Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Riddarastjarna
Á faglegum nótum 20. desember 2019

Riddarastjarna

Höfundur: Ingólfur Guðnason

Af öllum þeim blómum sem við notum til að skreyta híbýli okkar á jólum og skammdegi yfirleitt er riddarastjarnan ein sú blómfegursta. Hávaxnir blómstilkar vaxa upp úr stórum lauk. Efst á hverjum stilk myndast stór og glæsileg blóm sem gaman er að fylgjast með.

Blómliturinn er af ýmsu tagi, hér þekkjum við aðallega sterkrauð yrki, enda höfum við vanist því að tengja riddarastjörnuna jólum, en hann fæst einnig hvítur, gulur og tvílitur.

Hippeastrum eða Amaryllis?

Riddarastjarnan vex villt í Brasilíu og í Andesfjöllum Mið- og Suðurameríku allt til Mexikó. Hippeastrum er hið kórrétta heiti ættkvíslarinnar sem tegundin telst til, en fyrir misskilning sem erfitt hefur reynst að uppræta hefur nafnið Amaryllis fest við hana svo oftar en ekki gengur tegundin undir því heiti í almennri umfjöllun. Amaryllis er hins vegar hópur tegunda sömu ættar sem á uppruna sinn í Suður-Afríku. Hér er bæði um hreinan nafnarugling að ræða og einnig deilur vísindamanna sem hafa átt erfitt með að staðsetja þessar tegundir innan flokkunarfræðinnar. Það var ekki fyrr en tekin var sameiginleg ákvörðun sérfræðinga beggja vegna Atlantshafsins árið 1987 sem nafngiftirnar voru formlega ákveðnar.

Blendingur nokkurra tegunda

Riddarastjarnan er kynblendingur nokkurra tegunda Hippeastrum-ættkvíslarinnar sem hefur verið ræktaður á Vesturlöndum síðan á 18. öld. 

Laukarnir eru framleiddir í stórum stíl á ökrum, líkt og aðrir skrautlaukar og síðan meðhöndlaðir á sérstakan hátt til að kalla fram blómvísa, sem eru varðveittir í lauknum og sjást ekki fyrr en hann er tekinn til ræktunar.

Ræktun og blómgunartími

Íslenskir garðyrkjubændur flytja laukana til landsins á haustin og gróðursetja þá grunnt í stóra blómapotta og rækta þá í gróðurhúsi þar til blómið, sem fram að því hafði varðveist inni í lauknum, tekur að vaxa uppúr honum. Þá er yfirleitt komið fram í nóvember og hægt er að bjóða þá til sölu í blómaverslunum.

Hægt er að nota hitastýringu til að stjórna því hversu hratt blómin þroskast. Ef ætlunin er að hraða blómþroskanum er hitinn hækkaður dálítið upp fyrir 20°C, annars má hægja á þroskanum með því  að lækka hitann, jafnvel niður í 10°C eða enn neðar ef þörf er á. Annars gildir sú regla að því svalari sem aðstæður eru þegar blómin hafa opnast þeim mun lengur standa þau á plöntunni. Riddarastjarna sem opnar fyrstu blómin um miðjan desember ætti að vera í blóma langt fram eftir janúarmánuði.

Hvað svo?

Lauf riddarastjörnunnar taka að vaxa af krafti þegar blómmyndunin er langt komin. Ef ætlunin er að reyna að fá laukinn til að blómstra aftur er eftirfarandi leið fær: Þegar laufblöðin hafa náð fullum þroska að lokinni blómgun er plantnan ræktuð áfram með daufri áburðarlausn eða með því að setja hana í örlítið stærri pott með meðalsterkri mold.

Plantan er ef til vill engin sérstök híbýlaprýði án blómanna en henni er sem sagt haldið í góðri rækt fram eftir sumri. Þá er dregið úr vökvun og plantan látin þorna í pottinum og við tekur dvalatími hennar. Á þessum þurra dvalatíma má geyma plöntuna á afviknum stað við lágan hita, td í kringum 10°C. Þegar haustar á ný er laukurinn, sem þá er orðinn þurr og skorpinn, settur grunnt í blómapott með venjulegri gróðurmold og vökvaður varlega við 15–20°C. Þá myndast rætur og lífsferillinn hefst aftur með endurtekinni blómgun í kjölfarið. Þannig má láta sama laukinn blómstra ár eftir ár.

 

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...