var undir bílnum í fyrri árgerðum. Það er að vísu ljós í myrkrinu að varadekkið er komið inn í bílinn og því mun aðgengilegra, hreint og auðvelt að ná úr bíl þegar þörf er. Gamli búnaðurinn vafðist fyrir mörgum og var ekki beint sparifatavænn útbúnaður. Drulluskítugt og flókið fyrir marga enda springur nánast aldrei nema þegar maður er kominn í sparifötin.
Dekkin eru með frekar lágan prófíl 235/55/19, fínt fyrir malbik og góða malarvegi, en samkvæmt sölubæklingi er hægt að setja undir bílinn 17 og 18 tommu felgur til að fá meiri mýkt og fjöðrun út úr hjólbörðum fyrir þá sem keyra mikið á vondum vegum.
Akreinalesarinn fannst mér lesa miðjulínuna mjög vel þrátt fyrir að hún væri ekki alltaf greinileg.
Mínusarnir ekki margir
Akreinalesarinn virðist vera mjög næmur á að lesa miðlínuna á veginum þrátt fyrir að miðlínan sé ekki alltaf vel greinileg, hliðarspeglar eru ekki stórir en sýna vel aftur fyrir bílinn. Mjög margir bílar koma þannig að einungis kviknar á litlum ljósum að framan og engin að aftan, en þessi bíll kveikir alltaf allan hringinn og því engin hætta á sekt fyrir ljósleysi.
Hiti er í stýrinu og bíllinn er fljótur að hita að innan. Hljómgæði í útvarpi er með besta móti. Eina neikvæða við bílinn sem ég sá í fljótu bragði var varadekkið sem ég vil hafa í fullri stærð. Verulega eigulegur bíll í alla staði vilji maður ferðast um í þægilegum bíl og láta sér líða vel.
Allar nánari upplýsingar hjá BL í sýningarsal Landrover og Jaguar að Hesthálsi eða á vefsíðunni www.landrover.is.
Helstu mál og upplýsingar:
Lengd 4.597 mm
Hæð 1.727 mm
Breidd 2.173 mm
Þolir vatnsdýpt 600 mm