Uppfærsla á orkugildi í NorFor og skimun kjarnfóðurs
NorFor er samnorrænt fóðurmatskerfi til að reikna fóðurætlanir fyrir jórturdýr í mjólkur- eða kjötframleiðslu. Kerfið byggir á fóðurrannsóknum á Norðurlöndunum og fóðurtöflu sem inniheldur helstu hráefni sem eru notuð á Norðurlöndum.
Nýtt líkan fyrir orku (NEL20) í kjarnfóðri sem byggir á efnainnihaldi kjarnfóðursins og meltanleika var þróað árið 2019.
Fyrir þann tíma var nauðsynlegt að vita nákvæmlega hráefnasamsetningu til að áætla orkuinnihald. Vegna uppfærslu á meltanleikalíkaninu í NorFor árið 2021 þurfti að uppfæra líkanið fyrir orkuinnihald í kjarnfóðri í kjölfarið.
Orkugildið gerir notendum kleift að bera saman mismunandi kjarnfóður og velja það sem er hagkvæmast fyrir viðkomandi bú. Því er mikilvægt að fóðursalar uppfæri gildin í fóðurtöflunni reglulega og gefi upp nákvæm orkugildi. Í tengslum við uppfærsluna var ákveðið að taka samtals 146 kjarnfóðursýni sem skiptust í 84 frá Danmörku, 15 frá Íslandi, 24 frá Noregi og 23 frá Svíþjóð til að bera spáð orkugildi út frá efnagreiningu saman við það sem er gefið upp í NorFor-fóðurtöflunni.
Íslensku sýnin voru flest fengin beint frá fóðurframleiðendum en 3 sýni voru tekin úr sílóum hjá bændum. Sýnin voru votmæld og efnagreind með NIR-tækni hjá Eurofins í Hollandi og niðurstöður bornar saman við skráð gildi í NorFor. Samhliða var líkanið fyrir orku prófað aftur til að tryggja öryggi þess við útreikningana.
Íslensk skráning í lagi
Ákveðið var að bæta öskuinnihaldi inn í líkanið eftir prófun, þannig að í dag byggir það á innihaldi trénis, fitu, hrápróteins, ösku og meltanleika lífræns efnis. Í framhaldinu var líkanið notað til að reikna út orkugildið í áðurnefndum kjarnfóðursýnum.
Mörkin fyrir útlaga voru samkvæmt ESB-stöðlum ± 5% frávik frá uppgefnu gildi. Útlagar voru samtals 35 (24%) í gagnasafninu, aðeins 2 gildi voru hærri en uppgefið orkugildi en 33 mældust með minni orku en uppgefið var í fóðurtöflunni. Sænsku sýnin voru með flesta útlaga (46%) og þar á eftir norsku sýnin með 33%. Sýnin frá Danmörku og Íslandi komu nokkuð vel út þar sem útlagar voru 14% og 13%, sem þýðir að aðeins féllu tvö af íslensku sýnunum utan marka (mynd 1).
Með því að skoða samband allra þátta í líkaninu og útlagana kom í ljós að trénisgildið vó mest, þ.e.a.s. því meiri breytileiki í efnagreindu og uppgefnu trénisinnihaldi í fóðurtöflunni, þess meiri breytileiki var á raunverulegu og uppgefnu orkugildi. Niðurstöðurnar voru kynntar fyrir þeim íslensku fóðurframleiðendum sem tóku þátt í skimuninni. Góð umræða skapaðist um mikilvægi þess að uppfæra blöndurnar inni í NorFor-fóðurtöflunni en einnig um að vera vakandi fyrir breytileika þeirra hráefna sem eru notuð við fóðurframleiðslu og hafa reglu á og vanda sýnatöku úr hráefnum og kjarnfóðri til að tryggja enn betri skráningu.
Ályktanir
Í Noregi og Svíþjóð hafa verið gerðar talsvert færri uppfærslur á kjarnfóðurtegundunum í NorFor en í Danmörku og á Íslandi og getur það skýrt niðurstöðurnar frá þeim löndum. Frá Danmörku bárust langflest sýni og var skráningin þar hlutfallslega á pari við Ísland.
Danmörk er eina landið þar sem gerðar eru kröfur um reglulega skimun og óháð eftirlit með kjarnfóðri og telst það meginástæðan fyrir góðri útkomu þar. Eftirlitið hvetur fóðurframleiðendur til að vera duglegir að taka sýni úr hráefnum og kjarnfóðri til að uppfæra efnagildin. Hérlendis tíðkast að nota gömlu aðferðina sem felst í að setja inn uppskriftir og uppfæra þær reglulega yfir árið til að tryggja að gildin fyrir efnainnihald séu rétt.
Það hefur eflaust jákvæð áhrif á niðurstöðurnar, en stundum eru hráefnin sem verið er að vinna með ekki alveg eins og þau sem má finna í NorFor-töflunni.
Þess vegna er mikilvægt að vita hvað við erum með í höndunum hverju sinni.