PeugeotExpert: Virkar ekki stór en innanmál er mikið
Höfundur: Hjörtur L. Jónsson
Eitthvað er síðan ég reynsluók sendibíl og þegar ég átti leið fram hjá Bernhard í síðustu viku kom ég við og heilsaði upp á Hlyn sölumann. Þótt fyrirvarinn væri stuttur var ekkert mál að fá lánaðan bíl til prufuaksturs.
Bíllinn sem ég fékk heitir Peugeot Expert VAN L1H1 og er beinskiptur með 90 hestafla vél.
Virkar ekki stór að sjá, en innanmál er mikið
Bíllinn var sérpantaður og er með rennihurð fyrir aftan bílstjórahurð sem aukabúnað. Rennihurð vinstra megin fyrir aftan bílstjórahurð (vinstra megin) verður bönnuð í Evrópu innan skamms (2016). Frá farangursrými í ökumannsrými er lokað, en lítill gluggi er á þilinu þannig að hægt er að sjá aftur með baksýnisspeglinum og yfir í farangursrýmið. Utan séð fannst mér bíllinn lítill, en þegar ég hafði mátað fullorðins reiðhjól inn í farangursrýmið fannst mér það vera ósköp lítið og ræfilslegt þarna eitt inni í bílnum (hefði vel getað komið 4–5 svona reiðhjólum inn í bílinn án þess að þau snertust.
Í gólfinu eru a.m.k. átta festingar til að festa farangur. Varðandi farangursrýmið fannst mér allt aðgengi að því gott og burðarþolið var ekki að skemma fyrir sem er 1.200 kg, málin á farangursrýminu eru: b: 1,6m , h: 1,45 m, dýpt: 2,25 m.
Það eina sem plagaði mig var að í hvert skipti sem ég ók af stað eftir að hafa opnað farangursrýmið (sem var galtómt) þá læsti farangursrýmið sér með töluverðum smelli og hrökk ég alltaf við.
Stuttur prufuakstur á tómum sendibíl
Í flestum tilfellum þegar ég prófa bíla reyni ég að keyra þá a.m.k. 100 km, en þar sem að bíllinn var tómur og ég hafði ekkert til að flytja eða prófa með og án þunga fannst mér enginn tilgangur vera í því að keyra bara til þess eins að ná 100 km markinu.
Fimm gíra kassinn er þægilegur og hæfir bílnum vel (gæti hugsanlega samt háð bílnum á hámarkshleðslu, með kerru í eftirdragi).
HDi dísilvélin sem er 1.560 rúmsentímetrar, á að skila 90 hestöflum. Tog vélarinnar fannst mér vera ágætt upp brekkur (enda tómur bíll), og sem dæmi kom ég að Ártúnsbrekkunni á 80 km hraða og hreyfði ekki gjöf og bíllinn tapaði sáralitlum hraða á brekkunni.
Uppgefin meðaleyðsla er 6,7 lítrar á hundraðið miðað við blandaðan akstur. Burðargetan er uppgefin 1.206 kg en uppgefin dráttarþyngd með bremsuvagn er 1.472 kg.
Öryggismálin í lagi og góður útbúnaður
Þó að bíllinn sé ætlaður sem sendibíll þá er hann vel útbúinn hvað öryggismál varðar, ABS hemlakerfi, ESP stöðugleikakerfi, hraðatengt aflstýri, loftpúðar fyrir farþegarýmið, mikið af hólfum bæði stór og smá, upphitaðir hliðarspeglar og tvöfalt farþegasæti (bíllinn er skráður fyrir þrjá).
Hægt er að sérpanta Peugeot Expert með ýmsum aukabúnaði og jafnvel sem smárútu, en nánari upplýsingar um það er hjá sölumönnum Peugeot í Bernhard. Verðið á Peugeot Expert bílnum sem ég prófaði er ekki nema 3.590.000.