Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Jafnari og betri dreifing og nýting köfnunarefnis næst með notkun slöngubúnaðar. Slöngubúnaður gerir kröfur um meiri þynningu á mykjunni en ef dreifispjald er notað og það getur þýtt að fara þurfi fleiri ferðir þegar notaður er slöngubúnaður því magnið verður meira.
Jafnari og betri dreifing og nýting köfnunarefnis næst með notkun slöngubúnaðar. Slöngubúnaður gerir kröfur um meiri þynningu á mykjunni en ef dreifispjald er notað og það getur þýtt að fara þurfi fleiri ferðir þegar notaður er slöngubúnaður því magnið verður meira.
Mynd / Aðsendar
Á faglegum nótum 18. apríl 2024

Vordreifing búfjáráburðar

Höfundur: Eiríkur Loftsson, ráðunautur í jarðrækt.

Búfjáráburður inniheldur meðal annars köfnunarefni (N), fosfór (P) og kalí (K) í því magni að með réttri notkun hans má spara kaup á tilbúnum áburði í nokkrum mæli.

Eiríkur Loftsson.

Til að svo megi verða þarf dreifing að eiga sér stað á réttum tíma, við réttar aðstæður og að vandað sé til hennar. Til að átta sig á því hvaða næringarefni þurfa að koma annars staðar frá þarf að vita áburðarþarfir þeirra nytjaplantna sem bera skal á og eins innihald búfjáráburðarins.

Form

Þegar N í búfjáráburði er mælt í efnagreiningum er niðurstaðan sett fram sem heildar N og sem N á formi ammoníum. Mismunurinn á þessum gildum gefur þá það magn af N sem er bundið í lífrænu efni búfjáráburðarins. N á formi ammoníum verður aðgengilegt plöntum strax eða fljótt eftir dreifingu en N sem er bundið í lífrænu efni búfjáráburðar er þá minna aðgengilegt plöntum en verður það á lengri tíma þegar lífræna efnið brotnar niður fyrir tilstuðlan ýmissa lífvera í jarðveginum. Hænsnaskítur er samt undantekning frá þessu því köfnunarefnið í honum umbreytist hratt á aðgengilegt form fyrir plöntur þó það sé að miklu leyti bundið í lífrænum samböndum.

Hlutfall N á formi ammoníum er meira í þynnri búfjáráburði s.s. mykju (u.þ.b. 40-60%) heldur en í taði, í skít blönduðum undirburði eða moltu þar sem það er u.þ.b. 20-30% af heildar N. Þetta er gott að hafa í huga þegar ákveðið er hvernig og hvar tilteknum búfjáráburði er dreift.

Þykkt mykju er misjöfn eftir aðstæðum og ræðst af því hve miklu er blandað í hana af vatni. Mikilvægt er að vita efnainnihald og þurrefni mykjunnar við dreifingu svo finna megi út hve mikið er borið á af einstökum næringarefnum. Meiri þynning bætir nýtingu köfnunarefnis í mykju og eru þau áhrif talin ná niður í 2% þurrefni.

Það er einnig breytilegt eftir aðstæðum hve mikið er af næringarefnum í taði og æskilegt að láta efnagreina sýni úr því.

Dreifing

Eins og fyrr segir er um eða ríflega helmingur köfnunarefnis í mykju á formi ammoníum og er aðgengilegt plöntum fljótt eftir dreifingu mykjunnar. Það er því best að dreifa mykju á vorin þegar plönturnar geta tekið þetta köfnunarefni upp hratt og vel og þannig að nýting þess verði sem best. Þegar hugað er að dreifingu verður að gæta þess að jarðvegurinn þoli örugglega þann þunga og umferð sem henni fylgir. Of mikil þjöppun jarðvegs skaðar jarðvegsbyggingu og veldur verri nýtingu áburðar, lakari endingu sáðgresis og minni uppskeru. Þjöppun af umferð er líklega einn af þeim þáttum sem valda mestum skaða í túnrækt. Dreifing á tún að hausti gefur jafnan verri nýtingu á köfnunarefni en vordreifing. Aðstæður og veður við dreifingu skipta máli, þannig verður nýting köfnunarefnis lakari við hærri lofthita og einnig eru áhrif af vindi neikvæð. Köfnunarefni tapast úr mykju sem liggur á yfirborði í lengri eða skemmri tíma, því hefur hæfileg úrkoma við dreifingu eða að henni lokinni jákvæð áhrif. Einnig veldur meiri þynning því að mykjan renni betur niður og liggi síður á yfirborði túns. Sum staðar hefur búfjáráburði verið dreift síðla vetrar eða í byrjun vorkomu á auða og freðna jörð m.a. vegna þess að geymslurými er ekki nægt. Við þær aðstæður ætti að dreifa áður en jörð fer að þiðna þannig að umferð skaði jarðvegsbyggingu og eins að þynna mykju þannig að hún liggi sem minnst á yfirborði.

Við eðlilegar aðstæður er ekki hætta á að fosfór eða kalí úr búfjáráburði tapist. Þær aðstæður geta þó skapast ef áburður rennur á yfirborði burt af túni eða úr akri sem sjaldan ætti þó að gerast ef jörð er þýð. Mjög mikil úrkoma getur valdið útskolun þegar næringarefni skolast niður í jarðveginn og verða þannig ekki aðgengileg plöntum. Mest er hættan á að kalí og auðleystu köfnunarefni skoli þannig út og gerist þá helst í sendnu landi eða öðrum gljúpum jarðvegi.

Yfirleitt er ekki ástæða til að bera meira á af búfjáráburði en sem nemur því magni sem uppfyllir þarfir spildu fyrir fyrsta næringarefnið af N, P eða K. Oftast á þetta við um kalí því búfjáráburður er jafnan kalíríkur. Jákvæð áhrif búfjáráburðar á gæði jarðvegs og heilbrigði hans mæla með því að honum sé reglulega dreift á sem stærstan hluta ræktaðs lands þar sem því er við komið en eðlilegt er samt að mikilvægustu spildurnar hafi forgang að honum.

Búnaður

Við dreifingu á mykju hér á landi er algengast að á mykjuvagninum eða haugsugunni sem notuð eru til flutnings og dreifingar sé dreifispjald eða slöngubúnaður. Helsti munurinn á þessum aðferðum er sá að slöngubúnaðurinn leggur mykjuna á yfirborð jarðvegsins þannig að mun minna af henni fer á túngróðurinn og spretta má vera komin lengra þegar dreift er á án þess að hætta sé á að uppskeran verði menguð eða ólystug. Jafnframt næst með slöngubúnaði jafnari og betri dreifing og nýting köfnunarefnis úr mykjunni verður að öllu jöfnu betri. Slöngubúnaður gerir kröfur um meiri þynningu á mykjunni en ef dreifispjald er notað og það getur þýtt að fara þurfi fleiri ferðir þegar notaður er slöngubúnaður því magnið verður meira. Vandasamt getur verið á vorin að finna besta tímann til mykjudreifingar þannig að ekki verði skemmdir á túnum af umferð þungra tækja. Þeim bændum fjölgar sem sjá hag í því að aka ekki með mykjuna út á tún í mykjuvögnum eða haugsugum, heldur dæla henni beint úr hauggeymslu út á tún um slöngur og dreifa henni á túnin með slöngubúnaði aftan á dráttarvél (stundum nefnt naflastrengur).

Búfjáráburður eins og hálmskítur og heyblandað tað inniheldur lítið af köfnunarefni sem nýtist plöntum fljótt. Best er að nota hann í flög, plægja hann niður eða vinna hann vel niður. Ef undirburðurinn er stór hluti taðsins getur það í fyrstu haft neikvæð áhrif á nýtingu köfnunarefnis úr öðrum áburði. Ástæðan er sú að bakteríur í jarðveginum sem brjóta niður plöntuleifar og annað lífrænt efni nota köfnunarefni sem orkugjafa og ef mikið gengur á hjá þeim getur tímabundið orðið skortur á köfnunarefni fyrir plöntur og hægir þá á sprettu þeirra. Þegar kemur fram á sumar og síðsumars má síðan búast við losun á köfnunarefni sem nýtist plöntum til sprettu. Svona búfjáráburður getur hentað vel í ræktun á grænfóðri og þegar sáð er í tún. Í kornrækt er plöntunum ætlað að spretta fljótt svo þær nái að þroska korn síðsumars. Því er að öllu jöfnu ekki skynsamlegt að nota svona búfjáráburð í kornakra því hætt er við að hann seinki kornþroska. Þegar nota á búfjáráburð í kornakra er betra að nota mykju þar sem meirihluti köfnunarefnisins er á formi ammoníum.

Haugtað sem staðið hefur úti og verkast inniheldur lítið af köfnunarefni sem nýtist fljótt. Það hentar vel sem áburður í flög en getur einnig hentað vel sem áburður á tún molni það nægilega niður við ávinnslu til að það berist ekki í fóðrið og spilli verkun þess.

Við dreifingu á taði gefa dreifarar sem kalla má tveggja þrepa dreifara betri og jafnari dreifingu en eldri og einfaldari dreifarar. Tveggja þrepa dreifarar eru með búnað (snúningskefli) sem mylur taðið á leið sinni að dreifiskífum sem kasta því síðan aftur og til hliðanna úr frá dreifaranum.

Haugtað sem staðið hefur úti og verkast inniheldur lítið af köfnunarefni sem nýtist fljótt.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...