Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Þorrablótin lifa
Á faglegum nótum 16. febrúar 2017

Þorrablótin lifa

Höfundur: Hrefna Bjartmars
Hinn forni mánuður þorri hefst á föstudegi í 13. viku vetrar, á bilinu 19.–25. janúar samkvæmt núverandi tímatali. Merking nafnsins þorri hefur löngum vafist fyrir mönnum og ýmsar skýringar verið nefndar. 
 
Sem dæmi má nefna að það hefur verið tengt sögninni að þverra og er þá líklega vísað í að á þessum tíma árs fór matarforði búfénaðar þverrandi. Því gat verið erfitt að þreyja þorrann, sbr. þessa vísu úr þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins (ÞÞ):
 
Þungir eru þorradagar  
bylur, helreykur, hörmung og neyð, 
hraktist hann Barði um fannþakta leið 
sofðu nú barnungi uns bjartir koma dagar. 
(ÞÞ 3815).
 
Heitið hefur einnig verið tengt nafni norræna guðsins Þórs og þá álitið að þorri hafi verið eins konar gælunafn hans. Þorri sem mánaðarheiti kemur fyrir í íslensku rímhandriti frá 12. öld, einnig í Staðarhólsbók Grágásar frá 13. öld og í Snorra-Eddu.  Heimildir um þorrahald frá fyrri tíð eru af skornum skammti. Engar frásagnir fara af því í Íslendingasögum  eða öðrum fornsögum sem eiga að hafa gerst  á Íslandi. Í Orkneyinga sögu, skráðri á 12. öld og í Flateyjarbók, skráðri á 14. öld, eru þorrablót hins vegar nefnd á nafn en ekki lýst hvernig þau fóru fram. 
 
Í Orkneyinga sögu er sagt frá Þorra, afkomanda Fornjóts  konungs í Finnlandi, en Þorri blótaði ár hvert á miðjum vetri og kallaðist þorrablót . Árni Björnsson þjóðháttafræðingur segir að í Orkneyinga sögu sé greinilega verið að persónugera höfuðskepnur og fleiri náttúrufyrirbæri og telur að í því ljósi sé eðlilegt að líta á þorrann sem forna vetrarvætti eða vetrarguð. Kona f. 1911, frá Hellissandi (ÞÞ3849), kannast við þorra sem vetrarvætti: 
 
„Í hugum okkar barnanna höfðu þessir mánuðir á sér persónuleg gervi, þorri t.d. stór karl með mikið hvítt skegg, fannbarinn.“ Heimildarmenn þjóðháttasafns Þjóðminjasafnsins (ÞÞ), fæddir á tímabilinu 1882–1932 (Skrá 31. Hátíðir og skemmtanir) þekkja vel kvæði um þorrann sem óvægna vetrarvætti og má hér nefna eitt: 
 
Nú er ég kominn - náungann að finna 
nú er best að hann vari sig, 
mín því élin - mörg ef aldrei linna 
margir bændur þekkja mig. 
Ég er þorri, þrekið tröll, 
og þekki jarðarfylgsnin öll. 
Ég hef víða um foldu farið, 
að flestra dyrum einnig barið 
þó með gust. 
Ég er tími - ég við glími 
aldur bæði og ár - og aldrei verð ég sár. 
Ég er vindur, ég er grimmd 
og éliþrungin hrönn - já, hrími þakin fönn - já, fönn.
(ÞÞ3766) 
 
Blót í tengslum við þorrann  benda til þess að menn hafi áður fyrr viðhaft einhverja siði eða blót í þeim tilgangi að blíðka þorrann enda var hann enginn aufúsugestur heldur boðberi frosthörku, harðinda og hungurs eins og að framan getur. Þorrinn sem vetraröldungur var algengt yrkisefni á 17.–19. öld. Þar er honum m.a. lýst sem stórskornum öldungi, konungi, fornkappa eða glæsilegum víkingi. Mismunandi er hvort hann er sagður harður og grimmur eða einungis heimtufrekur og geðstirður. Þar er einnig fjallað um mikilvægi þess að taka vel á móti þorra í mat, drykk og klæðum. Konur eiga að stjana við hann og honum er skemmt á ýmsa vegu, með söng, sögum, tafli og spili.  Sé gestrisninni ábótavant má búast við grimmilegum hefndum þorra. Karl f. 1895, úr Skagafirði (ÞÞ3646), nefnir eftirfarandi kvæði sem farið var með til að blíðka þorra og bjóða hann velkominn: 
 
Til veiga, til veiga vér vekjum sérhvern mann 
kominn er illviðrakonungurinn þorri enn. 
Kaldur og fokreiður ættjörð vorri 
með blóti, með blóti vér blíðka þurfum hann. 
 
Til friðar, til friðar vér flytjum þorra skál, 
blótum til árs og gæfta góðra, 
svo gefi til lands og sjávarróðra! 
Vér klingjum, vér klingjum og kætum líf og sál.
 
Ljóst er af fyrrnefndum heimildum að mannfagnaður nefndur þorrablót, haldinn um miðjan vetur, var þekktur til forna en nánari lýsingar skortir og lítið er vitað um uppruna hans. Árni Björnsson telur að tilvist hugtaksins í fornum heimildum bendi eindregið í þá átt að mannfagnaður kenndur við þorra hafi þekkst áður en kristni var lögtekin hérlendis. Hann telur ólíklegt að viðburður sem þessi hafi getað orðið til í kristnum sið á þeim tímum þegar hart var tekið á „hverslags kukli “ eins og hann nefnir það. Vegna heimildaskorts um þorrahald til forna hafa hugmyndir manna um siðinn verið á reiki fram eftir öldum og hugmyndir um þorrahald á seinni tímum byggst á óljósum hugmyndum um þorrahald fyrri tíma.
 
Bóndadagur, fyrsti dagur þorra
 
Fyrsti dagur þorra er, sem flestir þekkja, kallaður bóndadagur, einnig nefndur miðsvetrardagur eða fyrsti þorradagur. Fyrstu prentuðu heimildir um daginn koma fram í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar frá 1864. Þar segir að dagurinn sé helgaður húsbóndanum og að það hafi verið skylda bænda að „fagna þorra“ með því að halda veislu fyrir aðra bændur í sveitinni eða „bjóða honum í garð“. Samkvæmt því sem Jón Árnason segir fól það síðarnefnda í sér að bændur áttu að fara á fætur fyrstir allra og „[…] fara ofan og út í skyrtunni einni, vera bæði berlæraðir og berfættir, en fara í aðra brókarskálmina og láta hina svo lafa eða draga hana á eftir sér á öðrum fæti, ganga svo til dyra, ljúka upp bæjarhurðinni, hoppa á öðrum fæti í kringum allan bæinn, draga eftir sér brókina á hinum og bjóða þorra velkominn í garð eða til húsa“. 
Þetta er kyndugur siður og ekki er vitað um uppruna hans og tilgang. Árni Björnsson telur hugsanlegt að hér geti verið um að ræða leifar af eldri þorrafagnaði.  Kona f. 1903, ættuð af Snæfellsnesi (ÞÞ3721), segir:  
 
Hljóp berfættur í kringum bæinn
 
„Þegar faðir minn var ungur áttu bændur að opna bæinn fyrstir manna og bjóða þorra velkominn og einn bóndi í Staðarsveit, gamall og forn í skapi, hljóp berfættur í kringum bæinn, þótt bylur væri, og bauð þorra velkominn.“ 
 
Heimildarmenn ÞÞ hafa margir hverjir heyrt um þennan sið en vita almennt ekki til þess að hann hafi verið iðkaður í þeirra tíð. Flestir heimildarmenn nefna að það hafi verið hlutverk bóndans að taka á móti þorranum en ekki eru allir sammála því. Kona f. 1909, úr Staðarsveit á Snæfellsnesi (ÞÞ3631), segir að þá hafi húsfreyjan á bænum átt að „[…]  fara fyrst út, signa sig og bjóða hann velkominn. Svo átti hún að færa bónda sínum kaffi og lummur í rúmið og halda til hans í mat“. Karl f. 1895, úr Skagafirði (ÞÞ3646), nefnir einnig að húsfreyjan hafi átt að bjóða þorra velkominn með því að opna bæinn fyrst heimilismanna, fara út og hlaupa þrjá hringi í kringum bæinn. Ekki nefnir heimildarmaður neitt um brækur húsfreyjunnar í þessu sambandi. 
 
Súr svið, sperðlar, hákarl og magálar
 
Flestir heimildarmanna ÞÞ nefna að það að hafi almennt tíðkast að gera sér dagamun í mat á bóndadaginn. Hangikjöt, saltkjöt og baunir, súr svið, sperðlar, hákarl, magálar og flatkökur þóttu herramannsmatur við það tækifæri. Kaffi ásamt kleinum, pönnukökum eða lummum þótti líka afar vinsælt. Kona  f. 1905, úr Lónssveit  (ÞÞ3752), segir: 
 
„Oftast var gefið kaffi með brauði, t.d. kleinur eða pönnukökur um hádegið, síðdegis var svo annaðhvort hangikjöt, kartöflur, brauð og smjör eða saltkjöt með kartöflum og soðbrauði og flot út á. Eftir þessu man ég á mínum bernskuárum.“
 
Annars staðar var þetta með öðrum hætti en karl f. 1897, úr Hnappadalssýslu (ÞÞ3729), segir: „Í mínu ungdæmi var ekki haldið mikið upp á fyrsta þorradag og þorri ekki boðinn velkominn. Hann vakti frekar ógn og kvíða. Þó man ég til þess, þegar ég var skelfing ungur og svaf hjá pabba og mömmu, að á fyrsta þorradagsmorgun  kom mamma með sneið af volgu hveitibrauði og skafið út á hana hvítasykur [toppasykur]. Ég minnist þess að pabbi sagði: Þetta gefur nú þorri okkur.“ 
 
Áður en farið var að halda þorrablót í félagsheimilum til sveita og veitingahús og átthagafélög tóku blótin upp á sína arma voru þau oftast haldin í heimahúsum. Elsta heimild  um það er bréf frá séra Jóni Halldórssyni í Hítardal (f. 1665) sem hann sendi Árna Magnússyni í Kaupmannahöfn í september 1728. Það var þó ekki fyrr en undir lok 19. aldar sem aukinn vöxtur varð í þorrablótshaldi landsmanna. 
 
Þorrahald á Austurlandi og í innanverðum Eyjafirði
 
Þorrahald í sveitum á Austurlandi og innanverðum Eyjafirði þekktist fyrr en í öðrum sveitum landsins. Kona f. 1902, úr Eyjafirði (ÞÞ3713), segir:
 
„Fyrsta þorrablótið sem ég hef spurnir af var haldið hér í nágrenninu, á Ytri-Varðgjá, á fyrsta áratug aldarinnar [1900–1910] og stóðu að því nokkrir ungir bændur, þ.á m. faðir minn. Tekið var skilrúm úr skála og tjaldað innan, hefur það orðið fyrirtaks veislusalur og ekki efa ég að þar hefur verið glatt á hjalla, ræðuhöld, söngur og dans fram á morgun,“  
 
Kona f. 1902, af Fljótsdalshéraði (ÞÞ3838), lýsir fyrsta þorrablótinu sem hún minnist að haldið væri í sveitinni og var haldið á heimili hennar árið 1915: Hún lýsir því m.a. svo: 
 
„Flatbrauð, glóðarbakað, í stöflum, smjör í trédollum, þá má víst ekki gleyma hákarli og eitthvað var af súrmat, bringukollar og lundabaggar og ostur. Þá var kaffi til drykkjar með. Mikið var fjör hjá fólkinu þó vínbann væri. Er ég nú þess fullviss að Bakkus var með til að hressa að minnsta kosti margan manninn. Þegar borðað var, var sunginn borðsálmur Jónasar Hallgrímssonar: „Það er svo margt ef  að er gáð“. En það sem mestan svip setti á þorrablótið var söngurinn því í sveitinni voru mjög góðir söngmenn og voru æfðir saman og ágætir hljóðfæraleikarar. Sunginn Þorraþræll Kr. Jónssonar  […] en líklega mest af öllu sungið „Þórður malakoff“. 
 
Svo var það nú blessaður dansinn sem yngra fólki fannst verða heldur hallloka á þessari nóttu en hún leið eins og aðrar nætur og eins og í lífssögunni, mikill fögnuður hjá einum og öðrum en minni hjá öðrum. En þegar dagur ljómaði á lofti fór hver heim og kvöddust víst með vinsemd þótt einhverjar ýfingar og olnbogaskot ættu sér stað um nóttina.“ 
 
Þorrablótin endurvakin
 
Sjálfstæðisbarátta og þjóðernishyggja 19. aldar hafa án efa stuðlað að auknum áhuga á þorrablótshaldi  og því að endurvekja þann forna sið sem menn töldu þorrablótin vera. Á seinni hluta aldarinnar  fóru mennta- og embættismenn í auknum mæli að tíðka samkomur sem þeir kölluðu „þorrablót“ að fornum hætti, matar- og drykkjuveislur þar sem sungin voru ný og gömul kvæði og drukkin minni þorra og heiðinna goða, einkum Þórs. 
Fornleifafélagið í Reykjavík stóð t.d. fyrir þorrablótum á seinni hluta 19. aldar. Lýsing á þorrablóti þess frá 21. janúar 1881 sýnir að glæsilega var staðið að því. Veislusalurinn var búinn fornum voðum, skjaldarmerkjum og öndvegissúlum og brunnu langeldar á gólfi. Hinna fornu guða var minnst, drukkið var full Óðins alföður, Þórs og fleiri norrænna goða og ásynja. Einnig var mælt fyrir minni forfeðranna. Fleiri þorrablót voru haldin, með þessu sniði, af félagasamtökum á þessum tíma svo sumum sannkristnum mönnum  þótti nóg um. 
 
Þorrablótin lifa
 
Eins og flestir landsmenn vita, þá lifa Þorrablótin enn góðu lífi. Sumt breytist þó eðlilega í takt við tímann. Menn gera vel við sig í mat og drykk og haldið er í gamla matarhefð líkt og áður þekktist. Gjarnan er þó boðið upp á nútímalegri mat fyrir þá sem ekki líkar súrmetið. Vegan-og grænmetisætum hefur fjölgað töluvert sl. 100 ár. Sem fyrr, er sönghald í fyrirrúmi og gömlu kvæðin sungin, þ. á m. Þorraþrællinn og Fósturlandsins Freyja og minni karla og kvenna drukkin. Enn er talið sjálfsagt að konur geri vel við bændur sína í upphafi þorra en seinni tíma siður, sem kaupmenn hafa fundið upp, er að gefa blóm í tilefni bóndadagsins.  
 
Helstu heimildir: 
Árni Björnsson, Saga daganna, 1993; Jón Árnason, Íslenskar þjóðsögur og ævintýri II, 1961; Þjóðháttasafn Þjóðminjasafnsins. Skrá 31. Hátíðir og merkisdagar. 

Skylt efni: þorrablót | súrmatur

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...