Renault − franskur brautryðjandi
Franski vélaframleiðandinn Renault setti sína fyrstu dráttarvél á markað 1918 en þá hafði fyrirtækið verið brautryðjandi í bifreiðaframleiðslu í tuttugu ár. Dráttarvélaframleiðsla Renault er í góðum gír.
Tæknimenn Renault höfðu gert tilraunir með smíði traktora í rúm tíu ár áður en fyrstu vélarnar voru settar á markað. Frumgerðirnar voru með drifi á öllum fjórum dekkjum eða beltavélar. Fyrirtækið var því í góðri stöðu þegar heimsstyrjöldin fyrri hófst og hóf framleiðslu á léttum skriðdrekum fyrir franska herinn.
Reyndi metangas
Fyrsti Renault traktorinn sem fór á markað var fjögurra strokka, þriggja gíra og 30 hestafla beltavél sem gekk fyrir bensíni. Fyrirtækið gerði tilraunir með vél sem ganga átti fyrir metangasi að áeggjan franska landbúnaðarráðuneytisins en sneri sér síðan eingöngu að dísilolíu.
Árið 1920 sett fyrirtækið svo á markað traktor sem kallaðist GP, HO og var á stálhjólum en að öðru leyti eins og beltavélin. Næsta týpa kom svo á markað 1927 og kallaðist PE.
Hönnuðir Renault duttu loksins ofan á dísilvél sem hentaði þeim og árið 1931 hófst framleiðsla á VY týpunni sem var fyrsta franska dráttarvélin og þótti tiltölulega stór vél á þess tíma mælikvarða.
Þjóðnýtt í lok heimsstyrjaldarinnar seinni
Renault var þjóðnýtt árið 1945 til að taka þátt í uppbyggingu landbúnaðar í Frakklandi eftir heimsstyrjöldina síðari og árið 1947 framleiddi fyrirtækið 7500 dráttarvélar. Vélin sem um ræðir fékk heitið 3040 og þótti nýtískuleg og vel búin aukabúnaði. Tíu árum seinna uppfærði Renault framleiðslu sína og setti á markað hina svokölluðu D týpu. Loft- og vatnskælda dísilvél með nýrri gerð af gírkassa sem var hægt að læsa. D týpan var í framleiðslu til ársins 1965.
Renault hélt framþróun sinni áfram og árið 1974 setti fyrirtækið á markað nýja týpu af dráttarvélum með nýju útliti sem voru á bilinu 30 til 115 hestöfl. Gírkassinn þótti nýstárlegur og þannig að mun auðveldara var að skipta úr áfram og afturábak.
Traktor á fjöðrum
TX cap kom á markað 1981. Sú vél var með farþegasæti og stærri gluggum og útsýni bílstjóra því betra en áður hafði þekkst úr vélarhúsinu. 1987 árgerðin af TX cap var með gormafjöðrum sem mýktu vélina við vinnu og juku þægindi ökumannsins til muna. Vélarnar seldust hægt í fyrstu enda talsvert dýrari en fjaðralausir traktorar. Flaggskip Renault frá 1990 til 2001 kallaðist Atles.
Class keypti 51% og ríkjandi hlut í Renault 2003. Þremur árum seinna jók Class hlut sinn í 80% og frá þeim tíma hafa Renault traktorar verið framleiddir undir heiti Class sem yfirtók fyrirtækið að fullu 2008.
Renault á Íslandi
Eitthvað mun hafa verið flutt inn af Renault dráttarvélum til Íslands og voru þeir kallaðir Renó. Ein þeirra mun hafa verið að Reykjalundi í Mosfellssveit árið 1952. Á heimasíðu Ferguson-félagsins segir að ekki sé ólíklegt að Oddur yfirlæknir Ólafsson hafi fengið traktorinn því hann var með gulrófnarækt suður í Höfnum á Reykjanesi. „Hafi hann orðið innlyksa þar þarf ekki að spyrja að endalokunum því þar ryðgar allt í sundur sem ryðgað getur.“
Eftirtektarvert þótti hér á landi hversu hratt Renault traktorarnir komust.