Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Höfundur: Egill Gautason, kynbótafræðingur og lektor við LbhÍ.

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þrætuepli í íslenskri nautgriparækt.

Egill Gautason.

Helst kreppir skórinn í kvígu­sæðingum. Innan við 30% fæddra kálfa undan fyrsta kálfs kvígum eru undan sæðinganautum og einungis rúmlega tveir þriðju allra fæddra kálfa eru undan sæðinganautum. Ráðunautar hafa lengi kvabbað í bændum yfir þessu og réttilega bent á að heimanautin eru dragbítur á erfðaframförum. Sumir bændur eru langþreyttir á aðfinnslunum. Þrátt fyrir kvabbið hefur staðan ekki batnað og heldur versnað hin síðari ár.

Umræðan um heimanautanotkun er ekki síður aðkallandi eftir að erfðamengjaúrval var tekið upp. Sú ákvörðun var tekin þegar erfðamengjaúrval var innleitt að birta bændum erfðamat nautkálfa. Erlendis hafa kynbótafyrirtæki haldið slíkum upplýsingum leyndum. Það er til þess að vernda hagsmuni fyrirtækjanna sem vilja ekki að bændur selji gripina á grundvelli erfðamats sem þessi sömu fyrirtæki hafa haft mikið fyrir að reikna. Birting erfðamatsins til bænda græfi undan þeirra starfi.

Hérna kemur að mikilvægu tæknilegu atriði sem varðar val á heima­nautum. Ef naut er valið á grundvelli foreldra sinna, þ.e. kynbótamati sem er meðaltal móður og föður, þá er öryggi úrvals afar lágt. Hins vegar er öryggi úrvals mjög sambærilegt hjá öllum gripum sem fá erfðamat, að því gefnu að ættfærslur, arfgreiningar ættingja, og skýrsluhaldsgögn séu áreiðanleg. Þetta gerir að verkum að bændur hafa betra tól í höndunum til að velja heimanaut heldur en áður, ef þeir kjósa að gera svo.

Hættan við birtingu erfðamats fyrir nautkálfa er að bændur dragi úr notkun sæðinganauta, kaupi frekar sín á milli naut með hátt erfðamat og noti þau sem þarfanaut, og dragi heldur úr sæðingum. Ef þetta raungerist yrði um að ræða gríðarlega afturför í íslenskri nautgriparækt og hugsanlega algjöran forsendubrest. Með þessum skrifum mínum er ég ekki að lýsa vanþóknun minni yfir þeirri ákvörðun að birta erfðamat nautkálfa. Það eru góð rök með og á móti þessari ákvörðun. En mér þykir mikilvægt að allir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að ekki verði frekari aukning í notkun heimanauta. Ég tel að íslensk nautgriparækt ætti að stefna að því að að minnsta kosti 90% fæddra kálfa séu undan sæðinganautum.

Tæknisæðingar eru ein mikil­vægasta bylting sem hefur átt sér stað í kynbótum nautgripa. Ástæðan er sú að með sæðingunum er hægt að nota bestu gripina margfalt á við náttúrulega sæðingu og auka þannig úrvalsstyrk. Aukning úrvalsstyrks með sæðingastarfi hefur verið lykilþáttur í þeim erfðaframförum sem hafa orðið hjá mjólkurkúm á Íslandi og erlendis síðustu áratugi. Ég efast um að það breytist á næstunni.

Sæðinganautin á hverjum tíma eru að jafnaði erfðalega bestu gripirnir í stofninum. Notkun heimanauta felur í sér notkun lakari gripa og dregur þannig úr úrvalsstyrkleika. Þetta gildir jafnvel þó að öryggi úrvals fyrir heimanaut verði hærra með erfðamati. Niðurstaðan af áframhaldandi mikilli eða aukinni notkun heimanauta verður minni erfðaframfarir.

Ágúst Sigurðsson og Jón Viðar Jónmundsson mátu erfðaframfarir í íslenska kúastofninum árið 2011 og skoðuðu sérstaklega áhrif heimanauta á úrvalsyfirburði. Þeirra niðurstaða var að notkun heimanauta drægi verulega úr úrvalsyfirburðum og þar með úr erfðaframförum í stofninum. Tilkoma erfðamengjaúrvals breytir ekki þeirri staðreynd að þátttaka í sameiginlega sæðingastarfinu er forsenda fyrir áframhaldandi erfðaframförum.

Ekki er pláss í þessari grein til að rekja ástæður fyrir dræmri þátttöku í sæðingum. Hver bóndi hefur sínar ástæður. En ég vil enda þennan pistling á því að feta í kunnugleg fótspor ráðunauta og kynbótafræðinga og hvetja bændur til að auka kvígusæðingar. Ef bændur sjá sér ekki fært að vera án heimanauta, þá er það rétt að erfðamatið gerir kleift að velja þessi naut með meira öryggi en áður. Hins vegar er það skammgóður vermir ef sameiginlega ræktunarstarfið bíður skipbrot í leiðinni.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...