Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Vetrarþol yrkjanna var misjafnt, yrkið Gunnar er fyrir miðju, Snorri til vinstri og Nuutti til hægri. Myndin var tekin 4. júní 2018.
Vetrarþol yrkjanna var misjafnt, yrkið Gunnar er fyrir miðju, Snorri til vinstri og Nuutti til hægri. Myndin var tekin 4. júní 2018.
Á faglegum nótum 6. mars 2024

Tilraun með yrki af vallarfoxgrasi

Höfundur: Guðni Þ. Þorvaldsson er próf. emeritus og Jónína Svavarsdóttir umsjónarmaður jarðræktartilrauna.

Einn þáttur í landbúnaðarrannsóknum hér á landi á undanförnum áratugum hefur verið prófun á nýjum grastegundum og yrkjum til túnræktar.

Caption

Það er grundvallaratriði að tegundir og yrki sem hér eru notuð henti íslenskri veðráttu, þoli vel slátt, beit og aðra meðferð sem túnin þurfa að sæta. Uppskera og fóðurgildi skipta einnig miklu máli. Ný yrki koma reglulega fram og því þarf stöðugt að bera nýju yrkin saman við þau eldri.

Á árunum 2017–2021 var gerður samanburður á 19 yrkjum af vallarfoxgrasi á Hvanneyri. Að auki voru tveir tilraunaliðir með blöndu af yrkjum, annar með tvö yrki en hinn með átta. Auk yrkjasamanburðar voru tveir mismunandi sláttutímar í fyrri slætti og því var hverju yrki sáð í sex endurtekningum, þremur fyrir hvorn sláttutíma. Fyrri sláttutíminn var við byrjun skriðs og sá seinni 10 dögum síðar. Endurvöxtur var sleginn á sama tíma í öllum reitum, um miðjan ágúst.

Uppskera, þroskastig og þurrefnisinnihald var mælt við hvern slátt og þekja metin vor og haust. Mælingar á efnainnihaldi yrkjanna voru gerðar með NIR tækni á grassýnum úr fyrri slætti frá árunum 2018 og 2019. Niðurstöður tilraunarinnar voru birtar í riti LbhÍ nr. 154 og er það vistað á heimasíðu skólans undir liðnum útgefið efni.

Hér verða tilgreindar helstu niðurstöður:

Fyrsta veturinn skemmdust sum yrkin af kali en önnur voru óskemmd. Lerke og Diandra skemmdust mest. Gunnar, Dorothy, Varg, Switch og Grindstad skemmdust einnig nokkuð og nokkur yrki lítils háttar. Engmo, Uula, Noreng, Snorri, Tuukka og Hertta virtust óskemmd. Flest yrkjanna náðu sér aftur á strik. Vallarfoxgras gefur ekki bara eftir vegna kals. Það lætur einnig undan síga vegna samkeppni við gamla gróðurinn. Sum yrkin sem stóðu af sér kalið fyrsta veturinn gáfu eftir undir lok tilraunar, líklega vegna samkeppni við snarrótina. Í lok tilraunar voru Engmo, Snorri, Lidar, Uula og Noreng með mesta þekju. Skammt á eftir komu Liljeros, Grindstad, og Rakel.

Heildaruppskera allra yrkjanna eftir fyrri sláttutímann var að meðaltali 6920 kg þe./ha en 7447 kg þe./ha eftir þann seinni. Kalskemmdirnar komu eitthvað niður á uppskeru yrkjanna fyrsta sumarið og næstu sumur á yrkjunum sem skemmdust mest.

Við fyrri sláttutímann skiluðu Rakel, Nuutti og Gunnar mestri heildaruppskeru en Lerke, Tryggve og Uula minnstri. Við seinni sláttutímann voru Lidar, Rakel, Snorri og Tuukka með mesta uppskeru en Lerke og Switch með minnsta. Munurinn á uppskerumesta yrkinu og því uppskeruminnsta var 677 kg þe./ ha við fyrri sláttutímann en 865 kg við þann seinni. Við fyrri sláttutímann voru Lerke, Diandra og Gunnar með hæst hlutfall uppskerunnar í seinni slætti en Engmo og Snorri með lægst. Við seinni sláttutímann voru Lerke, Diandra og Switch með hæst hlutfall uppskerunnar í seinni slætti en Snorri og Engmo með lægst.

Norðlægu yrkin skríða seinna en þau suðlægu. Þetta kemur fram í báðum sláttutímum og eins í endurvexti. Rakel, Lidar, Grindstad, Varg, Switch, Dorothy og Gunnar eru í hópi þeirra sem skríða fyrst. Yrki sem tengjast Grindstad voru með heldur hærri þurrefnisprósentu en önnur yrki í fyrri slætti. Ekki var marktækur munur á þurrefni yrkjanna í endurvexti.

Tilraunin slegin 14. júní 2019.

Marktækur munur var milli yrkja og sláttutíma í meltanleika, tréni og flestum öðrum efnum sem voru mæld. Það ber að hafa í huga að yrkin voru öll slegin á sama tíma og því getur mældur yrkjamunur að hluta verið afleiðing af mishröðum þroska. Árið 2018 var kal í sumum yrkjum og gæti það einnig hafa haft áhrif á niðurstöðurnar t.d. með því seinka sprettu þessara yrkja að vori.

Mjólkurfóðureiningum (FEm kg/ þe) fækkaði um 0,0075 einingar á dag frá fyrri sláttutíma til þess seinni. Eins og við var að búast var fóðrið frá fyrri sláttutímanum með fleiri fóðureiningar í hverju kílói fóðurs en fóðureiningafjöldinn á hektara var meiri í þeim seinni, 4679 á móti 3668 (meðaltal allra yrkja).

Á móti kemur að endurvöxtur var meiri eftir fyrri sláttutímann en þann seinni sem vegur á móti þessum mun þó það dugi ekki alveg til að jafna hann út.

Aukin uppskera þynnir út próteinið þannig að uppskerumeiri yrkin hafa tilhneigingu til að vera með lægra próteinhlutfall. Þetta skýrir þó ekki allan muninn í próteinhlutfalli, t.d. eru Engmo og Snorri með hvað mesta uppskeru í fyrri slætti og jafnframt með hæstu yrkjum í próteini.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...