Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Ómetanlegt safn korta tengt landbúnaðarsögu
Á faglegum nótum 26. nóvember 2015

Ómetanlegt safn korta tengt landbúnaðarsögu

Höfundur: Vilmundur Hansen

Ásgeir L. Jónsson, fyrrverandi vatnsvirkjafræðingur Búnaðarfélags Íslands, skildi eftir sig kortasafn, um 300 kort, 296 hafa verið skráð eftir leit á Þjóðskjalasafni Íslands. Kortin eru byggð á landmælingum Ásgeirs á árunum frá 1924 til 1967.

Elín Erlingsdóttir landfræðingur hefur undanfarið rannsakað kortasafn Búnaðarfélags Íslands og skilað áfangaskýrslu um niðurstöður sínar úr fyrsta áfanga rannsóknar sem hún kallar Íslensk kortagerð til sérstakra eða persónulegra nota. Rannsóknin hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði Sigrúnar Ástrósar og Haraldar Sigurðssonar. Hún vinnur nú við annan áfanga verksins.

Elín hefur í gegnum tíðina, í tengslum við starf sitt sem landfræð­ingur, rekist á stöku kort frá Ásgeiri sem vakið hafa forvitni hennar og það var kveikjan að rannsókninni sem hún vinnur að. Hún segir að kort­in séu ómetanleg heimild um tíma­bil þar sem er eyða í samfelldri sögu kortagerðar á Íslands.

„Kort Ásgeirs eru af byggðum láglendissvæðum landsins, aðallega á Suður- og Suðausturlandi, allnokkur frá Vesturlandi og Suðvesturlandi en örfá úr öðrum landshlutum,“ segir Elín.

Skýr framsetning og fallegt handbragð

„Aðaleinkenni kortanna er faglegt handbragð, nákvæm, skýr framsetning upplýsinga og texta og formfast útlit. Þau eru öll í stórum mælikvarða, flest með þéttum hæðarlínum og miklum upplýsingum um vatnafar og yfirborð lands.

Mörg hafa að geyma upplýsingar um áætlaða framræslu eða áveitur, nokkur um flatarmál og landskipti eða afstöðu vegna áætlaðra framkvæmda. Þarna er á ferðinni safn korta sem geyma mikilvægar upplýsingar um landnýtingu og land, til dæmis það sem tekið var til ræktunar og nytja þegar jarðabætur hófust fyrir alvöru í landbúnaði á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar.“

Elín segir að auk Ásgeirs hafi nokkrir kollegar hans hjá Búnaðarfélagi Íslands verið afkastamiklir kortagerðarmenn. Frá þeim hafa verið skráð 154 kort, enn eru 150 til 200 óskráð og er skoðun og skráning þeirra fyrirhuguð í vetur í öðrum áfanga rannsóknarinnar. Höfundar þessara korta eru meðal annarra Valtýr Stefánsson, Steinarr Stefánsson, Pálmi Einarsson, Björn Bjarnarsson, Friðjón Júlíusson, og Sveinbjörn Gíslason. Mörg kortanna eru hvorki merkt höfundi né tíma svo hugsanlega eiga þarna fleiri höfundar hlut að máli. Hvert kort hefur sitt handbragð og mismunandi framsetningarstíl, höfundareinkenni sem koma að gagni við að greina ómerkt kort.

Mikill fjársjóður

„Ljóst er að kortasafn Búnaðarfélags Íslands er mikill fjársjóður fyrir alla sem áhuga hafa á kortasögu Íslands, eða sögu framræslu, áveitna og annarra framkvæmda. Auk þess sem kortin eru áhugaverð fyrir þá sem vinna að rannsóknum á náttúrufari og sögu landsins.“

Rannsókn Elínar fór að mestu fram á Þjóðskjalasafninu þar sem kortaverk og meirihluti annarra gagna Ásgeirs eru geymd, mælibækur og eitthvað af sendibréfum. Vasabækur Ásgeirs eru í vörslu Héraðsskjalasafns Árnesinga og ljósmyndasafn hans sömuleiðis.

Flest kort úr sýslum Suðurlands

„Auk þess að vera afkastamikill landmælinga- og kortagerðarmaður, hannaði Ásgeir fjölda vatnsveitna um allt land, bæði fyrir þéttbýli og bæi í sveitum. Hann hannaði einnig áveitumannvirki og fyrirhleðslugarða eins og fjöldi mannvirkja­teikninga hans vitna um.

Skráð hafa verið öll kort Ásgeirs í safni Búnaðarfélagsins, 296 talsins. Kortin eru mismunandi að stærð. Sum þeirra, sem ná yfir stór landsvæði, hafa verið teiknuð á margar samliggjandi og stórar arkir.“

Byggingar, rústir mannvirkja og eyðibýla

„Að baki hverju korti liggja nákvæmar landmælingar eins og frumrit og feltbækur Ásgeirs sýna. Fljótt á litið virðast mælingarnar, ásamt nákvæmri og fínlegri teiknivinnu vera aðalsmerki kortagerðar Ásgeirs,“ segir Elín. „Þéttar hæðartölur þekja frumgerðir kortanna og jafnvel afritin líka og mælistöðvar eru merktar inn. Vatnafari eru gerð góð skil og mismunandi yfirborð lands sýnt með munstri, litum og lýsandi texta.
Eftir aðstæðum og markmiði kortagerðarinnar teiknar hann inn byggð eða byggingar, rústir mannvirkja eða eyðibýla, girðingar, hlaðna garða, vegi, oft og tíðum landamerki eða spildumörk með innmerktum markaþúfum. Á nokkrum kortum eru símalínur, hverir eða laugar, vatnsuppsprettur, mógrafir, siglingavitar, og stórstraumsfjörumörk.

Örnefni eru oftast nokkur á flestum kortum, sérstaklega þeim sem spanna stór landsvæði. Dæmi eru um örnefni sem ekki er að finna í örnefnaskrám frá sömu svæðum.

Á fullgerðum afritum hluta umræddra korta er algengt að sjá upplýsingar sem tengjast áætlunargerð sem leiddu til landmælinga og síðan gerð korts. Þar er um að ræða fyrirhugaða skurði og áveitugarða, lokræsi, fyrirhleðslur, vatnslagnir eða nýbyggingar. Á hluta kortanna er gerð grein fyrir nýjum landamerkjum, eignar­haldi á spildum, flatarmáli svæða og spildna og öðrum þáttum varðandi landskipti.“

Frekari rannsóknir

Elín segir mikla möguleika til frekari rannsókna sem byggja má á kortunum. Einnig er til mikið af rituðum heimildum, bréfum, dagbókum og feltbókum sem eflaust geyma upplýsingar sem skýra tilurð korta og aðferðafræði og hlutverk þeirra í þróun landbúnaðar á landinu.

„Ég hef ekki fundið mikið af rituðum heimildum um Ásgeir L. Jónsson fyrir utan það sem eftir hann sjálfan liggur á Þjóðskjalasafninu. Mestar upplýsingar hef ég fengið munnlega frá fyrrum starfsmönnum hans hjá Búnaðarfélaginu.“ 

Í öðrum áfanga rannsóknarinnar stendur til að hafa samband við fleiri samferðamenn Ásgeirs, eftirlifandi samstarfsmenn, ættingja og afkomendur og leita nánari upplýsinga hjá þeim og fá þannig gleggri mynd af þessum merka kortagerðarmanni,“ segir Elín Erlingsdóttir landfræðingur.

Allar ábendingar um heimildir eða heimildamenn sem varða Ásgeir eða aðra mælinga- og kortagerðarmenn á vegum Búnaðarfélagsins á fyrri hluta 20. aldar eru vel þegnar. Hægt er að hafa samband við Elínu í gegnum tölvupóst elin@landnot.is.

Skylt efni: Landbúnaðarsaga | kort

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...