Fæðuöryggi og varnarmál
Alþjóðasamstarf og tengslanet erlendis er okkur sem störfum í hagsmunagæslu landbúnaðarins nauðsynlegt.
Áskoranir og tækifæri landbúnaðar eru mörg hver þau sömu hvert sem litið er og því afar gagnlegt að sjá og heyra hvernig aðrar þjóðir bregðast við ólíkum áskorunum á sinn hátt og vinna að bættum tækifærum. Bændasamtök Íslands eiga samstarfsvettvang með bændasamtökum Norðurlandanna innan Nordiske Bondeorganisasjoners Centralråd (NBC) en í ár heldur Ísland Presidiemöte NBC, dagana 13.-15. ágúst á Hotel Natura í Reykjavík.
Hvernig er veðrið?
Í síðustu viku fór ég til Helsinki þar sem fulltrúar landanna hittust á fundi til að skipuleggja fundinn í Reykjavík en einnig fundaði ég með fæðuöryggishóp NBC. Við eigum margt sameiginlegt með bændum Norðurlandanna og að sjálfsögðu var það með fyrstu spurningum sem hópurinn ræddi sín á milli hvernig veðrið væri og hvernig hafi vorað í okkar löndum. Hér á landi hefur vorað heldur seint og vorið verið nokkuð kalt svo að jarðvinnsla og vorverk hafa farið af stað heldur seinna en á væri kosið. Mikil veðurblíða hefur verið á hinum Norðurlöndunum og vorið hlýrra en fólk á að venjast með hitatölur yfir 20 stigum í nokkurn tíma. Þetta hefur valdið því að þurrkar í ökrum hafa gert bændum erfiðara fyrir, þó með undantekningu þar sem bændur í Norður-Finnlandi hafa þurft að bíða eftir að akrar þorni.
Fæðuöryggi er hluti af varnaráætlunum þjóða
Það var áhugavert að sitja í hóp fulltrúa fimm landa og fara yfir aðstæður er snéru að fæðuöryggi í hverju landi fyrir sig. Hernaðarógn og nálægð Finnlands við Rússland hefur óneitanlega haft mikil áhrif á viðbúnað og þankagang Finna. Finnland hefur lagt mikla áherslu á varnarstöðu landsins og fæðuöryggi er stór hluti af því. Neyðarbirgðastofnun Finnlands hefur mótað nýja stefnu fyrir árin 2024–2027 sem ber yfirheitið Höggþolið Finnland. Hernaðarbrölt í Evrópu hefur vakið allar þjóðir til umhugsunar um að bæta varnarstöðu sína og alls staðar er aukið fæðuöryggi hluti af því. Finnland, Noregur og Svíþjóð eiga það öll sameiginlegt að vilja auka hlutfall innlendrar matvælaframleiðslu og efla sjálfsaflahlutfall þjóðanna. Danir skera sig nokkuð úr sem mikil útflutningsþjóð með gríðarlega matvælaframleiðslu og lokun landamæra hefur meiri áhrif á þá þar sem þjóðin treystir mikið á vöruskipti en er eins og önnur lönd einnig háð innflutningi.
Í augum hinna Norðurlandaþjóðanna eru áhrif á fæðuöryggi af jarðhræringum á Íslandi nokkuð framandi. Fjármálaumhverfi og hækkanir aðfanga hafa einnig haft áhrif á landbúnað í hinum Norðurlöndunum en íslensk verðbólga og vaxtastig virtust þó vekja jafnmikla undrun meðal hinna fulltrúanna og íslenskar jarðhræringar. Það verður ekki frá því horfið að fjárhagsumhverfi hér á landi hefur einfaldlega ógnað framleiðslugetu og er hindrun í að efla fæðuöryggi landsins.
Ábyrgð bænda – ábyrgð þjóða
Áhugaverðar umræður komu upp um hvernig alls staðar hefur áhersla verið lögð á aukna innanlandsframleiðslu matvæla og samhliða því hafi mikil ábyrgð verið lögð á herðar bænda til að tryggja fæðuöryggi. Í þessu samhengi virðist þó ekki hafa verið nægilega vel úthugsað hvernig bændur eiga að mæta auknum væntingum um framleiðslu og mótmæli bænda um Evrópu hafa sýnt okkur að landbúnaður er kominn að sársaukamörkum. Voru fulltrúar landanna öll sammála um að ekki væri rétt að setja alla ábyrgð á bændurna og að yfirvöld þyrftu að átta sig á því að auka þyrfti stuðning við landbúnað þar sem fæðuöryggi er grundvallarþáttur í varnarmálum hverrar þjóðar. Þetta getum við vel heimfært á okkur en mikil ábyrgð er lögð á herðar bænda. Bændur eru gjarnan kallaðir vörslumenn landsins og mikilvægi landbúnaðarins í loftslags- og umhverfismálum fer sífellt stækkandi. Samhliða þessu hefur aukin ábyrgð verið lögð á herðar íslenskra bænda hvað varðar fæðuöryggi sem er óumdeilanlega stór þáttur í varnarmálum landsins. Það er mikilvægt og sameiginlegt verkefni þjóðarinnar að efla innlendan landbúnað og fjárfesta í íslenskri matvælaframleiðslu og vexti.