Jákvæðir hvatar og sjálfbærni
Mér lánaðist á dögunum að sitja vinnustofu þar sem var fjallað um áætlanir um stofnun nýs meistaranáms í sjálfbærum landbúnaði.
Þegar margir koma saman til að ræða málin þá verða umræðurnar oft skemmtilegar og mörg sjónarmið sem koma fram, þessi vinnustofa var engin undantekning þar á. Það sem stóð einna helst upp úr gagnvart mínu starfi hjá Bændasamtökunum var staðfesting á því hversu margþætt hugtakið sjálfbærni er þegar kemur
að landbúnaðarframleiðslu.
Ef við skoðum landbúnaðarstefnu stjórnvalda til ársins 2040, sem samþykkt var á Alþingi í júní í fyrra, þá er vel hægt að færa rök fyrir því að allir liðir stefnunnar um framtíðarsýn tengist sjálfbærni með einum eða öðrum hætti. Til dæmis segir í framtíðarsýninni að nýting náttúruauðlinda í landbúnaði verði ávallt sjálfbær, fullnýting afurða og lífrænna hráefna verði tryggð í virðiskeðju landbúnaðar og fæðuöryggi verði tryggt. Einnig að landbúnaður hafi fyrir árið 2040 dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, verði kolefnishlutlaus og hafi mikla aðlögunarhæfni gagnvart loftslagsbreytingum. Þá er talað um að ræktun, nýting lands og bætt landgæði styðji við fjölbreytta atvinnustarfsemi og búsetu um land allt, og landnotkun utan þéttbýlis feli í sér vernd góðs landbúnaðarlands. Framtíðarsýnin nær síðan einnig til þess að eðlileg nýliðun og kynslóðaskipti í landbúnaði verði tryggð og framleiðsla verði arðbær og samkeppnishæf og tryggi byggðafestu og uppbyggingu þekkingar í samfélagi.
Með því að láta þessa framtíðarsýn verða að veruleika væru stór skref stigin í áttina að því að efla sjálfbærni í innlendri landbúnaðarframleiðslu. Aukin sjálfbærni og áherslur í átt að sjálfbærni felst oft og tíðum í því að nýta betur, nýta með öðrum hætti og með nýjum aðferðum. Betri nýting á aðföngum í landbúnaðarframleiðslu eins og áburðarefnum, fóðri og olíu eru skref í átt að sjálfbærni sem jafnframt skila sér í vasa bænda af því þetta eru allt kostnaðarliðir í rekstrinum.
Markmið um aukna sjálfbærni og hagsmunir bænda fara því oftar en ekki mjög vel saman.
Í landbúnaðarstefnu stjórnvalda er sett fram það meginmarkmið að styðja íslenskan landbúnað og styrkja stoðir hans til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Í stefnunni er einnig að finna nánari markmið um fyrirkomulag stuðnings við landbúnað en þar segir til dæmis að stuðningur hins opinbera styrki og fjölgi stoðum landbúnaðar á grunni sjálfbærrar nýtingar í þágu loftslagsmála, umhverfis- og náttúruverndar og fjölbreytni í ræktun. Þar segir einnig að stuðningur við landbúnað eigi að skapa stöðugan og traustan grundvöll fyrir innlenda matvælaframleiðslu og fæðuöryggi þjóðarinnar, sem er sjálfbærni í stóru myndinni.
Svona markmiðum má vel ná. Af hverju segi ég það? Svarið er einfaldlega að íslenskir bændur eiga í reynslubankanum bæði aðgerðir og útfærslur í stuðningskerfinu með jákvæðum hvötum sem hafa virkað vel til að innleiða nýjar aðferðir. Skýrsluhaldið okkar er líklega eitt besta dæmið um innleiðingu á nýjum aðferðum sem hafa skilað mikilli þekkingu, framförum og bættri afkomu bænda. Með hjálp jákvæðra hvata er þátttaka í skýrsluhaldskerfunum afgerandi og raunar svo mikil að önnur lönd öfunda okkar af þeirri stöðu.
Ef við byggjum á reynslunni, gögnunum sem við eigum nú þegar og nýjum möguleikum í tækni og tækjabúnaði þá munu jákvæðir hvatar færa okkur hratt í átt að markmiðunum að aukinni sjálfbærni í innlendri landbúnaðarframleiðslu.