Nautgripabændur leggja áherslu á framleiðslutengdan stuðning
Búgreinaþing nautgripabænda í BÍ (NautBÍ) er haldið dagana 22.-23. febrúar og hittust kjörnir fulltrúar vítt og breitt af landinu og ályktuðu um helstu mál búgreinarinnar. Innsendar tillögur voru 56 talsins og efni þeirra nokkuð fjölbreytt.
Nautgripabændum er m.a. umhugað um fagleg málefni, nýliðun og starfsumhverfi. Veigamestu málin sem verða til umræðu snúa þó að fjárhagslegri stöðu greinarinnar og útfærslu ríkisstuðnings. Búgreinin hefur á undanförnum árum brugðist við hröðum breytingum á markaði og stóraukinni eftirspurn á sama tíma og stuðningur hefur farið þverrandi, bæði í formi ríkisgreiðslna og tollverndar. Nautgripabændur hafa tekist á við gríðarlegar rekstraráskoranir á síðasta ári með tilkomu hækkana á aðföngum og fjármagnskostnaði. Ljóst er að nautgripabændur þurfa að fá skýr skilaboð um það hvort halda eigi áfram að framleiða hér íslenska mjólk og nautakjöt eða hvort flytja eigi greinina úr landi og fólk geti þá farið að snúa sér að öðru.
Þörf fyrir aukinn stuðning í takt við aukna framleiðslu
Frá aldamótum hafa íslenskir mjólkurframleiðendur brugðist við aukinni eftirspurn mjólkur með auknum framförum í afköstum og framleitt mjólk upp í heildargreiðslumark sem er í dag 149 milljónir lítra en var 100 milljónir lítra árið 2000. Á sama tíma hefur heildarríkisstuðningur við nautgriparæktina lækkað um þrjá milljarða. Stuðningsgreiðslur á hvern lítra hafa þannig lækkað úr 103 kr./ltr. niður í 49,8 kr./ltr. sé gert ráð fyrir því að heildarstuðningur nautgriparæktarinnar deilist allur á greiðslumark hvers árs. Á sama tíma hefur nautakjötsframleiðsla einnig aukist til muna. Í lok árs 2004 voru 3.592 tonn framleidd af nautgripakjöti en í lok árs 2022 var magnið 4.948 tonn. Samhliða aukinni eftirspurn hafa bæst við auknar kröfur um gæði framleiðslunnar, bættan aðbúnað og loftslagsaðgerðir. Ljóst er því að raunverulegur stuðningur á hvern lítra mjólkur og hvert kíló nautakjöts er enn lægri en tölurnar hér til hliðar gefa til kynna. Nautgripabændur hafa náð umtalsverðri hagræðingu síðustu ár, búum hefur fækkað en afköst á hvert bú og hvern grip stóraukist, samhliða hefur greinin dregið verulega úr losun kolefnis og aðbúnaður nautgripa, heilt yfir, aldrei verið betri. En aukinn fjármagnskostnaður tekur verulega í, sérstaklega á þeim búum sem þar mest uppbygging hefur orðið og við nálgumst óðar rekstrarleg sársaukamörk búanna.
Nautakjötsframleiðslan hefur í langan tíma glímt við rekstrar- og afkomuvanda og hefur vandi greinarinnar verið viðurkenndur af stjórnvöldum síðastliðin tvö ár með einskiptisaðgerðum í formi aukafjárstuðnings við greinina. Út frá upplýsingum úr rekstrarskýrslum RML borguðu nautakjötsframleiðendur að meðaltali 603 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2019, árið 2020 borguðu þeir að meðaltali 568 krónur með hverju kílói og árið 2021 borguðu þeir að meðaltali 412 krónur með hverju kílói. Aukin sérhæfing hefur orðið í nautakjötsframleiðslu á síðustu árum og segja má að ný atvinnugrein hafi byggst upp í sveitum landsins sem nauðsynlegt er að styrkja með auknu fjármagni í búvörusamningum. Full ástæða er til að styrkja nautakjötsframleiðsluna þar sem mikil eftirspurn er eftir íslensku nautakjöti og allir innviðir til staðar til að auka framleiðsluna, verði rekstrarforsendur til þess.
Það er óraunhæft að ætlast til þess að mjólkur- og nautakjötsframleiðendur séu, í harðnandi rekstrarumhverfi, tilbúnir að auka við framleiðslu sína til að svara eftirspurn markaðarins á sama tíma og ríkisstuðningurinn þynnist út og tollvernd fer stórlega þverrandi.
Áhersla verði aukin á framleiðslutengdan stuðning
Við könnumst líklega flest við að þegar framleiðslutengdur stuðningur er til almennrar umræðu er umræðan oft neikvæð og allt of algengt að ekki sé gerður greinarmunur á stuðningskerfi milli búgreina. Íslensk mjólkurframleiðsla býr þó svo vel að hafa framleiðslustýringu sem virkar, árlega er gefið út heildargreiðslumark sem byggt er á söluspám þess árs. Þannig er komið í veg fyrir bæði skort á mjólk og óhóflega umframframleiðslu. Með því að greiða stuðning til þeirra bænda sem sannanlega skila mjólk sem óskað er eftir á markað er fyrst og fremst verið að stuðla að fæðuöryggi, auk þess myndast í beinu framhaldi hvati fyrir bændur að ná frekari árangri og hagræðingu í sínum rekstri.
Fjöldi innsendra tillagna á búgreinaþing NautBÍ fjalla um að áhersla á framleiðslutengdan stuðning í nautgriparækt verði aukinn. Þetta er einnig mjög í takti við niðurstöður skoðanakönnunar sem NautBÍ lagði fyrir alla nautgripabændur landsins í lok síðasta árs.
Í könnuninni voru nautgripabændur spurðir hvernig þeir vildu sjá stuðningsgreiðslur búvörusamninga þróast. Alls vildu 76% svarenda sjá aukið fjármagn á framleiðslutengda liði. Í framhaldinu var spurt hvaða stuðningsgreiðslur bændur vilja að mest áhersla sé lögð á. Mjólkurframleiðendur leggja mesta áherslu á greiðslur út á greiðslumark og innvegna mjólk, nautakjötsframleiðendur leggja mesta áherslu á sláturálag sem fæst í gegnum nautakjötsframleiðslulið samningsins. Allt eru þetta framleiðslutengdar greiðslur.
Framleiðslutengdur stuðningur er gegnsætt og einfalt form stuðningsgreiðslna, eitthvað sem öll kæra sig kannski ekki um en með tilkomu aukinnar áherslu á fæðuöryggi síðustu ár þurfum við kannski að stíga eitt skref til baka og hugleiða til hvers ríkisstuðningur í matvælaframleiðslu er hugsaður. Á stuðningurinn ekki fyrst og fremst að stuðla að fæðuöryggi og aðgengi fólks að hollum og heilnæmum matvælum á sanngjörnu verði? Með því að leggja áherslu á framleiðslutengdan stuðning er stuðlað að fæðuöryggi og bændum gefinn hvati til að hagræða og auka afköst á hvern grip en þar liggja einnig ein mestu tækifæri búgreinarinnar til að draga úr kolefnisspori greinarinnar.