Forystufólk IFSA – alþjóðlegra samtaka skógvísindanema – við merki IUFRO-
ráðstefnunnar 2024.
Forystufólk IFSA – alþjóðlegra samtaka skógvísindanema – við merki IUFRO- ráðstefnunnar 2024.
Mynd / PH
Af vettvangi Bændasamtakana 17. júlí 2024

Hlustið á vísindin og hefjist handa

Höfundur: Pétur Halldórsson, kynningarstjóri hjá Landi og skógi.

Í Stokkhólmsyfirlýsingunni sem samþykkt var á nýafstöðnu heimsþingi IUFRO er heimsbyggðin eindregið hvött til að grípa til aðgerða gegn loftslagsbreytingum, minnkandi líffjölbreytni, hnignun vistkerfa, mengun umhverfis og vaxandi misrétti í samfélaginu.

Pétur Halldórsson

Framsýnna langtímamarkmiða sé þörf. Sérstaklega er bent á mikilvægi skóga, trjáa og skógarafurða á leið til sjálfbærni og hagsældar í framtíðinni.

Tuttugasta og sjötta heimsráðstefna IUFRO, alheimssamtaka skógvísindastofnana, fór fram í Stokkhólmi 23.–29. júní. Alls voru þátttakendur 4.271 talsins frá 102 löndum. Ráðstefnan skapar alþjóðlegan vettvang fyrir fólk í öllum greinum sem tengjast skógum og skóg- vísindum til að miðla þekkingu og skiptast á sjónarmiðum. Einnig gefur ráðstefnan ungu fólki færi á að leggja sitt til málanna en einnig fólki úr stjórnmálum og stjórnsýslu, forystufólki í skógargeiranum, fulltrúum fyrirtækja og stofnana og fulltrúum frjálsra félagasamtaka. Fulltrúar frá Íslandi voru átta talsins, þar af fimm frá Landi og skógi.

Heimsráðstefna IUFRO fer fram á fjögurra til fimm ára fresti og þar er gefin út yfirlýsing í samræmi við meginviðfangsefni ráðstefnunnar hverju sinni sem nú var skógar og samfélag til 2050. Í yfirlýsingunni sem samþykkt var í lok ráðstefnunnar laugardaginn 29. júní er heimsbyggðin eindregið hvött til að grípa til aðgerða gegn loftslagsbreytingum, minnkandi líffjölbreytni, hnignun vistkerfa, mengun umhverfis og vaxandi misrétti í samfélaginu. Langtímamarkmiða sé þörf.

Veggspjald um Land og skóg í bás SNS á ráðstefnunni.
Fjögur áhersluefni yfirlýsingarinnar

Í yfirlýsingunni eru fjögur atriði tiltekin sérstaklega sem heimsþingið telur skipta sköpum svo tryggja megi framtíð skógarvistkerfa og þar með farsæld fólks um allan heim. Í þessum atriðum felist leiðsögn til forystufólks um þær breytingar sem nauðsynlegar séu á leið til sjálfbærrar framtíðar.

  • Að styrkja seiglu og viðnáms- þrótt skóga og aðlögun þeirra að loftslagsbreytingum.
  • Að viðhalda og styrkja félagsleg verðmæti skóga í þágu sjálfbærra samfélaga.
  • Að víkka út hlutverk skóga og skógarafurða í ábyrgu hringrásarkerfi sem ýtir undir efnahagsþróun, lífsafkomu fólks, hamlar gegn loftslagsbreytingum og stuðlar að kolefnishlutlausu efnahagslífi.
  • Að þróa skógartengd vísindi til framtíðar.
Timbur leysi önnur efni af í byggingum

Sérstaklega er bent í yfirlýsingunni á mikilvægi skóga, trjáa og skógarafurða á leið til sjálfbærni og hagsældar í framtíðinni. Um leið er minnt á að skógarnir hafi ekki að geyma allsherjarlausn á umhverfis- og loftslagsvandanum og að skógarnir séu sjálfir í hættu ef ekki tekst að grípa til róttækra aðgerða á öðrum sviðum samfélags og mannlegra athafna.

Á ráðstefnunni var ekki síst mikil áhersla lögð á mikilvægi þess að skipta yfir í timbur og aðrar skógarafurðir sem byggingarefni með sívaxandi þéttbýlismyndun. Þetta kom vel fram í innblásinni ræðu Hans Joachims Schellnhubers prófessors á lokadegi ráðstefnunnar. Hann ræddi um uppbyggingu bæja og borga sem fílinn í sjálfbærniherberginu. Þar væru umskiptin frá mengandi efnum eins og stáli, steinsteypu og jarðefnaeldsneyti yfir í timbur afgerandi þáttur í loftslagsbaráttunni.

Ógnir sem steðja að umhverfinu og vísindunum

Undirstrikað er í yfirlýsingunni að líta þurfi til allra þriggja meginþátta sjálfbærni, hins vistfræðilega, efnahagslega og samfélagslega, og móta stefnu í sameiningu. Sérstaklega er minnt á mikilvægi rannsókna og þekkingar í skógvísindum en einnig þekkingar innan samfélaga sem saman geti mótað vegvísi fyrir almenning og leiðtoga inn í framtíðina.

Minnt er á mikilvægi samstarfs og samtals milli ólíkra greina og sviða. Vinna þurfi gegn ógnum sem steðja að vísindum og rannsóknarsamstarfi með minnkandi trausti til vísindastofnana, dreifingu rangra eða villandi upplýsinga, óábyrgri notkun tækni, skorti á víðtæku samstarfi og átökum sem nú geisa landa í milli.

Aðkallandi málefni

Stokkhólmsyfirlýsingin endurspeglar ýmis viðfangsefni sem voru áberandi á ráðstefnunni sem lauk 29. júní. Mikið var rætt um dvínandi líffjölbreytni og viðbrögð við henni, kynjajafnrétti og almenn réttindi fólks og samfélaga. Einnig var áberandi í dagskránni virkur flutningur erfðaefnis trjátegunda til aðlögunar, sem á ensku kallast assisted migration, og getur víða skipt sköpum til að svæði haldist skógi vaxin þegar meðalhiti hækkar. Svokölluð samfelluskógrækt var einnig mikið í umræðunni, þar sem leitast er við að nytjaskógar verði misaldra frekar en jafnaldra og einnig samsettir úr mörgum trjátegundum frekar en einni eða tveimur. Í tengslum við það var mikið fjallað um þær aðferðir sem þarf til að nytja slíka skóga.

Skref að jafnræði kynjanna

Í lokaræðu sinni á ráðstefnunni sendi John Parrota, fráfarandi forseti IUFRO, ákall til heimsbyggðarinnar um markvissar, sanngjarnar aðgerðir sem byggðar væru á bestu fáanlegu þekkingu vísindasamfélagsins um allan heim svo taka mætti upplýstar ákvarðanir af framsýni. Við Parotta tekur nú fyrsta konan sem gegnir embætti forseta IUFRO, Daniela Kleinschmit, prófessor við háskólann í Freiburg í Þýskalandi. Þetta markar tímamót í skógvísindum og endurspeglar vaxandi hlutverk kvenna í skógargeiranum. Á nýafstöðnu heimsþingi IUFRO voru 44% fulltrúanna konur, flestar undir fertugu, sem bendir til jákvæðrar þróunar í átt að raunverulegu kynjajafnvægi og fjölbreytileika í forystu skógarmála.

Samandregið eru skilaboð IUFRO- heimsráðstefnunnar 2024 þessi: Hlustið á vísindin og hefjist handa!

Kartaflan
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tub...

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...