Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Skoskar svarthöfðaær og lömb í sumarhögum til fjalla. Angus og félagar rannsökuðu mikið næringarástand og fóðrun slíks fjár.
Skoskar svarthöfðaær og lömb í sumarhögum til fjalla. Angus og félagar rannsökuðu mikið næringarástand og fóðrun slíks fjár.
Á faglegum nótum 5. febrúar 2019

Skoskur búvísindamaður sem lét gott af sér leiða í þágu íslensks landbúnaðar

Höfundur: Dr. Ólafur Dýrmundsson
Nýlega er fallinn frá dr. Angus J.F. Russel sem var frumkvöðull í fjölmörgum þekktum land­búnaðar­rannsóknum, kom hingað til lands og hafði áhrif hér með ýmsum hætti.
 
Á námsárum mínum í Wales fyrir 50 árum las ég greinar eftir hann og samstarfsmenn um beit og fóðrun fjallafjár í Skotlandi en frá og með 1976 kynntist ég Angusi, einkum á ráðstefnum  Búfjárræktarsambands Evrópu (EAAP) og Breska búfjárræktarfélagsins (BSAS). Í Skotlandi lágu leiðir okkar fyrst saman 1978.
 
Kynni við erlenda búvísindamenn
 
Við sem höfum numið við erlenda háskóla erum gjarnan í betri aðstöðu en aðrir til að kynnast vísindamönnum sem hafa reynst brautryðjendur á sínum sviðum, jafnvel á alþjóðavísu. Einkum hafa slík tengsl myndast í gegnum landbúnaðarháskóla á Norðurlöndum, mest í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, þar sem margir íslenskir búvísindamenn hafa numið. Tengslin við Bretlandseyjar hafa einnig verið töluverð, einkum við skoska búvísindamenn, og þá helst við háskólana í Edinborg og Aberdeen. Þótt aðeins sumir þeirra hafi komið hingað til lands hafa áhrifin verið töluverð og með ýmsum hætti.
 
Dr. Angus J.F. Russel (1936–2018), búvísindamaður í Skotlandi. 
Áður fyrr voru samskiptin mest með bréfaskiptum og lestri greina, sérprentanir voru sendar í pósti og fólk hittist stöku sinnum á alþjóðlegum ráðstefnum. Nú er öldin önnur og miðlun faglegs efnis, svo og samskipti öll, eru auðveldari. Hvað Angus varðar ætla ég að nefna þrennt sem hefur einkum skapað tengslin við Ísland:
 
Holdastigun sauðfjár
 
Í tengslum við  umfangsmiklar rannsóknir sínar á holdafari og næringarástandi áa á meðgöngutíma í hálendustu héruðum Skotlands fyrir rúmlega 50 árum þróuðu Angus Russel ásamt samverkamönnum, einkum þeim Doney og Gunn,  matsaðferð – body condition scoring – sem hér hlaut heitið holdastigun,  um 1970. Nánar tiltekið eru gefnar einkunnir fyrir bakhold á gripnum, bæði vöðva og fitu, með átaki, eftir 5-punkta mælikvarða, allt frá holdastigi 5 þar sem holdin eru afbragðs góð þannig að háþornin finnast ekki, niður í holdastig 1 þar sem gripurinn er mjög horaður og að dauða kominn. Endurspeglar þessi stigun vel næringarástandið og  hefur þetta holdamatskerfi verið notað töluvert hér á landi, einkum fyrir sauðfé en einnig nokkuð fyrir hross, sérstaklega þar sem nauðsynlegt hefur reynst að hafa afskipti af vanfóðrun og horbúskap.  Þá hefur kerfið hefur verið notað töluvert hér við rannsóknir á fóðrun áa á meðgöngutíma líkt og Angus og félagar hans gerðu á sínum tíma.
 
Glöggar skilgreiningar á flokkunum fimm  er m.a. að finna á bls. 262 í hinu ágæta fræðsluriti,  Sauðfjárrækt á Íslandi, sem bókaútgáfan Uppheimar gaf út 2013 undir ritstjórn Ragnhildar Sigurðardóttur (ISBN 978-9935-423-92-6). 
 
Fósturgreining og talning
 
Fyrir liðlega hálfri öld komu á markað Doppler hljóðbylgjutæki til fósturgreiningar og kynntist ég þeim 1970 þegar ég beitti slíku tæki við fósturgreiningu á gemlingum í tengslum við doktorsverkefni mitt í Aberystwyth Háskóla í Wales. Þetta var seint á meðgöngutíma, numin voru hjartaslög fósturs og  tókst með sæmilegri nákvæmni að ákvarða hverjar gengju með lömb og hverjar væru geldar, sbr. grein mína í Búnaðarblaðinu, 4-5. tbl. 1974.
 
Ekki var þó hægt að greina fjölda fóstra með neinni nákvæmni en slík tækni kom fram og var þróuð í Ástralíu um áratug síðar þegar farið var að fósturgreina með sónartækjum. Það var reyndar í Bretlandi sem fósturgreining  með þess konar tækjum breiddist fyrst verulega út, upp úr 1980, að frumkvæði Angusar Russel. Átti hann í samstarfi við lækna þegar verið var að þróa tæknina. Þá var fyrst unnt að greina vel fjölda fóstra, einnig mun fyrr á meðgöngutímanum en hægt var með gömlu tækjunum. 
 
Sónartækin kynnt hér
 
Skemmst er frá að segja að Búnaðarfélag Íslands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins buðu þeim Angusi og samverka­manni hans, Ian R.White, við hálendisrannsóknastöðina í Skotlandi (Hill Farming Research Organization) að kynna þessa nýju fósturgreiningartækni hér. Við dr. Stefán Aðalsteinsson á RALA skipulögðum heimsókn þessara sérfræðinga og fór kynningin fram á Keldnaholti 6. mars 1985. Þar voru fyrstu íslensku ærnar fósturgreindar með þessari gagnlegu tækni. Tókst sú kynning mjög vel og vakti athygli.
 
Það var þó ekki fyrr en 2002 að farið var að fósturgreina hjá bændum en þá kom John E. Johansen frá Noregi hingað í fyrsta skiptið. Námskeið  á Tilraunabúinu á Hesti 13. janúar 2004, þar sem John og Alan Picken frá Skotlandi kenndu fósturgreiningu með nýjum ómsjám þaðan, markaði tímamót. Við skipulagninguna komu aftur samtök bænda við sögu, mest við Jón Viðar Jónmundsson fyrir hönd þeirra, í samvinnu við félaga á RALA. Mér er þó alltaf hugsað til Angusar Russel þegar minnst er frumkvöðla fósturgreiningar á fjárbúum, bæði hér og á Bretlandseyjum.
 
Geitur af hinu nýja kyni, The Scottish Cashmere Goat, í heimkynum sínum í Skotlandi.
Kasmírþel þessara geita er með sterk áhrif frá íslensku geitinni. 
 
Geitur fluttar til Skotlands
 
En Angus Russel kom meira við sögu hér og með allt öðrum hætti en áður greinir. Þegar hann kom hingað til að kynna hina nýju fósturgreiningartækni var hann nýlega farinn að sinna geitfjárrannsóknum í Skotlandi, einnig frumkvöðull þar á því sviði. Auk okkar Stefáns höfðu fleiri íslenskir búvísindamenn haft kynni af Angusi, einkum hjá RALA, og fengum við hann til að flytja erindi  um beitartilraunir, einkum með tilliti til geita, en þær nýta gróður með nokkuð öðrum hætti en sauðfé. Erindið reyndist fróðlegt og vel flutt að hætti Angusar en hann var vel máli farinn, hafði hlýlegt viðmót og  var glaðlyndur. Stefán hafði umsjón með geitahjörð RALA í Þormóðsdal, farinn að sinna rannsóknum á þeim, einkum á ullinni, sem sýndu að þelið/fiðan hafði Kasmíreiginleika. Ég sá um skýrslur o.fl. varðandi geitur hjá Búnaðarfélagi Íslands og kynntist fljótt þessu áhugaverða brautryðjendastarfi.
 
Málin þróuðust þannig að Angus vildi fá íslenskar geitur til kynbóta í Skotlandi.  Við Stefán o.fl., einkum á RALA, undirbjuggum þann útflutning, en það voru 5 kið og 1 veturgamall hafur sem fóru út í flugi til Skotlands 30.október 1986, sbr. grein mína í Frey, 13.-14.tbl, 1990. Hinir sérstæðu þeleiginleikar íslensku geitanna komu að góðu gagni við mótun nýs geitfjárkyns, The Scottish Cashmere Goat, þar sem þrjú önnur geitakyn komu einnig við sögu. Þetta er gott dæmi um notkun íslensks erfðaefnis erlendis sem hefur ekki haft mikið gagnýtt gildi hér á landi til þessa.  Vísindagreinar Angusar sem hann birti með Bishop og fleiri félögum  vitna um þetta merka ræktunarstarf þar ytra.
 
Þess er vert að geta að Angus átti einnig samvinnu við Bishop o.fl. um rannsóknir á íslenska Þoku-frjósemisgeninu í sauðfé í Bretlandi. 
 
Dr. Angus J.F. Russel var mikils metinn búvísindamaður, m.a. á þeim sviðum sem getið var um hér að framan. Hann var frá Edinborg og stundaði búvísindanám í háskólanum þar og síðar á Nýja-Sjálandi. Hann var forseti Breska búfjárræktarfélagsins 1987–88 sem nú heitir  The British Society of Animal Science.  Þar var Angus heiðursfélagi og hlaut ýmsar aðrar viðurkenningar svo sem frá Breska sauðfjárræktarsambandinu. Angus var höfðingi heim að sækja og um fjölmargt til fyrirmyndar. Margir minnast hans með virðingu og hlýhug, þeirra á meðal greinarhöfundur. Angus lést  af völdum hjartaslags á 83. aldursárinu 14. desember og var jarðsunginn frá Peebles Old Parish Church, suður af Edinborg, 20.desember sl.
 
Dr. Ólafur R. Dýrmundsson
(oldyrm@gmail.com) 

Skylt efni: Angus Russel

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...