Silkivöndur er réttnefni á fallegu blómi
Silkivöndur (Eustoma, þekkist líka undir nafninu Lisianthus) er eitt af þessum fínlegu, afar fallegu afskornu blómum sem framleidd eru í gróðurhúsum hér á landi. Þessi blóm er hægt að fá í mörgum litum, hvítum, bleikum, bláum og gulleitum. Tvílit yrki eru líka til. Það sem einkennir útlitið er fínleikinn, silkivöndur er því nafn sem lýsir tegundinni vel.
Silkivöndur er einær tegund og þarf að fjölga plöntunum með sáningu.
Aðeins tvær tegundir þessarar ættkvíslar er að finna í náttúrunni. Heimkynni þeirra er í Vesturheimi. Sú tegund sem notuð er til afskurðar er Eustoma grandiflorum sem vex villt í Mexíkó og suðurhluta N-Ameríku þar sem þær þrífast í heitu umhverfi í rýrum þurrum jarðvegi. Slík skilyrði gera þær kröfur til plantnanna að þær geti brugðist við miklum þurrkum með dvalatíma en um leið þurfa þær að geta vaxið hratt upp þegar skilyrði bjóðast. Ættkvísl silkivandar telst til Maríuvandarættarinnar en nokkrar þeirra vaxa villtar á Íslandi.
Framleiðslan gerir kröfur til ræktandans
Silkivöndur er einær tegund og þarf að fjölga plöntunum með sáningu. Fræið er mjög smátt, allt að 15.000 fræ eru í einu grammi. Spírunin þarf að eiga sér stað við hátt hitastig og mikinn raka, en þá skapast um leið skilyrði fyrir sveppavöxt sem getur herjað á ungplönturnar. Að lokinni spírun er hitinn lækkaður og plönturnar færðar á uppeldisstað þar til þær eru gróðursettar í beð eða ræktunarílát. Þá tekur við vaxtarstjórnun sem getur verið erfið því plönturnar geta stöðvað vöxtinn og farið í dvalaástand ef þær verða fyrir áföllum eins og óhagstæðri daglengd, hita eða þurrki. Eins og við er að búast þarf að rækta silkivönd undir vaxtarlýsingu á veturna hér á landi en það er í sjálfu sér mögulegt að bjóða íslenskan silkivönd allt árið ef alúð er lögð við ræktunina.
Blómvendir með silkivendi eru þokkafullir og fínlegir
Þegar greinarnar vaxa kvíslast þær og á endum þeirra myndast mörg blómbrum sem eru sérkennilega uppsnúin í fyrstu en opnast hvert af öðru og sýna þá sinn rétta lit. Til að blómin endist sem lengst eru greinarnar skornar í gróðurhúsinu þegar fyrsta blómið er í þann mund að opnast og næstu blómbrum eru farin að taka lit. Þá eru greinarnar settar í vatn og komið í sölu. Greinarnar eru ýmist notaðar nokkrar saman í vasa eða í blöndu annarra tegunda. Þegar heim er komið er skorið lítið eitt neðan af hverri grein og vöndurinn settur í vasa með hreinu vatni og endingarefnum. Þegar blóm sölnar er það fjarlægt og á þann hátt ætti silkivöndurinn að standa í 2-3 vikur í heimahúsi. Líkt og gildir með önnur afskorin blóm er æskilegt að koma vasa með silkivendi fyrir þar sem er fremur svalt og fjarri beinu sólarljósi ef hægt er.
Aðeins tvær tegundir þessarar ættkvíslar er að finna í náttúrunni.